16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (3593)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Öll þessi umræða kemur svolítið á óvart. Hér er um að ræða stjfrv. flutt af hæstv. fjmrh. Síðan kemur hæstv. dómsmrh. og lýsir efasemdum og andstöðu við frv. Svo kemur upp stjórnarþingmaður, hv. þm. Haraldur Ólafsson, og lýsir andstöðu við frv. Þetta er svo sem engin ný bóla í þessari hv. deild og ekki einu sinni ný bóla hér í dag. Við höfum svo sem upplifað þetta áður.

En ég er satt að segja svolítið hissa á því fjaðrafoki sem þetta frv. veldur vegna þess að efni þess gerir ráð fyrir ákaflega lítilli breytingu frá því sem verið hefur. Um það er að ræða að leyfa að hér verði sett á flöskur og búið um vodka og það selt bæði hér og flutt út af einkaaðila sem hefur haslað sér völl á þessu sviði með þeim hætti að þetta er núna átappað í Skotlandi. Það hefur verið rakið hér að Norðurlandaþjóðunum hefur orðið býsna vel ágengt á þeim stóra markaði í Bandaríkjunum með ýmsar vörur, bæði áfengi og annað, sem eru framleiddar á Norðurlöndunum. En í þessu tilviki, meðan þetta tiltekna áfengi er sett á flöskur í Skotlandi, er auðvitað ekki hægt að segja að það komi frá Íslandi.

Ég sé ekki í raun hvaða breyting er hér á ferðinni heldur sýnist mér þessi umræða frekar ætla að einkennast af þeirri óskaplegu hræsni sem einkennir alla áfengismálaumræðu á Íslandi. Hér er framleiddur bjór. Hér er framleitt áfengi og því er tappað á flöskur af aðilum sem eiga ekkert skylt við íslenska ríkið. Það gerir Ölgerðin Egill Skallagrímsson, það gerir Thule á Akureyri. Þar er framleitt áfengi og tappað á flöskur, m.a.s. áfengi sem má ekki framleiða til sölu á innanlandsmarkaði hér. Ég veit ekki til þess að gerðar hafi verið neinar ráðstafanir til að breyta þessu. Það er ekki verið að tala um neina raunverulega breytingu hér. A.m.k. alls ekki slíka breytingu - ég get ekki fallist á það sem prófessor Tómas Helgason lét að liggja í viðtölum sínum við nefndina - að hér væri um algjöra stefnubreytingu að ræða frá því sem verið hefði. Það er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Það er misskilningur. Ef við getum haft af þessu verulegar gjaldeyristekjur t.d. held ég að þetta sé alveg þess virði að reyna það.

Ég sé ekki að það auki drykkjuskap og óreglu hér á landi þó að héðan sé hafinn útflutningur á sterku víni. Það er ekkert samhengi í því. Það eru engin tengsl þar á milli. Þessi tiltekna tegund af áfengi er þegar seld í Áfengisverslun ríkisins og ég sé ekki að það hafi neina breytingu í för með sér á vínneyslu hér á landi þó að þessi breyting sé gerð. Það er ekkert samhengi á milli þess hvar varan er framleidd eða hver framleiðir hana. Það sem stýrir neyslunni mest hér er verðið. Áfengis og tóbaksverslun ríkisins ákveður verðið á þessari vöru. Mér finnst það heldur bera vott um þröngsýni að vilja ekki gera þessa tilraun. Það er sjónarmið út af fyrir sig að það eigi ekki aðrir aðilar en ríkið að fást við þetta. En þá verður að breyta ýmsu öðru hér. Þá verður ríkið að taka að sér alla þá bjórframleiðslu sem hér á sér nú stað og er töluverð.

En mín skoðun er sú að það beri að samþykkja þetta frv. Ég skrifaði undir nál. og styð það vegna þess að hér er um að ræða tilraun til að afla aukinna tekna fyrir landið og sjálfsagt veita einhverju fólki atvinnu.