17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nú eru liðin tæp þrjú ár frá því að núv. ríkisstj. var mynduð og því farið að síga á seinni hluta starfstíma hennar. Þegar hún tók við voru ytri aðstæður okkur Íslendingum óhagstæðar og höfðu verið það um nokkra hríð. Það þurfti því áræði og festu til að takast á við þau vandamál sem biðu úrlausnar.

Alþb. hafði brugðist kjarkur hvað eftir annað í fyrri ríkisstjórn og svo var einnig þegar kom til myndunar nýrrar ríkisstj. að afloknum síðustu kosningum. Alþb. kaus að hlaupa frá stjórn landsins í 130% verðbólgu og við blasti hætta á miklu atvinnuleysi.

Framsfl. ákvað að axla þá ábyrgð sem því fylgdi að takast á við aðsteðjandi vandamál sem Svavar Gestsson kallaði hér áðan kosningasvik. Ef eitthvað eru kosningasvik er það að bregðast á vandasamri stund, eins og hann hefur iðulega gert.

Framsfl. lagði fram strax í upphafi ákveðnar tillögur um úrlausn mála og þó að margt hafi farið með öðrum hætti en gert var ráð fyrir má fullyrða að árangurinn er mikill. Verðbólgan er nú minni en um áratuga skeið en það er forsenda þess að okkur takist að byggja upp heilbrigt atvinnu- og menningarlíf og minnka þær skuldir sem við höfum safnað.

Það er hins vegar engin ástæða til að hrósa strax sigri. Því það á eftir að vera verkefni okkar á næstu árum og jafnvel áratugum að glíma við miklar erlendar skuldir. Það er því eðlilegt að menn spyrji í dag hvernig sá árangur sem náðst hefur verði tryggður og með hvaða hætti takast megi að mynda þá samstöðu í þjóðfélaginu sem þarf til að gera hann varanlegan. Við höfum lært það af reynslunni að það er lítill vandi að missa tökin á verðbólgunni og enn minni vandi að auka skuldirnar.

Ef samstaða er um eitthvað í þessu þjóðfélagi hygg ég að hún sé um að halda verðbólgunni í skefjum og lækka erlendar skuldir. Það verður hins vegar aldrei alger eining um með hvaða hætti þessum markmiðum verði best náð. Það er verkefni stjórnmálaflokkanna að leiða þjóðina til farsællar lausnar á þeim vandamálum sem að steðja.

Þeir þættir sem mestu ráða í þeim efnum eru uppbygging og skipulag atvinnuveganna, kjaramál, ríkisfjármál og peningamál. Þeir kjarasamningar sem nýlega voru gerðir eru mjög mikilvægir því að með þátttöku aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins í sameiningu var ráðist að verðbólguvandanum með markvissari og

ákveðnari hætti en við höfum áður kynnst. Þessir samningar setja okkur hins vegar þröngar skorður í ríkisfjármálum.

Framsóknarmenn leggja áherslu á að tryggja þurfi betri atkomu ríkissjóðs, afla þurfi nauðsynlegra fjármuna til sameiginlegra þarfa og hvergi megi slaka á til að viðhalda því velferðarríki sem tekist hefur að byggja upp hér á landi. Því verður það eitt aðalverkefni stjórnvalda á næstunni að huga að þessum þáttum.

Það er á margan hátt merkilegt að þegar stjórnarandstaðan ræðir um framtíðina í íslenskum stjórnmálum komast leiðtogar hennar oft að þeirri niðurstöðu að til að tryggja áframhaldandi árangur í íslenskum efnahagsmálum þurfi að útiloka Framsfl. frá þátttöku í ríkisstjórn. Hins vegar virðast þeir vera reiðubúnir að eiga aðild að ríkisstjórn sem er breyting frá 1983, rétt sé að mynda ríkisstjórn Alþb., Alþfl. og Sjálfstfl. að loknum næstu kosningum. Þessi niðurstaða stjórnarandstöðunnar er torskilin hugsandi fólki sem hafa aðdraganda, undirbúning og framkvæmd síðustu kjarasamninga í huga, en enn þá furðulegri verður niðurstaðan þegar forsendur slíkra fullyrðinga eru skoðaðar.

Því er gjarnan haldið fram að til að ná frekari árangri í efnahagsmálum þurfi að taka á skipulagsmálum atvinnuveganna og því þá bætt við að slíkt verði ekki gert með Framsfl. Í þessu sambandi er rétt að líta til þess tímabils sem liðið er af kjörtímabilinu. Framsfl., fyrstur flokka, lagði fram heilsteypta stefnu í atvinnumálum undir kjörorðinu Nýsköpun atvinnulífs, sókn til bættra lífskjara. Þessi atvinnustefna hefur síðan verið grundvöllurinn í atvinnustefnu ríkisstj.

Í sjávarútvegi hafa verið gerðar miklar skipulagsbreytingar. Fiskveiðistefnunni hefur verið gerbreytt og miklar takmarkanir settar á stækkun fiskiskipaflotans. Með frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, sem nú er til meðhöndlunar á Alþingi, hefur verið ákveðið að leggja sjóðakerfi sjávarútvegsins niður. Með þessum aðgerðum hafa verið sköpuð mun betri skilyrði í sjávarútvegi en annars hefði orðið. Arðsemi greinarinnar hefur aukist, framleiðslan vaxið og tilkostnaðurinn minnkað sem hefur gert henni kleift að takast á við þá erfiðleika sem hún var komin í. Breytingarnar hafa jafnframt skapað grundvöll til að bæta kjör þess fólks sem mun vinna við sjávarútveg um ókomin ár.

Breytingar á sjóðakerfinu bæta stöðu sjómanna. Unnið er skipulega að aukinni starfsfræðslu fiskvinnslufólks sem mun verða grunnur að auknum réttindum og bættum kjörum. Það er því að ganga yfir mikið breytingaskeið í sjávarútvegi sem lýsir sér í skipulagsbreytingum og margvíslegum nýjungum.

Í landbúnaði hefur stjórnun framleiðslunnar verið gerbreytt og aðstæður skapaðar til að auka arðsemi greinarinnar og tryggja hag þess fólks sem mun vinna við landbúnað í framtíðinni. Hér er um óvenjuvandasamt mál að ræða og landbúnaðurinn mun þurfa fyrst í stað að taka á sig þá erfiðleika sem breytingunum fylgja með sama hætti og sjávarútvegurinn. Það er ávallt skammsýni að taka ekki á erfiðleikum. Ávöxtur aðgerðanna mun koma síðar og tryggja framtíðarhag landbúnaðar og búsetu í sveitum.

En hvað eru þessir forustumenn stjórnarandstöðunnar að tala um þegar þeir segja að það sé forsenda til frekari árangurs að Framsfl. verði ekki með í næstu ríkisstjórn? Hvaða aðrar breytingar ætla þeir að gera í sjávarútveginum til að tryggja betri árangur? Ekkert hefur komið fram um það nema e.t.v. þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni sem sýndi mikla þröngsýni í fiskveiðistjórnun því að að sjálfsögðu þarf að tryggja fiskveiðar allra landsmanna. Hverjum öðrum breytingum ætla þeir að standa að í landbúnaði til að tryggja betri árangur? Lítið hefur komið fram um það, en þó má ráða af orðum þeirra að það þurfi að draga enn meira úr framleiðslu landbúnaðarvara en gert hefur verið sem mundi leiða til þess að heilar sveitir legðust í eyði. Fróðlegt væri að vita með hvaða hætti þeir hafa hugsað sér að standa að málum.

Hitt er svo annað mál að víða má taka til hendi. Hömlulaus fjárfesting og óráðsía í raforkumálum hefur orðið þess valdandi að raforkuverð hér á landi er mun hærra en annars þyrfti að vera. Lítið var gert til að selja þá orku sem ákveðið var að framleiða. Þar er enn mikið óunnið.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins hefur ekki verið framkvæmd af nægilegri fyrirhyggju og víða eru vandamál í menntakerfinu. Framsfl. hefur á engan hátt komið í veg fyrir að tekið væri á þessum málum.

Mikill ofvöxtur hefur verið í bankastarfsemi hér á landi og hafa m.a. í þeim tilgangi að ráða þar bót á verið samin ný lög um bankastarfsemina. Sú löggjöf hefur enn ekki leitt til mikillar hagræðingar í bankakerfinu, en vonandi mun það gerast. Ekki hefur Framsfl. komið í veg fyrir að myndarlega væri tekið á þeim málum heldur lagt á það mikla áherslu.

Ástæðurnar fyrir því að þessir flokkar telja að útiloka beri Framsfl. frá frekari stjórnarþátttöku eru að sjálfsögðu allt aðrar. Alþfl. hefur kosið sér forustu sem aðhyllist svokallaðar frjálshyggjukenningar. Alþb. hefur á síðari árum litið á það sem sitt aðalhlutverk að ráðast á Framsfl. og taka upp ýmis stefnumál hans í þeim tilgangi að komast inn á það svið íslenskra stjórnmála sem Framsfl. hefur starfað á, eins og skýrt kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni áðan. Þeir byrjuðu sem kommúnistar, en það er sama hvar kommúnistar starfa í heiminum, alls staðar reyna þeir að komast inn á svið lýðræðisflokkanna í þeim tilgangi að ná völdum. Það er í sjálfu sér mikilvægt að þetta skuli koma hreint fram hjá Alþb. Nú hyggst foringi kommúnistanna taka saman við Alþfl. og Sjálfstfl. Þar ætlar hann að finna nýja vini sína. Með þeim ætlar hann að komast til valda.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Framsfl. fékk ekki auðvelt hlutskipti í þessari ríkisstjórn. Hann tók að sér forustu í henni og erfiða málaflokka í atvinnumálum. Það var einnig hans hlutskipti að hafa forustu um mikilvægar breytingar í húsnæðismálum sem nú hafa komið fram hér á Alþingi og eiga eftir að skipta sköpum fyrir þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi. Við höfum unnið að þessum verkefnum af fullum heilindum og starfað á grundvelli þeirra hugsjóna sem við berjumst fyrir. Við höfum að sjálfsögðu þurft að standa að málamiðlunum. Íslenska flokkakerfið er kerfi málamiðlunar og það er ekkert sem bendir til að það muni breytast. Framsfl. hefur hins vegar haft meiri áhrif á mótun íslensks þjóðfélags en nokkur annar flokkur og má vera að þeim sem standa innan vébanda annarra stjórnmálaflokka þyki nóg komið.

Við erum hins vegar stoltir af því þjóðfélagi sem við búum í og við erum hreyknir af sporum flokksins sem liggja um allt þjóðfélagið og erum þess fullvissir að það muni koma skýrt fram í þeim sveitarstjórnarkosningum sem nú eru fram undan.