18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála að það er löngu tímabært að setja heildarlöggjöf um umhverfismál hér á landi og hv. 3. þm. Reykv. er sjálfsagt jafn annt um það og öðrum. En ég vil aðeins minna á að hann lenti sjálfsagt í svipuðu og núv. félmrh. þegar hann var félmrh., að hann flutti ekki það frv. sem honum var fengið í hendur, heldur lét breyta því og það var heldur ekki lagt fram á þingi á hans tímabili það frv. sem hann sem félmrh. lét semja. En sjálfsagt eru gildar ástæður fyrir því, eins og fram kemur hjá núv. félmrh. Ég get lýst því yfir að það er fullbúið frv. um umhverfismál í mínu ráðuneyti sem ekki hefur enn tekist að ná samstöðu um innan ríkisstj.

Ég get einvörðungu lýst því yfir að að þessu máli er sífellt unnið. Það er á stefnuskrá ríkisstj. að setja heildarlöggjöf um umhverfismál og við skulum vona og sjá til hvort það sumar, sem í hönd fer, muni ekki nægja til að undirbúa löggjöf á þessu sviði sem lagt verður fyrir næsta haust.