11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

368. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. um frv. til l. um selveiðar við Ísland frá sjútvn. Frv. um sama efni var afgreitt jákvætt frá sjútvn. 16. maí 1984 en hlaut ekki afgreiðslu Alþingis. Frv. var lagt fram að nýju og afgreitt á sama hátt frá nefndinni þann 20. mars 1985 en málið hlaut ekki afgreiðslu Alþingis þá frekar en fyrr.

Það frv., sem nú liggur fyrir Alþingi, 368. mál á þskj. 655, felur í sér eftirtaldar meginbreytingar frá fyrri frumvörpum um selveiðar við Ísland:

Í 2. gr. frv. er kveðið á um að rannsóknaráætlanir skuli sendar Hafrannsóknastofnuninni áður en rannsóknir hefjast. Hér er kveðið skýrt á um það að Hafrannsóknastofnunin verði mjög virkur aðili við meðferð þessara mála.

Í 3. gr. segir svo m.a.: "Sjútvrn. skal hafa samvinnu við landbrn. við framkvæmd laga þessara og samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands varðandi ákvarðanir er lúta að friðun og fækkun sela.“

Hér er um töluvert mikla breytingu að ræða og mér sýnist að með henni hafi menn reynt að nálgast nokkuð þau sjónarmið sem voru hér uppi við afgreiðslu þessa máls fyrir rétt um ári síðan. Nú er sem sé kveðið á um það að sjútvrn. skuli hafa samvinnu við landbrn. við framkvæmd þessara laga og samráð við þá aðila sem ég taldi hér upp varðandi ákvarðanir er lúta að friðun og fækkun sela. Hér er að mínu mati um veigamikil atriði að ræða.

Sjútvn. hafði áður leitað umsagna eftirtalinna aðila um frv.: Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands, Náttúruverndarráðs, Félags Sambandsfiskframleiðenda, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og hringormanefndar. Við afgreiðslu málsins nú barst nefndinni bréf frá bráðabirgðastjórn Landssamtaka áhugamanna um selveiðar. Einnig kom á fund nefndarinnar Anna Guðrún Þórhallsdóttir, hlunnindaráðunautur Búnaðarfélags Íslands.

Það er rétt að það komi hér fram að nefndinni bárust tvö bréf eftir afgreiðslu málsins úr nefnd. Annað var frá Samtökum áhugamanna um selveiðar, þar fylgdi með uppkast að lögum fyrir þetta væntanlega félag. Einnig barst mér í hendur bréf frá Sambandi fiskvinnslustöðvanna þar sem var skorað mjög á Alþingi að taka á þessum málum. Með því bréfi fylgir áskorun sem er rétt að lesa:

„Verkamannasamband Íslands, Samband fiskvinnslustöðva og Vinnumálasamband samvinnufélaganna skora á ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að allra tiltækra ráða verði leitað til þess að draga úr því mikla tjóni sem selormur veldur í íslenskum sjávarútvegi og efnahagslífi landsmanna. Aukning á selormi í fiski veldur nú þegar gífurlegum kostnaðarauka í fiskvinnslunni og heldur niðri lífskjörum í landinu.“

Eftir að hafa rætt þetta mál og farið yfir umsagnir varð nefndin sammála um að afgreiða það óbreytt eins og það liggur nú fyrir á þskj. 665. Guðrún Agnarsdóttir sat einnig fund sjútvn. Undir þetta nál. rita allir nm., Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Gunnar G. Schram, Ingvar Gíslason, Pétur Sigurðsson og Halldór Blöndal. Guðmundur Einarsson var ekki viðlátinn afgreiðslu málsins.

Sjútvn. kynnti sér þessi mál ítarlega við fyrri afgreiðslur sínar á frv. Margar umsagnir bárust nefndinni. Einnig kynnti hún sér skýrslu Landverndar, „Selir og hringormar, sýking þorsks á Íslandsmiðum af selormi, fæða landsels og útsels á Íslandi.“

Frv. um selveiðar, er flutt var árið 1984, og það frv., sem hér er til umræðu, eru í meginefni byggð á niðurstöðum nefndar sem skipuð var í ágústmánuði árið 1982 nema hvað varðar 3. gr. frv. þar sem gert var ráð fyrir að ráðherra skipaði fimm manna nefnd sem leitað yrði tillagna hjá um reglugerð um það er varðar selveiðarnar. 13. gr. frv. á þskj. 665 segir:

"Sjútvrn. skal hafa samvinnu við landbrn. um framkvæmd laga þessara og samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands varðandi ákvarðanir er lúta að friðun og fækkun sela.“

Það samráð, sem hér er talað um, við Náttúruverndarráð er m.a. vegna hugsanlegra áhrifa á lífríki og umhverfi og til þess að gætt verði fyllstu náttúruverndar og vísindasjónarmiða við veiðarnar. Sjálfsagt er samráð við Hafrannsóknastofnunina og vísast í því efni til þess er segir í 2. gr. frv.: „Hafrannsóknastofnunin annast rannsóknir á selum við Ísland.“

Búnaðarfélag Íslands er einnig tilnefnt sem samráðsaðili. Það er sjálfsagt, m.a. ef litið er til baka, svo og vegna þeirra hlunninda er landeigendur hafa haft af selveiðum. Fiskifélag Íslands er í þessu tilfelli mjög eðlilegur og sjálfsagður umsagnaraðili.

Frv. það, sem hér er fjallað um, er viðkvæmt og vandmeðfarið. En það að frv. er vandmeðfarið og viðkvæmt nægir ekki til þess að alþm. geti skotið sér undan því að afgreiða málið á þessu þingi.

Í þeim umræðum, er hér fóru fram, fannst mér þm. vera mjög sammála um nauðsyn þess að setja lög um selveiðar við Ísland. Til þessa hefur verið stuðst við mjög takmörkuð ákvæði um selveiðar, m.a. í lax- og silungsveiðilögunum. Hér er lagt til að samþykkt verði frv. um selveiðar við Ísland en ekki bara veiðar, heldur inniheldur þetta frv. einnig ýmsar takmarkanir á veiðum. Það má segja að með þessu frv. sé ekki ætlast til að allt verði hljótt í veiðistöð, heldur er frekar verið að setja ákveðnar umgengnis- og siðareglur.

Eins og ég gat um hér fyrr í máli mínu mæla allir nm. sjútvn. með samþykkt þessa frv. Ég vonast því til þess að málið eigi hér greiða leið í gegnum þessa þingdeild og að þær umræður, sem hér eiga eftir að verða, verði sem málefnalegastar.