11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3674 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt að eitthvað hreyfist á hv. Alþingi varðandi fiskeldismálin af hálfu núv. ríkisstj. því að satt að segja er það mikil raunasaga hvernig til hefur tekist hjá ríkisstj. í þessu mjög mikilvæga máli, fiskeldismálunum og varðandi stefnumörkun þar að lútandi.

Ég flutti ásamt fleiri þm. Alþb. þegar haustið 1983 till. til þál. varðandi fiskeldismál þar sem m.a. var gert ráð fyrir að mörkuð yrði stefna um rannsóknaraðstöðu vegna fiskeldis, um stöðu fiskeldismála í stjórnkerfinu og um fjármögnun vegna fiskeldis. Þessari till. var vorið 1984 vísað til ríkisstj.

Það gerðist hins vegar á þeim misserum sem hér um ræðir að innan ríkisstjórnarflokkanna eða réttara sagt innan flokks hæstv. forsrh. fór fram römm togstreita milli ráðuneyta og ráðherra Framsfl. um hvar fiskeldismálum skyldi komið fyrir innan stjórnkerfisins. Þetta var togstreita milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. landbrh. og er það ekki eina efnið þar sem reipdráttur fer fram þeirra á milli til trafala fyrir viðkomandi málefni.

Síðan voru fluttar þáltill. á síðasta þingi í sambandi við fiskeldismál og það er fyrst á síðasta sumri að hæstv. forsrh. ákveður að reyna að höggva á þann reipdrátt og hnút sem þessi mál voru í innan ríkisstj. með því að skipa sérstaka þingnefnd af sinni hálfu til að fjalla um þessi mál og marka um þau stefnu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fyrsti áfanginn og vísirinn að árangri á vegum þessarar nefndar og væntanlega eiga fleiri þættir eftir að fylgja. Ég tel það vissulega mjög góðra gjalda vert að frv. þetta er loks fram komið og eins og heyra mátti á hæstv. forsrh. er það síðborið miðað við starf þingsins nú, en ég vil fyrir mitt leyti greiða götu þess í gegnum þingið ef unnt er að stilla menn saman um efni þess og þm. hafa ráðrúm til að fjalla um það með þeim hætti sem eðlilegt er um svo mikilvægt mál og hér er um að ræða.

Ég sé að samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að sérstakri óháðri rannsóknarstöð, deild innan tilraunastöðvarinnar á Keldum, sé gert kleift að taka á fisksjúkdómamálunum með því að sett verði þar á fót sérstök deild, rannsóknadeild fisksjúkdóma. Ég tel þetta eftir atvikum skynsamlega ráðið. Það ætti að koma í veg fyrir að togstreita verði til trafala eðlilegri meðferð þessara mála.

Í sambandi við skipun umræddrar nefndar á síðasta ári af hálfu hæstv. forsrh. kemst ég ekki hjá að gera athugasemd við að þar er gengið fram hjá nokkrum þingflokkum hér á Alþingi, en teknir út úr fulltrúar frá þingflokkum stjórnarflokkanna og einum þingflokki stjórnarandstöðunnar sem gert er fært að vinna að þessu mjög svo þýðingarmikla starfi. Alþb. sem stærsta flokki í stjórnarandstöðu var ekki gefinn neinn kostur á að skipa fulltrúa í þessa nefnd. Ég tel það miður vegna þess að auðvitað á það að geta verið til þess að greiða fyrir framgangi mála að á undirbúningsstigi gefist fulltrúum þingflokka, fyrst þeir eru á annað borð til kvaddir, færi á því að fylgjast með stefnumörkun og umræðum um þessi mjög svo þýðingarmiklu mál.

Hæstv. forsrh. vék að þeim væntingum sem menn hafa í sambandi við fiskeldi hérlendis og ég vil síst draga úr þeim væntingum. Það veitir ekki af að menn hafi einhverja vaxtarbrodda til að horfa til í sambandi við atvinnuþróun í landinu og reynsla Norðmanna vekur vissulega vonir. En þeim mun alvarlegra er í reynd að það skuli vera sá seinagangur á málsmeðferð varðandi fiskeldi hérlendis eins og raun er á orðin í tíð núv. ríkisstj. Á sama tíma er verið að fjárfesta hér í tugum fiskeldisstöðva við mjög mismunandi aðstæður, en það skortir sannarlega á að þessir aðilar fái fyrirgreiðslu af opinberri hálfu og geti stuðst við rannsóknir á vegum opinberra aðila og að safnað verði skipulega reynslu af því starfi sem nú fer fram innan stjórnkerfisins til að geta veitt eðlilega ráðgjöf í þessum efnum framvegis. Ég hvet því eindregið til þess að hraðað verði svo sem frekast er kostur stefnumörkun um þau atriði sem að hinu opinbera snúa í þessu máli því að það er sannarlega orðinn allt of mikill dráttur á því og sá dráttur getur orðið mjög dýrkeyptur. Ég skal ekki leggja neitt mat á hvernig horfir í sambandi við þau fyrirtæki sem eru komin á legg og eru að fikra sig fram í fiskeldi. Svo sannarlega vona ég að það takist vel til, en ég heyri kvíða hjá mörgum í þeim efnum vegna margháttaðrar óvissu, og auðvitað gæti sú óvissa orðið nokkuð dýrkeypt.

Hér er hins vegar frv. um einn þeirra áhættuþátta sem þarna er um að ræða sem ekki skiptir minnstu að á sé tekið og reynslan hefur sýnt í grannlöndum okkar, eins og í Noregi, að er einn stærsti áhættuþátturinn, þ.e. fisksjúkdómarnir. Því er mjög mikilvægt að á þeim sé tekið.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á að vegna forustuleysis af opinberri hálfu hér er hætta á því að erlendir aðilar nái hér meiri fótfestu í sambandi við fiskeldi en æskilegt væri. Ég er síst að hafa á móti því að við byggjum á reynslu erlendra aðila varðandi atvinnuþátt sem þennan, en það er að sjálfsögðu æskilegt að Íslendingar eigi hér sem allra mestan hlut að máli til að halda eftir í landinu arði af þessum atvinnuvegi sem öðrum. Ég held að þróunin í þessum efnum sé að mörgu leyti uggvænleg eða a.m.k. ástæða til að staldra við því að inn í fiskeldisfyrirtæki hérlendis hefur streymt fjármagn stórra og fjársterkra aðila, m.a. frá Noregi, og reynsluleysi Íslendinga á þessu sviði ýtir undir þetta og svo það forustu- og stefnuleysi sem ríkt hefur hjá stjórnvöldum um þessi efni.

Ég endurtek, herra forseti, að ég mun fyrir mitt leyti styðja að frv. þetta geti orðið að lögum, enda treysti þingnefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, sér til að skoða það svo sem nauðsynlegt er, og mun greiða götu þess í gegnum þingið.

Það væri hins vegar ekki óeðlilegt að hæstv. forsrh. athugaði það varðandi framhaldsmeðferð þessara mála á vegum stjórnskipaðrar nefndar hvort ekki sé ástæða til að veita fleiri aðilum þar aðgang til að hafa áhrif á og eiga hlut að þeirri stefnumörkun sem þar fer fram.