10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir því að í sambandi við umræður um þetta frv. mundi fara fram sjávarútvegsumræða eða að teknir yrðu til umræðu sérstakir þættir og vandamál sjávarútvegsins sem snertu ekki beint þetta frv. En hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, hélt alllanga ræðu og ágæta um þau vandamál sem blasa við þeim Vestmanneyingum fyrst og fremst í sambandi við útflutning fisks með gámum. Ég get tekið undir flest af því sem þm. sagði um þau vandamál sem skapast í sambandi við það að stór hluti aflans er fluttur út óunninn en ég held að það sé rétt að minna hv. þm. á það, um leið og hann kvartar undan þeirri þróun sem á sér stað í sambandi við aukinn útflutning óunnins fisks, að þar eru að koma fram afleiðingar þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem hann hefur verið einn ákafasti málsvarinn fyrir.

Aflamarksstjórnin og aflamarkið, af því leiðir að menn leita eftir því að fá nokkru fleiri krónur fyrir fiskkílóið, fyrir þann skammt sem þeim er fenginn í hendur. Það liggur nokkurn veginn alveg klárt fyrir að sá sem flytur fisk út í gámum fær nokkru fleiri krónur fyrir aflann og hann er um leið reyndar að plata kerfið. Það verður miklu meiri rýrnun á aflanum en upp er gefið samkvæmt kvóta. Það verður miklu meiri rýrnun á gámafiskinum en 10%.

Það var gerð tilraun með þetta vestur í Rifi í fyrra. Fluttur var út gámafiskur og fiskurinn var vigtaður fyrst, um leið og hann kom í land. Reynslan var sú að þetta var 20-24% rýrnun í staðinn fyrir 10% rýrnun. Þeir fengu sem sagt 10% uppbót á kvótann sinn með því að láta hann fara í gegnum gáma en jafnvel ekki miklu hærra verð vegna þess að rýrnunin var miklu meiri en útreiknað var í verðinu.

Því miður, ég vil ekki óska hv. þm. til hamingju með þessa útkomu alla saman. Ég samhryggist honum í því að hann þurfi að leggjast gegn þessari þróun sem er að eiga sér stað vegna þess að það kemur mjög illa við mörg byggðarlög og þá ekki síst Vestmannaeyjar.

Fyrst farið var að fjalla um sérstök vandamál sjávarútvegs í dag get ég ekki á mér setið að koma hér með vandamál þeirra Breiðfirðinga, þeirra Vestfirðinga og annarra sem nú blasir við vegna þess að það er gott fiskirí, vegna þess að þorskurinn gefur sig til. Nú blasir það við að fjöldi báta er að verða búinn með sinn aflakvóta og eru sumir þegar búnir.

Um þetta leyti undanfarin vor hefur verið tekin ákvörðun um það hvort skuli bætt við aflamarkið og ég veit að menn víða um land bíða nú í ofvæni eftir að heyra hver verður úrskurður Hafrannsóknastofnunar um könnun afla og könnun fisks á fiskislóð og hver verður ákvörðun sjútvrn. eða hvort búið er að taka ákvörðun um það hvort bætt verður við kvótann.

Ég tel að menn líti svo á, og reyndar hafa verið birtar tölur um það, að fiskistofnar við Íslandsstrendur séu í hröðum uppvexti. Og það mun vera álit sjómanna t.d. við Breiðafjörð, manna sem eru búnir að stunda þar sjóróðra í fleiri, fleiri vertíðir, að annar eins afli og önnur eins fiskgengd hafi þar varla áður verið. Allar leiðir vestan af Vestfjarðamiðum og um allan Breiðafjörð, grunnt og djúpt, er nokkurn veginn sama hvar er lagt fiskinetið. Það er allt að því að þeir segi að það sé nærri því hægt að fiska á teinana. Aflinn hefur verið óslitinn frá því að byrjað var að leggja þorskanet í lok febrúar fram á þennan dag og það mun vera algjört einsdæmi að það komi ekki eitthvert tímabil sem afli fellur niður. Menn bjuggust hreinlega við því að eftir páska mundi afli hafa minnkað frá þeim ósköpum sem voru fyrir páska. Ég held að ekki hafi verið laust við að sumir fiskimenn og sumir fiskverkendur hafi jafnvel stunið þegar fréttir bárust að landi um það að aflinn væri engu minni, þegar netin voru dregin eftir páskana, en hann var fyrir páska.

En allt hefur þetta blessast og ég tel að í annan tíma hafi ekki betri afli komið að landi á Breiðafirði né heldur tekist að vinna betur úr honum en núna.

Menn spyrja: Á að stoppa veiði næstu daga vegna þess að kvóti er að verða búinn og er búinn hjá mörgum skipum eða megum við halda áfram að afla nokkru meira af þeirri miklu fiskgengd sem virðist vera á stórum hluta miðanna? Og ég beini þeirri ákveðnu spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort hann geti ekki upplýst okkur um það hér í hv. deild hver niðurstaða hans og Hafrannsóknastofnunar sé í þessu máli og ef svo er ekki hvort það fari ekki að styttast í að sá dómur verði upp kveðinn.