15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3823 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

389. mál, takmörkun yfirvinnu ríkisstarfsmanna

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Svo sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda var ráð fyrir því gert í fjárlögum fyrir árið 1986 að fjárveitingar yrðu lækkaðar um 130 millj. kr. frá áætlun í fjárlagafrv. Lækkun þessi var gerð í hlutfalli við áætlaðar launagreiðslur einstakra stofnana.

Í byrjun þessa árs var ráðuneytum gerð grein fyrir þessum ráðstöfunum og bent á leiðir til að ná þessu marki. Meðal þeirra atriða sem ráðuneytunum var þá gert að fara eftir voru þessi:

Í fyrsta lagi að ekki yrði endurráðið í störf sem losna nema um væri að ræða beina þjónustu sem ekki væri hægt að vera án og ekki væri hægt að fela öðrum starfsmönnum tímabundið eða varanlega.

Í öðru lagi að leitað yrði eftir tillögum forstöðumanna stofnana um fækkun starfsmanna og í því efni kannaðir kostir á tilflutningi starfsmanna milli ríkisstofnana, þ.e. í þau störf sem nauðsynlegt kynni að vera að endurráða í ef losna skyldu.

Í þriðja lagi að yfirvinnu yrði stillt í hóf sem unnt væri, einkum hjá þeim sem mikla yfirvinnu hafa fyrir. Í fjórða lagi að ekki yrði ráðið starfsfólk til sumarafleysinga umfram það sem bráða nauðsyn ber til. Þetta voru þær reglur sem ráðuneytunum var gert að fara eftir til að ná þessu marki.

Í öðru lagi er spurt um fjölda yfirvinnustunda á tímabilinu 1. janúar til 15. mars 1986. Af tæknilegum ástæðum hefur reynst torvelt að tilgreina með nákvæmum hætti tölur fyrir svo stutt tímabil og hluta úr mánuðum, en miðað við útborganir fyrir tvo mánuði, sem að mestu falla saman við tímabilið 15. janúar til 15. mars, voru á árinu 1985 um 900 þúsund yfirvinnutímar, en á árinu 1986 um 990 þúsund yfirvinnutímar greiddir starfsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningum ríkisstarfsmanna. Þessi yfirvinna var um 34% af launum 1985 en er nú 37%. Að þó nokkrum hluta er hér um að ræða aukningu sem leiðir af breyttum kjarasamningum við kennara, en að öðru leyti er um að ræða aukið vinnumagn. Það er því augljóst að það hefur á fyrstu mánuðum þessa árs ekki tekist að ná fram þessum sparnaði að því er yfirvinnu varðar og þvert á móti virðist yfirvinna hafa aukist. Því er augljóst að gera verður enn frekari ráðstafanir til þess að spyrna við fótum í þessu efni. Því er nú verið að vinna að bættu eftirliti með vinnumagni og launagreiðslum hjá ríkisstofnunum og er stefnt að því að forstöðumönnum ríkisstofnana verði reglulega gerð grein fyrir því vinnumagni, dagvinnu, yfirvinnu og aukagreiðslum, sem sérhver stofnun hefur notað frá upphafi árs, og þær bornar saman við áætlun fjárlaga. Ætlunin er að ganga eftir því að þær áætlanir verði haldnar.