14.04.1986
Efri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Sú brtt., sem hæstv. félmrh. bar hér fram og við vorum að samþykkja afbrigði fyrir, er sjálfsagt frá hans hálfu að einhverju leyti sáttargjörð eða leið til þess að flýta meðferð frv. í gegnum hv. deild. Ég fagna ekki þeirri tillögu. Ég held að þar sé verið að gefa eftir fyrir sýslumannavaldinu og verið að hörfa frá þeim eina punkti sem reglulega var góður í þessu frv., verið að gefa eftir eitt ár í völdum sýslumanna í sambandi við sýslunefndir.

Þau sveitarstjórnarlög sem við búum við núna eru frá árinu 1961, þ.e. að verða 25 ára gömul, og þá tókst að gera sveitarstjórnarlög eftir aðeins eins árs nefndarstarf. Þó að þau lög hafi kannske ekki breytt miklu erum við þó búin að búa við þau eins og ég segi í 25 ár. Á þessu 25 ára tímabili hefur margt breyst þannig að eðlilegt er að við þurfum að fara að fá breytingu á þeim lögum, enda kom fljótt í ljós að lögin voru á þann veg að sveitarstjórnarmenn töldu nauðsyn á að breyta þeim og fljótlega eftir að þau höfðu verið samþykkt fóru að heyrast raddir um það og áskoranir frá sveitarstjórnarmönnum að þeim þyrfti að breyta.

Árið 1966, að fimm árum liðnum frá samþykkt sveitarstjórnarlaganna, var skipuð nefnd um skipun sveitarstjórnarmála, um stærð sveitarfélaga. Sú nefnd skilaði áliti 1968 og lagði þá til m.a. að sveitarfélögunum yrði fækkað í 66. Út úr þessu kom ekkert annað en umræða um þessar tillögur, en á þessu sama ári, árið 1968, tilnefndir Samband ísl. sveitarfélaga nefnd um verkefnaskiptingu og síðan aftur nefnd um landshlutasamtökin, um stöðu þeirra í stjórnsýslukerfinu, það mun hafa verið í kringum 1970, og enn er skipuð nefnd, þá ráðherranefnd, 1973 um endurskoðun sveitarstjórnarlaga og 1976 kemur enn ráðherranefnd um verkaskiptingu og tekjustofna. Sú nefnd er síðan endurskipuð 1979. Enn er svo skipuð nefnd 1981 til að endurskoða sveitarstjórnarlögin. Á öllu þessu tímabili er skipuð hver nefndin ofan á aðra, bæði frá ráðherrum og samtökum sveitarstjórnarmanna, en einhvern veginn komast þessar nefndir aldrei að þeirri niðurstöðu að hingað inn á hv. Alþingi berist tillögur þeirra þannig að um þær verði fjallað í alvöru til að lögfesta þær.

Þessi vinna á þessum árum sýnir vitaskuld fyrst og fremst stefnuleysi ráðherra á þessu tímabili og stefnuleysi stjórnmálaflokka um hvað gera skuli. Svo skeður það að á árinu 1983 sest einn nefndarmaðurinn, sem hefur unnið að þessari tillögugerð, í sæti sjálfs félmrh. Þá var erfitt að búa til eina nefndina enn. Það var því varla um það að ræða fyrir hæstv. félmrh. að taka upp það frv., sem hann að miklu leyti var búinn að semja með félögum sínum, þó að hann setti annan í sinn stað þegar hann tók sæti sem félmrh. Um það var ekki lengur að ræða að leika þann leik að skipa nefnd ofan á nefnd til að ræða þessi mál en marka aldrei stefnu um hvað gera skyldi.

Hæstv. núv. félmrh., sem eins og ég sagði áðan var í nefndinni sem var skipuð 1981, leggur síðan fram frv. á síðasta þingi, það frv. sem var fyrirrennari þess frv. sem við erum að ræða hér. Þetta frv. er komið hingað úr hv. Nd. og var rætt þar allmikið og nokkuð breytt. En staðreyndin er sú að þetta frv., þó segja megi að það sé afrakstur allra þessara nefnda sem ég gat um hér áðan, er ekki mjög mikið plagg. Það má segja kannske ótrúlega lítið afgerandi plagg. Og að sumu leyti stangast það á við þau markmið sem upp eru talin í aths. við frv. Það stuðlar ekki mikið að því sem upp er talið í fyrsta lið, að sjálfsstjórn sveitarfélaga beri að auka. Því miður. Það er ekki mikið í þessu frv. sem eykur sjálfsstjórn sveitarfélaga umfram það sem er í þeim sveitarstjórnarlögum sem við búum við. Og einnig annar liðurinn, að réttarstaða allra sveitarfélaga verði sem líkust, breytist ekki mikið með því frv. sem við erum hér um að fjalla. Og í þriðja lið segir að stuðla beri að vald- og verkefnadreifingu. Því miður er ekki mikið í þessu frv. sem eykur vald- og verkefnadreifingu. Og ég get talið þessa punkta svona áfram upp. Þeir eru sjö. Sá sjöundi er um að stuðla beri að lýðræðislegum stjórnarháttum í meðferð sveitarstjórnarmála. Því miður hef ég ekki fundið í þessu frv. neitt sem eykur lýðræðislega meðferð á sveitarstjórnarmálefnum frá því sem er í lögum frá 1961.

Frv. tekur sem sagt ekki að neinu ráði á þeim þáttum sem upp eru taldir sem aðalmarkmið frv. og endurskoðunarnefndin átti að hafa að leiðarljósi. En þrátt fyrir það er ég ekki að lýsa yfir andstöðu minni við frv. Ég tel að þetta frv. eigi að samþykkja hér í hv. deild, þó ekki væri til annars en að losa hæstv. núv. félmrh. og þá sem á eftir honum setjast í ráðherrastól við þau steinbörn sem allar þessar nefndir hafa skilið eftir sig og hægt sé að byrja á nýjan leik að ræða málin og skipa nefndir og vinna að því að efla og styrkja grunneiningar stjórnkerfis okkar, sameina minni sveitarfélögin og reyna að gera eitthvað í staðinn fyrir það sem komið hefur út úr öllu þessu nefndarstarfi í tvo áratugi, sem er ansi lítið, ég vil ekki segja akkúrat ekki neitt.

Í þessu frv. eru atriði sem eru spor í rétta átt. Það er spor í rétta átt að leggja niður sýslunefndir. Það er rétt spor vegna kosningafyrirkomulags til sýslunefnda og tengsla þeirra við sýslumannsembætti og þess óþarfa millistigs sem þær hafa verið og eru í stjórnkerfinu. En það ber samt að undirstrika að vegna getuleysis litlu sveitarfélaganna hefur víða verið gripið til þess að nota sýslunefndirnar til að leysa ýmis verkefni sveitarfélaganna. Það er ekki vegna ágætis sýslunefndarkerfisins. Það er vegna þess að litlu sveitarfélögin hafa þurft að leita sér að einhverju ákveðnu formi til að leysa ýmis sameiginleg málefni. Þau verkefni eru breytileg frá einu héraði til annars. Á vissu tímabili stóðu sýslunefndir á Suðurlandi að hafnargerð í Þorlákshöfn. Þær höfðu forgöngu um að byggja höfnina í Þorlákshöfn. Víða standa sýslunefndir að bókasöfnum, skólamannvirkjum, jafnvel heilsugæslu. En þetta er ekki það verkefni sem þeim er ætlað. Þær hafa farið út fyrir sinn verkahring þegar þær standa að slíkum verkefnum. Eins og ég sagði áður er það vegna þess að litlu sveitarfélögin hafa verið svo vanmegnug að þau hafa ekki getað staðið ein að þessu að þau hafa leitað til sýslunefndanna, stundum vegna þess að oddvitar og forustumenn í sýslunefnd hafa verið duglegir félagshyggjumenn, foringjar í sínu umhverfi og hafa boðið sýslunefndirnar fram til þess að leysa ákveðin verkefni. En í eðli sínu í stjórnkerfinu á þetta alls ekki þar heima.

Eins og ég nefndi áðan hefur kosningafyrirkomulagið til sýslunefndanna verið mjög ólýðræðislegt þar sem kosinn hefur verið einn fulltrúi úr hverju sveitarfélagi þannig að raunverulega hefur alltaf meiri hlutinn einn getað komið þar inn fulltrúum. Reyndin hefur verið sú víðast hvar að sýslunefndirnar hafa verið fyrst og fremst skipaðar fulltrúum Sjálfstfl. og Framsfl. Minni flokkar hafa ekki haft neinn möguleika til að koma þar neinum fulltrúum að.

Ákvæði 6. gr. frv. eins og það kemur frá Nd., um hvernig farið skuli með þau verkefni sem sýslunefndir hafa haft með að gera, eru dálítið einkennileg og að mínu mati alls ófullnægjandi. Það er ekki nóg að leggja sýslunefndirnar niður. Það þarf að finna eitthvert form til þess að taka við þeim verkefnum sem þær hafa innt af hendi, bæði lagabundið og eins og ég hef nefnt sem sveitarfélögin hafa falið þeim. Með leyfi forseta skal ég lesa þá grein, þ.e. hluta úr 6. gr., þar sem vikið er að því hvernig skuli leysa þau verkefni sem sýslunefndirnar hafa áður verið með. Hún er svohljóðandi:

„Verkefni þau, sem sýslunefndum eru nú falin með lögum, skulu falla til sveitarfélaga. Héraðsnefndir skulu myndaðar um lausn þeirra verkefna og annarra verkefna sem sveitarfélögin fela þeim eða þeim eru falin með lögum. Héraðsnefndir taka við eignum og skuldum sýslufélaga við gildistöku laga þessara nema sveitarfélög, sem aðild áttu að sýslufélagi, óski að yfirtaka þær. Kaupstaðir geta átt aðild að héraðsnefndum og heimilt er að sameina þær með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna. Um héraðsnefndir gilda ákvæði IX. kafla eftir því sem við getur átt.“ Þ.e. kaflans sem fjallar um samvinnu sveitarfélaga.

Hér er kveðið laust að öllu. Sagt er: „Héraðsnefndir taka við eignum og skuldum sýslufélaga við gildistöku laga þessara nema sveitarfélög, sem aðild áttu að sýslufélagi, óski að yfirtaka þær.“ Ef eitt sveitarfélag óskar að yfirtaka sínar eignir hvað verður þá um hinn hlutinn o.s.frv.? „Kaupstaðir geta átt aðild að héraðsnefndum og heimilt er að sameina þær með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna.“ Það er ekki tekið fram hvort kaupstaðir í kjördæmum eða núverandi sýslufélögum skuli verða að gerast aðilar að þessu, heldur er þetta allt laust, ófrágengið. Ég tel að þarna hefði þurft að kveða miklu fastar að orði og að ekki hefðu átt að vera neinar undanþágur.

En þrátt fyrir þessi veiku ákvæði tel ég þó að hér sé um skref í rétta átt að ræða. Aðalatriðið er það að ólýðræðislegt og óþarfa stjórnsýslustig hefur verið lagt niður. Ýmislegt fleira er vitaskuld í þessu frv. til bóta enda væri það eins og ég sagði áður dálítið skrýtið ef ekki þyrfti að laga 25 ára gamla lagasmíð. Aðalatriðið er frá mínu sjónarmiði að með samþykkt þessa frv. er hægt að byrja á nýjan leik án beinna tengsla við nefndafargan og um leið aðgerðarleysi síðustu 20-25 ára og stefna til aðgerða með því að gera meira en tala um það að efla sveitarfélögin, bæði með því að sameina og stækka minni sveitarfélögin og færa sveitarfélögunum aukin verkefni og sjálfsforræði og tryggja aukna tekjustofna.

Sveitarfélögin eru grunneining stjórnkerfis okkar og þar með sú stjórnsýsla sem stendur næst hinum almenna þjóðfélagsþegni. Sveitarfélögin annast margháttuð verkefni. Þau hafa forustu í grunnskólafræðslu, dagvistun, þau annast hafnamál, gatnagerð og skipulagsmál, heilsugæslu, brunavarnir, heilbrigðiseftirlit og margs háttar almenna þjónustu. Og það er nú ekki svo, eins og hv. 8. þm. Reykv. fullyrti hér í ræðustól áðan, að verkefnum sveitarfélaga hafi verið að fækka og þau hafi verið að fara yfir til ríkisins í auknum mæli á undanförnum árum. Það hefur ekki verið þannig, heldur hefur verkefnum sveitarfélaganna verið að fjölga, bæði með því að viss verkefni hafa komið frá ríkinu og einnig vegna eðlilegrar þjóðfélagsþróunar, fleiri og fleiri verkefni hafa verið tekin til afgreiðslu hjá sveitarfélögunum.

Það er mikils um vert að til starfa hjá sveitarstjórnum veljist gott og hæft fólk og sem betur fer tekst oftast að velja til þessara starfa duglegt fólk. Fyrr á árum voru verkefnin sem þarna þurfti að leysa einhæf og eins og ég sagði voru þau miklu færri en nú er. Nú eru verkefnin að verða margbreytileg, auknar kröfur og aukin pappírsvinna sem krafist er af þeim sem sinna þessum störfum. Smá sveitarfélög þurfa að fjalla um grunnskóla, brunavarnir, skipulagsmál og ýmsa almenna þjónustu. Það er ekki aðeins, eins og sumir hafa á milli varanna, að fyrst og fremst sé verið að ræða um fjallskil og hundahreinsun o.s.frv. Þau eru margþætt og yfirgripsmikil málefnin sem sveitarstjórnarmenn þurfa að sinna og til þess hefur þurft í auknum mæli að byggja upp skrifstofuþjónustu. Og eins og ég sagði: Pappírsvinnan í þessu starfi eykst ár frá ári eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Mörg hin fámennari sveitarfélög standa frammi fyrir því að kostnaðurinn við þessa starfsemi er að verða þeim ofviða, þau eru mörg á mörkum þess að geta staðið undir launagreiðslum til nauðsynlegs starfsmanna- og skrifstofuhalds. Því miður hefur reynst erfiðara ár frá ári að fá dugmikla sveitarstjóra til starfa í þeim sveitarfélögum, sem eru það stór að þau eiga að ráða sér sveitarstjóra, og fjárhagsstaða margra sveitarfélaga hefur verið svo bág að erfitt hefur verið að halda uppi þeirri þjónustu sem krafist er af sveitarfélögunum.

Margra ára umræða hefur átt sér stað, hún er jafnvel eldri en sveitarstjórnarlögin, um að það þyrfti að stækka sveitarfélögin, það þyrfti að efla sveitarfélögin, það þyrfti að búa sveitarfélögin betur undir að sinna þeim störfum sem þeim eru falin og ætlast er til að þau sinni. Það hafa verið gefnar út þykkar bækur og álitsgerðir um það hvernig eigi að gera þetta og nauðsyn þess. Og eins og ég nefndi fyrr: Landið hefur verið hlutað sundur í tillögum manna um það hvernig skuli farið að þessu. Heilmikill áhugi virðist hafa verið fyrir því að koma þessu í kring. Það hefur verið rætt um þetta á þingum sveitarstjórnarmanna, bæði landshlutasamtökum og landssamtökum, en það hefur akkúrat ekkert verið gert.

Menn hafa gert sér grein fyrir því að smæð sveitarfélaganna hefur á undanförnum árum verið dragbítur á eðlilega byggðaþróun. Nú síðustu árin hefur hlutur landsbyggðarinnar versnað, orðið fólksfækkun og margs konar erfiðari staða þrátt fyrir mikla uppbyggingu víða um landið og þá ekki síst á vegum sveitarfélaganna á undanförnum árum - og þá á ég ekkí við á allra síðustu árum eða sérstaklega á árum þeirrar hæstv. ríkisstj. sem nú situr. En varðandi þá stöðnun og þá erfiðleika sem nú eiga sér stað hjá sveitarfélögunum og tíundað hefur verið hér úr ræðustól hafa mál snúist á þann veg að fólki hefur fækkað vítt um landið en fólksstraumur orðið til Reykjavíkursvæðisins. Og það er merkilegt að menn hafa ekki leitað orsaka mjög víða þegar þeir hafa skilgreint þennan vanda, fólksfækkun og erfiða aðstöðu sveitarfélaganna og erfiða aðstöðu landsbyggðarinnar, heldur hafa ótrúlega margir hlaupið og bent á einn óskaplegan hlut sem væri valdur að þessu öllu saman, miðstjórnarvaldið í Reykjavík. Það væri þetta voðalega miðstjórnarvald, sem við erum búin að byggja upp hér í Reykjavík, sem væri bölvaldurinn.

Við Íslendingar höfum verið lagnir við að koma okkur upp grýlum og draugum til að hafa að blóraböggli fyrir okkar eigin sjálfskaparvítum. Það er eins í þessu máli. Svo mikið hefur gengið á í sambandi við umræðuna um hið agalega miðstjórnarvald í Reykjavík, sem hefur dregið sér rétt sveitarfélaga og almennings á landsbyggðinni og fært hingað til Reykjavíkur, að úthugsaðar hafi verið margs konar fjandafælur til að vinna á þessu draugaliði sem tilheyrir miðstjórnarvaldi Reykjavíkur. Og hvar er draugahirðin kringum miðstjórnarvaldið sem nauðsynlegt er að kveða niður?

Í fyrsta lagi er það sú stofnun sem við erum hér saman komnir í hv. Alþingi, 60 alþm. Þeim þyrfti að fækka, sumir nefna a.m.k. um helming. Það yrði mjög hættulegt ef þeim yrði fjölgað. Það mundi skapa vandræði á landsbyggðinni.

Í öðru lagi ráðuneytin. Þau eru í miðstjórnarvaldinu, félmrn., menntmrn., heilbrrn., samgrn. Svona má áfram telja. Eftir 20 til 30 ára starf og forustu í sveitarfélagi og sveitarstjórn hef ég aldrei fundið fyrir ofurvaldi þrúgandi miðstjórnarvalds þessara ráðuneyta. Og að þau séu frekar ráðuneyti Reykjavíkurvaldsins en landsbyggðarinnar er fjarstæða.

Í þriðja lagi eru títt umtalaðir angar miðstjórnarvaldsins Vegagerð ríkisins, Hafnamálastofnun, Ríkisspítalar, Landhelgisgæsla o.s.frv. (EgJ: Fylkin eiga að taka við þessu öllu.) Þetta eru fyrst og fremst landsbyggðarstofnanir. Þar væru þær betur settar heldur en í Reykjavík. Eða á kannske að leggja þær niður? Mundi ekki frjálshyggjan biðja um það og væri það ekki rökrétt framhald af stefnu núv. ríkisstj.? Ég held að þetta sé mikill misskilningur.

Það er í sannleika furðulegt hvað alþm. gera lítið af því að svara þeirri neikvæðu umræðu sem fram fer um Alþingi í mörgum fjölmiðlum. Og hvað fréttaflutningur er oft og tíðum neikvæður frá Alþingi. Með hliðsjón af því er svo sem ekkert óeðlilegt að talað sé um vald Alþingis sem miðstjórnarvald í niðrandi tón og hlutunum snúið við, að best sé að gera þetta miðstjórnarvald enn fámennara og enn veikara. Er það trúlegt að sú þróun, ef við mundum veikja ráðuneytin okkar, ef við mundum veikja vald Alþingis, að það mundi styrkja stöðu landsbyggðarinnar og sveitarstjórnanna úti um land? Ég veit ekki hvað er öfugmæli ef það er ekki slík kenning sem þetta.

Erfið staða sveitarfélaga og landsbyggðar nú er ekki að kenna einhverju vondu miðstjórnarvaldi í Reykjavík, Alþingi, ráðuneytum og ríkisstofnunum. Því miðstjórnarvaldi verður í eðli sínu ekki mikið breytt. Þetta eru allt stofnanir sem þurfa að vera til. En athafnir þessara stofnana og vilji breytast eftir því hverjir stjórna. Vandamál landsbyggðar í dag eru að mestu leyti afleiðing ríkisstjórnarstefnu síðustu þriggja ára og áhugaleysi stjórnvalda undanfarinna áratuga við það að styrkja og efla sveitarfélögin í landinu, grunnstjórnsýslueininguna. Núv. ríkisstj. hefur á öllum sviðum dregið úr fjárveitingum ríkisins til sameiginlegra verkefna sveitarfélaga og ríkisins jafnframt því sem dregið hefur verið úr beinum framlögum ríkisins til framkvæmda úti um land, svo sem vegagerð, flugvallagerð o.fl.

Allt frá því að sveitarstjórnarlögin voru samþykkt 1961, og reyndar áður, hefur farið fram umræða um það að sameina þurfi og stækka sveitarfélögin, fjölga íbúum hvers sveitarfélags og gera þau þar með öflugri og hæfari til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð. Ekkert hefur verið gert nema talað. Í þessu efni stöndum við næstum í sömu sporum og 1961. En þörfin fyrir breytingar á þessu sviði hefur aukist ár frá ári vegna breyttrar búsetu og aukinna verkefna hjá sveitarfélögum.

Til að bæta stöðu landsbyggðar þarf nú tvennt. Í fyrsta lagi þarf breytta stjórnarstefnu. Það er aðalatriðið. Um þann þátt þarf að ræða undir öðrum dagskrárlið en þessum. Í öðru lagi þarf að gera meira en það að tala um að stækka og efla sveitarfélögin.

Í 5. gr. frv., sem hér er til umræðu, er lagt til að lágmarksíbúatala sveitarfélags verði 50 íbúar. Ég tel að það sem skiptir máli sé ekki að setja í lög einhverja tölu um fjölda íbúa heldur hitt, að gera almenningi grein fyrir því að til þess að sinna stjórnarfarslegum skyldum og tryggja byggð sé nauðsynlegt að félagslegar einingar og stjórnarfarslegar séu ekki fámennari en svo að þær geti staðið undir þeim skyldum og leyst þau verkefni sem þeim er ætlað að leysa. Ég tel að talan 50 í þessu tilfelli sé markleysa og breyti í raun engu. (EgJ: 50 hafa nú merkingu. ) Ja, það er nú eftir því hvernig sú merking er túlkuð. Í stærð sveitarfélags skiptir ekki máli hvort íbúarnir eru 40, 50 eða 60. Það þarf frekari útskýringar á því til þess að auka merkingargildi þess, hv. þm.

Í 106. gr. frv. eins og það kom frá Nd. segir, með leyfi forseta: „Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna fámennra sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.“ Ég tel að hér þurfi að kveða fastar að orði og flyt því brtt. á þskj. 740 um að þessi grein orðist svo:

„Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir.“ Ég sleppi þarna úr greininni eins og hún er í frv.: fámennra. Ég tel að það sé nauðsynlegt að vinna að því að sameina sveitarfélög og stækka þau hvort sem það byggist á því að verið sé að sameina fámenn sveitarfélög, sem er vitaskuld forgangsverkefni, eða undir vissum kringumstæðum að sameina það sem við köllum núna fjölmenn sveitarfélög, sveitarfélög sem kannske nokkur hundruð íbúar eru í. Við eigum að standa að þeirri sameiningu engu síður eða jöfnum höndum og unnið er að því að sameina smærri sveitarfélögin. Ég tel því rétt að orðið „fámennra“ falli þarna burtu.

Ég legg svo til að inn í greinina komi: „Ráðuneytið skal beita sér fyrir viðræðum milli sveitarfélaga um sameiningu og boða til funda sveitarstjórnarmanna á stærri svæðum til umræðu um sameiningu sveitarfélaga.“ Ég legg sem sagt til að ráðuneytið beiti sér beint fyrir ákveðnum aðgerðum í þessum málum. Ég tel að á það hafi skort á undanförnum árum, það hafi skort forustuna. Það er eðlilegast að forustan komi frá ráðuneytinu í þessu efni og því tel ég að það þurfi að binda í lög að félmrn. beiti sér fyrir viðræðum á milli sveitarfélaga um sameiningu og að ráðuneytið boði til funda á stærri svæðum, kjördæmum eða hluta af kjördæmum, til að ræða þessi mál og útskýra þá möguleika sem þarna er hægt að vinna að.

Í 108. gr. legg ég til, þar sem talað er um að samstarfsnefnd skuli í samráði við ráðuneytið láta í té aðstoð, sem nauðsynleg er til að úrskurða um vafaatriði og annað sem upp kunni að koma, að það verði sveitarfélögunum að kostnaðarlausu. Og á eftir 3. mgr. komi ný mgr. sem orðist svo: „Ráðuneytið skal gera fjárhagslega úttekt á viðkomandi sveitarsjóðum og fyrirtækjum þeirra og hlutast til um að fé verði veitt úr ríkissjóði til að jafna fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna um leið og sameining á sér stað.“

Ég tel að í allri umræðunni undanfarin ár um sameiningu sveitarfélaganna hafi fyrst og fremst skort að í boði væri fjármagn til að jafna fjárhagslega stöðu þeirra sveitarfélaga sem áhuga hefðu á sameiningu. Ég skal taka sem dæmi að fyrir nokkrum árum var umræða um það í sveitarfélögunum sunnan Skarðsheiðar að sameina þau sveitarfélög, en innan þess sveitarfélagahóps voru sveitarfélögin mjög breytilega á vegi stödd fjárhagslega. Ég held að ekki sé ofsagt að kannske var aðalandstaðan gegn því að þessi sameining gæti átt sér stað sú að það var ekki neins staðar í lögum né heldur að ráðuneyti gæti komið til og jafnað þessa stöðu. Það er næstum því vonlaust að vel stætt sveitarfélag gefi eftir sína stöðu til annarra sveitarfélaga sem eru verr stödd þó að ýmsir þættir mæli með sameiningu. Það þarf að koma til fjármagn frá opinberri hálfu til að jafna þessa stöðu.

Það sem felst í brtt. minni er að við þær aðstæður að sveitarfélög vilji sameinast hlutist ríkissjóður og ráðuneyti til um að gerð verði úttekt á stöðu sveitarfélaganna og að ríkissjóður leggi til fjármagn til að jafna stöðu. Ég hef trú á því að um leið og slíkt yrði bundið í lög mundi víða um landið verða vilji fyrir því að sameina sveitarfélög.

Á eftir orðunum „um sameiningu“ í 4. málsgr. er talað um að taki sveitarfélögin málið á dagskrá skuli það vera bundið því að ráðuneytið hafi gert hina fjárhagslegu úttekt sem ætti til að koma í hinni nýju grein.

Ég geri mér ljóst að það mun ekki vera stuðningur við þessa brtt. mína í hv. deild. Stuðningur er kannske fyrir hendi en aðstæður bjóða ekki upp á að hann komi nú fram. Ég tel að allt tal um sameiningu og stækkun sveitarfélaga, valddreifingu og sjálfsstjórn sveitarfélaga, aukin verkefni sveitarfélaga og allt það sem upp er talið af því ágæti sem á þarf að komast hjá hinum dreifðu byggðum sé glamur eitt ef menn gera sér ekki grein fyrir því að ekkert af þessu gerist af sjálfu sér.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að upplýsa og fræða almenning og sveitarstjórnarfólk um stöðu sveitarfélaga og verkefni og slíkri fræðslu verði fram haldið í nokkur ár.

Í öðru lagi er vonlaust að umræða um sameiningu fari í gang milli sveitarfélaga með breytilega fjárhagsstöðu nema fyrir liggi að sá fjárhagslegi mismunur verði jafnaður áður en sameining fer fram. Þessi fjárhagslegi mismunur er víðast fyrir hendi og yfirleitt gert mikið úr honum.

Ef tekið yrði á sameiningarmálum sveitarfélaga í þá veru sem ég legg til tel ég nokkuð ljóst að stutt yrði í sameiningu nokkurra hreppa og þar með brotinn ísinn til áframhaldandi stækkunar sveitarfélaga og eflingar þeirra. Þar með yrðu sveitarfélögin betur búin til að sinna þeim verkefnum sem þau nú hafa og auðveldara verður að færa þeim aukin verkefni. Allt stuðlar það að valddreifingu og stjórnin og ákvörðunartakan er komin eins nálægt hinum almenna landsmanni og kostur er. Allt millistig milli Alþingis og ráðuneyta og sveitarstjórna er þar með óþarft, aukaskriffinnska aðeins til að draga vald og stjórn frá sveitarfélögunum.

Ég nefndi það fyrr að mikið væri gert úr hinu mikla miðstjórnarvaldi í Reykjavík og því kennt um að ýmislegt færi á verri veg á landsbyggðinni, miðstjórnarvaldið væri sá draugur sem um væri kennt. Ég nefndi það líka að til að kveða þennan draug niður hefðu menn búið sér til tilheyrandi fjandafælur. Ég kalla ímyndaðan draug og þá um leið ímyndaðan andstæðing landsbyggðar eðlilegt miðstjórnarvald Alþingis og ríkisstofnana og kalla því fjandafælur þær tillögur sem miða að því að hnekkja þessu miðstjórnarvaldi með nýju stjórnsýslustigi. Ég kalla það óvinafagnað að blása nú út þær kenningar að það sé stjórnskipun okkar að kenna hversu nú hallar á landsbyggðina. Vandinn er ekki stjórnskipuninni að kenna heldur stefnu þeirrar ríkisstj. sem við búum við.

Herra forseti. Nokkrir fyrrverandi og núverandi sveitarstjórnarmenn Alþb. sendu frá sér yfirlýsingu um sveitarstjórnarmál fyrr í vetur í byggðanefnd okkar ágæta flokks. Ég vil leyfa mér í lok ræðu minnar að lesa meginefni þessarar yfirlýsingar:

„Í stjórnarskránni er fjallað um rétt sveitarfélaga til að ráða eigin málum í einni setningu þar sem segir: Rétti sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum undir yfirstjórn ríkisins skal skipa með lögum. Þennan lýðræðislega rétt sveitarfélaga ber að varðveita hvort sem þau eru stór eða smá.

Barátta fyrir virku lýðræði er einn af hornsteinum í starfi sósíalísks flokks. Hluti hennar er að vinna að því að það form sem menn velja stjórnsýslu sé þess eðlis að það skapi möguleika á virku lýðræði. Til að svo megi verða þurfa að vera tengsl milli ákvörðunartöku og ábyrgðar. Ákvarðanir þurfa að vera teknar sem næst því fólki sem ákvörðunin snertir.

Sveitarstjórnir eru grunneiningar í íslensku þjóðskipulagi. Virkast hlýtur lýðræðið að vera að þær hafi sem víðtækast sjálfsforræði. Gildir það jafnt um hvernig verkefnin eru framkvæmd og hvernig þau eru fjármögnuð.

Sveitarfélögin þurfa að vera svo öflug að íbúar þeirra geti haft í raun mótandi áhrif á nánasta umhverfi sitt og byggt upp fjölbreytta félagslega þjónustu. Þess vegna er brýnt að koma í veg fyrir einhæfni einstakra byggða, hvort sem um er að ræða þjónustubyggðir án framleiðsluatvinnuvega eða einhæfar atvinnubyggðir.

Til þess að sveitarfélögin geti rækt þetta hlutverk þurfa þau mörg hver að stækka bæði um fjölda íbúa og landfræðilega. Sveitarfélög þurfa að sameinast og fækka frá því sem nú er. Smæð margra þeirra stendur beinlínis í vegi fyrir eðlilegri valddreifingu.

Þar til sameining sveitarfélaga hefur átt sér stað má nota þjónustusvæði sem grunneiningu. T.d. á Austurlandi hefur slík formleg eining verið mynduð til þess að hægt sé að leysa ákveðna þætti sameiningarmálanna, draga úr miðstýringu og komast hjá stofnun svæðisnefnda.

Rætt hefur verið um að koma á þriðja stjórnsýslustigi, ýmist nefnt fylki, svæðisstjórn, héraðsstjórn, kjördæmisþing eða annað.

Þriðja stjórnsýslustigið stuðlar ekki að virkara lýðræði. Með héraðsstjórnum eða svæðisstjórnum færist ákvörðunartaka og ábyrgð frá því fólki sem ákvörðunin snertir. Lýðræðið eykst ekki með því að grunneiningar séu gerðar áhrifaminni og yfir þær séu sett ráð, jafnvel þótt þau ráð séu kosin á lýðræðislegan hátt. Slíkt fyrirkomulag veldur aðeins deilum um valdsvið og deilum um stjórn og framkvæmd á verkefnum og aukinni skriffinnsku.

Í dreifbýlinu þurfa sveitarfélögin að vera fjölmennari, verða öflugri félagslegar heildir. Fleiri þurfa að vera með í stjórnun og ákvörðunartöku í grunneiningunni, sveitarfélögunum. Það er leiðin til virkara lýðræðis. Leggja ber því áherslu á að stjórnsýslustigin verði áfram einungis tvö, ríki og sveitarfélag, landshlutasamtökin áfram frjáls hagsmunasamtök sveitarfélaga sem annist þau verkefni sem sveitarfélögin fela þeim.

Sameining sveitarfélaga hefur verið til umræðu í mörg ár, en ekkert hefur verið gert til að auðvelda slíka sameiningu af ríkisvaldsins hálfu né heldur frá hendi stjórnmálaflokkanna eða pólitískra samtaka. Hér þarf að verða breyting á. Auðvelda ber sveitarfélögunum sameininguna og nánara samstarf, m.a. með því að jafna fjárhagsstöðu og stórbæta samgöngur milli þeirra sveitarfélaga sem vilja sameinast. Rýmkun tekjustofna sveitarfélaga er ein af forsendum þess að sveitarfélögin geti tekið við nýjum verkefnum og bætt félagslega þjónustu.“

Undir þetta plagg skrifa allir sveitarstjórnarmenn Alþb. sem fara með beina pólitíska forustu í sveitarstjórnum. Þeir sem skrifa undir þetta eru: Kristinn V. Jóhannsson, Neskaupstað, Ragnar Elbergsson í Grundarfirði, Margrét Frímannsdóttir á Stokkseyri, Skúli Alexandersson á Hellissandi, Jóhann Ársælsson á Akranesi, Kristinn Jón Friðþjófsson á Rifi og Logi Kristjánsson í Kópavogi.

Ég geri ráð fyrir að með því að lesa þessa yfirlýsingu upp hafi ég gert hv. þm. grein fyrir því hver stefna a.m.k. ákveðins hóps sveitarstjórnarmanna Alþb. er í þessu máli.