05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

57. mál, fangelsismál

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur borið fram til mín fsp. um störf nefndar um fangelsismál.

Þann 20. apríl 1982 var samþykkt á Alþingi svohljóðandi þál. um fangelsismál:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd til að gera heildarúttekt á fangelsismálum og endurskoða lög og reglur þar að lútandi. Á grundvelli þeirrar úttektar skal nefndin skila áliti jafnóðum og það liggur fyrir, er feli í sér:

1. stöðu fangelsismála,

2. tillögur um brýnar úrbætur,

3. áætlun um æskilega framtíðarskipun fangelsismála.

Dómsmrh. skipar formann nefndarinnar úr hópi nefndarmanna.“

Síðar um vorið 1982 skipaði Alþingi eftirtalda menn í nefndina: Braga Jósepsson uppeldisfræðing, Davíð Aðalsteinsson alþm., Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing, Jakob Hafstein lögfræðing, Jósep Þorgeirsson alþm., Ólaf Þórðarson alþm. og Salome Þorkelsdóttur alþm. Þáv. dómsmrh. skipaði Jakob Hafstein formann. Sagði hann af sér formennsku á árinu 1983 og var Davíð Aðalsteinsson þá skipaður formaður.

Eins og framangreind þál. ber með sér er nefnd þessi kosin af Alþingi og starfar í umboði og á ábyrgð þingsins. Einu afskipti dómsmrh. af nefnd þessari eru þau að honum bar að skipa formann úr hópi nefndarmanna sem Alþingi kaus og það hefur tvívegis verið gert. Að öðru leyti hefur ráðherra ekki fengið upplýsingar um störf nefndarinnar og veit ég því ekki frekar hvað þeim líður.