05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

35. mál, kjötinnflutningur varnarliðsins

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég vil að gefnu tilefni minna á það, sem öllum er raunar ljóst, að þingsköpum hefur verið breytt svo, að það er ekki gert ráð fyrir í fsp.-tíma að aðrir tali en fyrirspyrjandi og viðkomandi ráðherra. En aðrir þm. geta þó gert stutta athugasemd. Og skv. eðli málsins hlýtur hún að vera mjög stutt, þar sem ræðutími fyrirspyrjanda er tvær mínútur. Það er og gert ráð fyrir að þegar menn gera stutta athugasemd, þá sé það af ríku tilefni, þeir telji sig þurfa að leiðrétta misskilning eða bera af sér sakir, en ekki ætlast til þess að menn stofni til almennra umræðna um málið.

Þetta er ekki sagt í tilefni af því að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur kvatt sér hljóðs. Þetta er sagt í tilefni þess að þetta er í fyrsta sinn, núna við þessar umræður, sem þetta undantekningarákvæði kemur til framkvæmda.