10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt við 1. umr. frv. til l. um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands að vekja athygli á því að hér í deildinni og á dagskrá er raunar til umfjöllunar frv. til l., stjfrv. líka, um svokallaðar talnagetraunir sem sumir telja beinlínis stefnt gegn Happdrætti Háskóla Íslands og þeim þremur stóru happdrættum sem hér eru starfrækt, ágóði hverra rennur allur til menningarmála og líknarmála af ýmsu tagi.

Ýmsir hafa lýst efasemdum sínum um þetta talnagetraunafrv. og vissulega er þar afar margt sem orkar tvímælis að ekki sé meira sagt. Ég tel mig hafa bent á ýmsar veilur í því máli, tel mig líka hafa bent á að þm. séu að afgreiða það að lítt athuguðu máli. Mér finnst það staðfesta margt af því sem sagt hefur verið í umræðum um svokallaðar talnagetraunir að nú skuli lagt fram stjfrv. til l. um Happdrætti háskólans sem miðar að því að víkka starfssvið þess og gefa því happdrætti margvíslega möguleika aðra til happdrættisreksturs en það hefur haft til þessa með því einfalda flokkahappdrætti sem það hefur starfrækt.

Það er líka komin eins konar viðurkenning á því að einkaleyfi Háskólans til peningahappdrættis er ekki lengur til staðar með því að veita íþróttasamtökum, ungmennafélagi og öryrkjabandalagi leyfi til að reka einnig peningahappdrætti.

Með því að ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en mér finnst þetta mjög athyglisvert. Á sama tíma og er beinlínis vegið að starfsgrundvelli þessa happdrættis með stjfrv. sem hér er til umræðu flytur ríkisstj. annað frv. til að reyna að lappa svolítið upp á sakirnar fyrir Happdrætti háskólans. Það er vissulega góðra gjalda vert, en ég ítreka þá skoðun mína, sem ég lýsti hér í gær í umræðum um talnagetraunir, að allt þarf þetta mál meiri athugun en það hefur fengið á hinu háa Alþingi fram til þessa.