15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3822 í B-deild Alþingistíðinda. (3512)

411. mál, starf flugmálanefndar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og þykir þessi fjármögnunarhugmynd, sem hann vék þarna að, býsna athyglisverð, úr þessum norræna þróunarsjóði, því að það er ljóst að svo stórt átak sem Egilsstaðaflugvöllur er verður ekki fjármagnað á þremur árum af því almenna framkvæmdafé sem hefur fengist til flugmála á s.l. árum. Vissulega er þetta ágæt hugmynd ef hún er þá framkvæmanleg og hægt er að fara út í það.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh. og ég viðurkenni það fúslega að til öryggismála í flugmálum hefur farið meira fé á undanförnum árum og er skylt að minna á það og meta það.

Hins vegar benti hæstv. ráðh. á að það væri kannske ekki um mikið að ræða í sambandi við flugmálin og til skipta í þeim á meðan stórframkvæmdin á Keflavíkurflugvelli væri í gangi. Það sýnir okkur ljóst hvaða áherslur eru á þeim bæ varðandi flugvallarframkvæmdir í heild sinni. Það virðist líka vera svo að fjármagnsútvegun liggi á lausu ef mönnum sýnist svo og einstakir ráðherrar taka á sig rögg, t.d. á nú Þjóðarbókhlaða að rísa upp á stuttum tíma, ef menn bara finna einhverjar matarholur til þess að ganga í eins og sumir hæstv. ráðh. virðast hafa átt tiltölulega auðvelt með.

Ég vona að hæstv. samgrh., sem hefur haldið í horfinu varðandi sína málaflokka í heild í þessum niðurskurðarstefnualgleymingi sem núna hefur ríkt, hefur haldið vegamálunum nokkurn veginn í horfi, en orðið að gjalda þess í hinum málaflokkunum, hafnamálum og flugmálum, detti niður á álíka matarholu og hæstv. menntmrh. hefur dottið niður á og allir stjórnarliðar virðast syngja hallelúja fyrir þannig að hann geti fljótt og vel fjármagnað framkvæmdir varðandi Egilsstaðaflugvöll með því móti ef norræni þróunarsjóðurinn skyldi nú bregðast.