18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir nál. um frv. til laga um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu með fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki að ástæðulausu. Ég tel að margt sé athugavert við frv. það sem hér er flutt og get í ýmsum efnum tekið undir það sem fram kom hjá hv. seinasta ræðumanni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

Ég minni á að framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu voru nokkuð lengi að komast af stað. En þegar þær loks komust af stað í lok seinasta áratugs var unnið þar verulegt átak á nokkrum árum og húsið gert fokhelt eins og flestir þekkja. Stærstu átökin til að koma upp þjóðarbókhlöðunni voru unnin á árunum 1979-1983. En það er skemmst frá að segja að í tíð þessarar ríkisstj., sem nú situr, hafa framkvæmdir stöðvast og hafa nú legið niðri um skeið.

Það er sannarlega ánægjulegt að ríkisstj. skuli nú taka fjörkipp og ætla sér að gera meira en gert hefur verið að undanförnu til að ljúka þessari byggingu. En eðlilegra hefði verið að reyna að þoka þessari byggingu áfram á liðnum árum, m.a. ætla einhverja fjármuni til hennar á árinu 1986. En því er ekki að heilsa. Við afgreiðslu fjárlaga í haust var mjög óveruleg upphæð ættuð til þessa verkefnis og sjálfur menntmrh. hæstv. beitti sér síðan fyrir því að þessi óverulega upphæð var strikuð út úr fjárlögunum. Þar er því ekki að finna eina einustu krónu til byggingar þjóðarbókhlöðu.

Þetta frv. fjallar ekki um að bæta þar úr. Það verður ekki neitt unnið við þjóðarbókhlöðu á árinu 1986. Því hefði verið eðlilegast, eftir þetta skipbrot ríkisstj. í framkvæmdum við þjóðarbókhlöðu, að hún hefði sest niður með talsmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu, talsmönnum allra þingflokka, og reynt hefði verið að gera áætlun um það með hvaða hætti skynsamlegast væri að ljúka þessu máli.

Það hefði verið eðlilegast þegar um er að ræða, eins og hér segir, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu að um það hefði verið sköpuð eðlileg samstaða með öllum stjórnmálaflokkum hvernig að þessu máli skyldi staðið og þeim öllum gefinn hæfilegur tími til að fjalla um málið. En það er nokkuð annað sem uppi hefur verið á teningnum, eins og menn þekkja. Afleiðingin er sú að það er alls ekki allsherjar samstaða um málið hér í þinginu. Stór hópur þm. gagnrýnir málsmeðferðina og greinilega talsverður hópur þm. sem alls ekki er reiðubúinn að veita málinu brautargengi. Ég hygg að óánægjan með málsmeðferð hæstv. menntmrh. nái inn í alla stjórnmálaflokkana og hún er mjög megn í öllum flokkunum.

Eðlilegast hefði verið, úr því sem komið var, að afgreiða þetta mál í tengslum við fjárlagagerð fyrir næsta ár úr því að tekjuöflunin á ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Þetta eru í einu orði sagt handarbakavinnubrögð sem ekki eiga að þekkjast hér á Alþingi.

Ég leyfi mér sem sagt í þessu samhengi að fordæma mjög eindregið vinnubrögð hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Ég fordæmi það að ekki skuli vera reynt að skapa samstöðu allra þingflokka um þetta mál.

Ég tek undir ýmislegt það sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, þar sem hún t.d. vakti athygli á þessum syndakvittunum sem senda á þeim sem greiða þennan eignarskatt og eru að minni hyggju ákaflega óviðfelldið fyrirbrigði. Ég get ekki séð að það sé málinu til nokkurs framdráttar að senda út kvittanir af þessu tagi. Mér finnst ólykt af þessum kvittunum. Þetta er gjöf sem þjóðin er öll að gefa sjálfri sér en ekki bara eignamenn þessa lands og það á ekki að líðast og ekki að þekkjast að í tengslum við átak af þessu tagi, þar sem öll þjóðin er gefandi og öll þjóðin viðtakandi, sé verið að gefa sérstökum mönnum og sérstökum ættum, eins og tekið er sérstaklega fram í grg., kvittanir um að þeir hafi lagt fram fé sérstaklega í þessu skyni.

En vegna þess að ég tel þjóðarnauðsyn að hraða framkvæmdum við þjóðarbókhlöðu og vegna þess að ég vil stórauka framlög í þessu skyni og skil nauðsyn þess, úr því að ríkisstj. hefur þetta frumkvæði, að þetta tækifæri glutrist ekki niður, þá hef ég að vandlega athuguðu máli ákveðið að styðja þetta frv. þrátt fyrir þá gagnrýni sem ég hef nú sett fram og þrátt fyrir þá ákveðnu fyrirvara sem ég hef um viss atriði sem tengjast framkvæmd málsins, eins og þessi kvittanabréf sem hér voru ágætlega gerð að umtalsefni af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég held að fyrirvari minn komi skýrlega fram í nál. Ég hef sem sagt mjög mikið að athuga við vinnubrögð, hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Við hefðum þurft að hafa miklu lengri tíma til að fjalla um þetta, til að skapa þá samstöðu sem ein hæfir þessu máli. Mér er að vísu kunnugt um að hæstv. menntmrh. ræddi þetta mál við formenn flokkanna. En það var bara svo seint gert og lítill tími, sem gafst til raunverulegs samráðs milli flokka um þetta mál, að úr því gat ekki orðið neitt annað en klúður eins og raun ber vitni. Úr því sem komið er hefði ég talið miklu gæfulegra að bíða með þessa ákvörðun til haustsins og reyna að skapa almenna samstöðu um það.

En ef hæstv. ríkisstj. ætlar engu að síður að halda því til streitu að afgreiða þetta mál lít ég svo á að málið sé svo mikils virði að þrátt fyrir þessa vankanta, þrátt fyrir fyrirvara mína, verði ekki undan því skotist að taka jákvæða afstöðu til málsins og það mun ég gera.