18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3818)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Nefndin varð sammála um að flytja brtt. sem er á þskj. 880. Ástæðan fyrir henni er sú að fyrir misgáning hafði orðið „fræðslustjóri“ slæðst inn í 3. málsgr. 14. gr. þar sem fjallað er um framhaldsskólakennara. Fræðslustjórar fjalla ekki um framhaldsskólann, þannig að efnisbreyting till. er sú að fella orðið „fræðslustjóri“ niður.

Hins vegar hefur prentvilla slæðst inn í brtt. Þar á að standa í niðurlagi: "... og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann“ en ekki "... óskað eftir heimild nefndarinnar um að lausráða annan starfsmann“. Ég lít á þetta sem leiðréttingu. Þetta er greinilega ekki rétt íslenskt mál eins og það liggur fyrir.

Menntmn. beggja deilda ræddu þetta frv. á fjórum sameiginlegum fundum og var farið allrækilega niður í efnisatriði þess. Á fundi nefndarinnar komu frá menntmrn. Sólrún Jensdóttir skrifstofustjóri, Hörður Lárusson deildarstjóri, Sigurður Helgason deildarstjóri og Þórunn Hafstein lögfræðingur. Skólastjórarnir Ingvar Ásmundsson, Iðnskólanum í Reykjavík, og Guðjón Ármann Eyjólfsson í Stýrimannaskólanum voru kallaðir á fund nefndarinnar og einnig Jóhannes Einarsson kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði, en hann var settur skólastjóri hans á s.l. ári. Þá komu á fund nefndarinnar frá Háskóla Íslands Þórólfur Þórlindsson deildarforseti félagsvísindadeildar og háskólakennarar í uppeldis- og kennslufræðum, Guðný Guðbjörnsdóttir og Jón Torfi Jónasson.

Það er greinilegt bæði í þeim umsögnum, sem nefndinni bárust frá fjölmörgum aðilum og ég mun koma lítillega inn á, og í viðræðum við þá sem á fund nefndarinnar komu að allir voru sammála um að brýnt væri að tryggja það eftir mætti að kennarar væru vel menntaðir og raunar betur en nú er og reynt yrði að halda við þeirra þekkingu með námskeiðum og öðru slíku eftir því sem efni standa til til þess að þeir séu frískir og ferskir í sínu starfi og geti valdið sínu verkefni.

Eins og hv. þm. sjá er kjarni þessa frv. að tryggja að þeir sem kenna á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi hafi fengið verulega þekkingu í uppeldis- og kennslufræðum. Varðandi framhaldsskólana er gert ráð fyrir 30 einingum, sem er ársnám við háskóla, stíft ársnám. Það er að vísu hængur á, að þessi kennslufræði, sem hér hefur verið kennd, er vanburða að því leyti að hún miðast um of við bóklegar greinar. Á hinn bóginn hefur ekki verið kennd kennslufræði með hliðsjón af einstökum greinum - sérstaklega á þetta þó við um verkmenntun - og hlýtur að koma til álita hvort ekki sé rétt að leggja sérstaka áherslu á það við framkvæmd þessa frv. að mögulegt sé að veita leiðbeiningar og kennslu í kennslufræðum á breiðari grundvelli en nú er gert.

Það er augljóst að um það er breið samstaða að nauðsynlegt sé að tryggja starfsgrundvöll kennara og kennarastarfsins. Af þeim sökum og til þess lítur nefndin svo á að nauðsynlegt sé að lögfesta þetta frv. eins og það liggur fyrir enda þótt í því séu nokkrir agnúar og þá helstir þeir, annars vegar, að hér er ekki gerð tilraun til að meta að nýju þær menntunarkröfur sem gerðar eru til kennara í einstökum greinum. Á það einkum við um kennslu í iðn- og verkmenntaskólum.

Sú leið hefur verið farin að halda sig við þær kröfur um menntun í sérgreinum sem nú eru í lögum en reyna ekki að endurmeta kröfurnar um leið og þetta frv. var samið. Skýringin er sú að sú áhersla var lögð á að lögfesta kröfuna um nám í uppeldis- og kennslufræðum að rétt var talið að láta fagþekkinguna bíða. Til þess að mæta því, og öðrum agnúum frv. raunar einnig, er kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að þessi lög skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá setningu þeirra.

Ég vil í sambandi við þennan agnúa minna á c- og d- lið 7. gr., en í því sambandi segir m.a. svo í umsögn um frv. frá Landssambandi iðnaðarmanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjórn Landssambands iðnaðarmanna leggur áherslu á nauðsyn þess að bæta menntun kennara og gera þá hæfari til að gegna starfi sínu. Frv. sinnir þessum mikilvæga þætti nær ekkert en þess í stað er einblínt á þau sérréttindi sem kennurum skulu tryggð að afloknu námi. Það gleymist algjörlega að í fag- og tæknimenntun er oft nauðsyn á að fá til starfa sérfróða menn sem ekki hafa kennaramenntun, t.d. til kennslu í nýrri tækni og til að kynna þróun sem sífellt á sér stað á sviði hinna ýmsu starfsgreina. Aðilar úr atvinnulífinu eru oftast betur í stakk búnir til að veita fræðslu um slík efni. Full ástæða er því til að auka heimildir fag-, tækni og sérskóla frá því sem frv. gerir ráð fyrir til að ráða sérfróða menn til kennslustarfa. Er því nauðsynlegt að rýmka ákvæði lagafrv. hvað þetta varðar.

Samsvarandi áhyggjur komu fram í umsögn og máli skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík, svo og skólastjóra Stýrimannaskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði og frá fleiri aðilum. Leggur Ingvar Ásmundsson, skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík, t.d. beinlínis til að orðin „eða ráðin“ í 1. mgr. 7. gr. frv. og „eða ráðningar“ í 2. mgr. 7. gr. verði felld niður.

Rökstuðningur skólamanna á verkmenntasviði og tæknisviði var sú að þeir þyrftu oft að grípa til þess að fá stundakennara til að kenna mjög sérgreind fög og töldu að ákvæði frv. um að ráðning slíkra stundakennara skyldi borin undir sérstaka undanþágunefnd gæti torveldað að maður fengist til starfans þar sem hann yrði ófús á að leggja hæfni sína undir slíka matsnefnd. Við kynntum þessi viðhorf forustumönnum kennarasamtakanna og þeir komu á okkar fund eftir að hafa haft samband við skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík og þeir fullvissuðu okkur um það, eins og ég mun gera nánar grein fyrir síðar, að það væri vilji kennarasamtakanna að reyna að standa svo að framkvæmd þessa ákvæðis, til að byrja með a.m.k., meðan við værum að venjast við nýja löggjöf, að ekki torveldaði eðlilegt skólastarf.

Ég verð að taka líka fram að utan af landi bárust sams konar áhyggjur vegna grunnskólans. Ég vil segja frá sjálfum mér að ég er mjög hræddur við þetta ákvæði, geri mér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar það muni hafa, en vil samt sem áður, vegna þeirrar sterku áherslu sem kennarasamtökin leggja á þetta og eins og aðdragandi málsins er, fallast á að þessi tilraun verði gerð og vil vænta þess að bæði hæstv. menntmrh., skólastjórnendur og kennarar sameinist um að torvelda ekki að hægt verði að sinna kennslu í fag- og tæknimenntun með tilhlýðilegum hætti hvað svo sem um undanþágunefndina er að segja. Ég vil vænta þess að hún hagi þannig störfum sínum að það verði ágreiningslaust.

Ég vil þá einnig vekja athygli á því sem fram kemur í bréfi skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík. Hann segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Í 7. gr. c-lið er kveðið á um það að kennari í sérgreinum eða faggreinum í iðnfræðsluskóla skuli hafa meistararéttindi í þeirri iðngrein sem um er að ræða og hafa starfað í tvö ár sem meistari á sérsviði sínu.

Undirritaður vill benda á að í flestum iðngreinum geta menn uppfyllt þetta skilyrði með því að ljúka sveinsprófi og vinna við iðnina í fjögur ár að því loknu. Augljóst er að kennari í sérgreinum og faggreinum í iðnfræðsluskóla þarf að hafa mun meiri þekkingu í almennum undirstöðugreinum og meiri fræðilega þekkingu í sérgreinum og faggreinum en hann öðlast í sínu iðnnámi. Því telur undirritaður eftir atvikum eðlilegt að gerð sé krafa um að slíkur kennari hafi a.m.k. iðnfræðipróf frá tækniskóla eða aðra hliðstæða menntun.

Undirritaður leggur til að c-liður 7. gr. verði þannig: Kennari í sérgreinum eða faggreinum í iðnfræðsluskóla skal hafa lokið prófi í tæknifræði, iðnfræði eða öðru hliðstæðu námi með kennslugrein sína sem aðalgrein og hafa starfað í tvö ár sem tæknifræðingur, iðnfræðingur eða meistari á sérsviði sínu.“

Við í nefndinni treystum okkur ekki á þeim stutta tíma sem nefndin hafði til umráða eftir að þetta álit kom til þess að endurmeta þau skilyrði sem gerð eru til þess að menn megi vera kennarar í hinum ýmsu greinum skv. 7. gr., en við væntum þess á hinn bóginn að þessi atriði verði tekin til endurskoðunar.

Ég vil um leið kynna brtt. frá skólastjóra Stýrimannaskólans i Reykjavík, Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni, en hann segir svo í sínu áliti, með leyfi hæstv. forseta, varðandi d-lið 7. gr. Hann óskar að hún orðist svo:

„Kennari í sérgreinum stýrimannanáms skal hafa lokið tækni- eða verkfræðinámi eða öðru sambærilegu námi sem tekur til þeirrar námsgreinar sem viðkomandi á að annast kennslu í eða hafa lokið 4. stigs prófi úr stýrimannaskóla og siglt eigi skemur en eitt ár sem fullgildur stýrimaður á farskipi eða varðskipi eða sem skipstjóri á fiskiskipi yfir 120 rúmlestir.“

Um þessa brtt. segir í bréfi skólastjórans, með leyfi hæstv. forseta, enn fremur:

„Ofangreind breyting er nauðsynleg m.a. vegna kennslu í sérgreinum eins og sjórétti og fleiru, auk þess vegna prófa frá sambærilegum erlendum siglingafræðiskólum.“

Ég get að sjálfsögðu fallist á þessa breytingu, en eins og ég áður sagði tel ég rétt eins og á stendur að 7. gr. verði í heild tekin til endurmats og endurskoðunar og látið við það sitja hvernig frv. er að þessu leyti orðað þar sem það varð að samkomulagi milli kennarasamtakanna og menntmrn. Ég vek athygli á því að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að kennarar í tónlistarfræðum sem ekki kenna við grunnskóla, eða tónmenntakennarar tónlistarskóla þurfi á því að halda að hafa notið leiðsagnar í uppeldis- eða kennslufræðum og skýtur það nokkuð skökku við önnur ákvæði frv. eins og t.d. varðandi myndlistar- og listiðnaðargreinar við myndlista- og handíðaskóla eða aðra hliðstæða skóla. Ég veit ekki hvort ástæða er til að tala frekar um það atriði.

Ég vil segja varðandi ákvæði til bráðabirgða almennt: Eins og þm. er kunnugt skortir mjög á það, bæði í grunnskóla og við ýmsa framhaldsskóla, að allir þeir sem þar starfa við kennslustörf fullnægi þeim ákvæðum sem sett eru í þessu frv. sem skilyrði þess að menn hljóti starfsréttindi í viðkomandi skóla. Við vitum að það munu mörg vötn renna til sjávar áður en við verðum í stakk búin að skipa skóla okkar svo kennurum, bæði fastráðnum kennurum, stundakennurum, ég tala nú ekki um ef maður tekur inn í það allar sérgreinar, áður en við höfum kennaraliði á að skipa sem lokið hefur prófum í þeim greinum sem hér eru upp taldar, m.a. uppeldis- og kennslufræði.

Reynt er í ákvæði til bráðabirgða að brúa þetta bil þar sem gert er ráð fyrir því að þeir sem hafi fyrir gildistöku laganna starfað sem settir kennarar í sex ár eða lengur, en fullnægja ekki skilyrðum laganna til starfsheitis og starfsréttinda, skuli eiga kost á því að ljúka námi á vegum Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands til þess að öðlast slík réttindi. Um tilhögun námsins skal setja ákvæði í reglugerð.

Eins og þetta frv. er byggt upp er gert ráð fyrir því að framhaldsskólarnir falli undir Háskóla Íslands, en ég vil þá einnig vekja athygli á því að það sjónarmið kom fram hjá fulltrúum Háskólans að ekki væri eðlilegt að verkmenntakennarar læsu samsvarandi námsefni og gert er í Háskólanum varðandi bóklegar greinar heldur lögðu til að hæstv. menntmrh. hefði fullnægjandi námskeið fyrir slíka verkmenntakennara sem sniðið yrði fyrir þeirra þarfir. Þar yrði m.a. tekið mið af kennslutækni í verkmenntagreinum. Skal ég ekki meira um það tala því að ég hef ekki kunnáttu til að fara út í það.

En ég vil leggja áherslu á að nauðsynlegt er, ef þetta frv. verður að lögum eins og ég vil leyfa mér að vona, að mjög verði að því unnið að gera kennurum kleift að öðlast þau starfsréttindi sem hér er gert ráð fyrir. Eins og fram hefur komið og hæstv. menntmrh. hefur gefið yfirlýsingu um hefur hann til þess m.a. lagt sérstaklega áherslu á að fyrsta skrefið í hinum opna háskóla skuli einmitt vera að koma til móts við þarfir kennarastéttarinnar að þessu leyti.

Herra forseti. Ég vil svo að síðustu lesa hér upp bréf sem okkur barst í menntmn. frá Kristjáni Thorlacius, formanni Hins íslenska kennarafélags, Heimi Pálssyni, sem er formaður Bandalags kennarafélaga, og Kristjáni Bersa Ólafssyni, sem var fulltrúi Bandalags kennarafélaga við samningu frv., vegna þeirra athugasemda sem fram hafa komið, einkum varðandi það hvort skólastjórum eigi að vera heimilt að ráða kennara til starfa án þess að leitað sé álits undanþágunefndar. Bréf Hins íslenska kennarafélags hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Ljóst er að í sumum kennslugreinum framhaldsskólanna verður mjög erfitt og við núverandi aðstæður jafnvel ógerlegt að finna kennara með full kennsluréttindi skv. framlögðu frv. um lögverndun á starfsheitum kennara og skólastjóra. Einkum á þetta við um starfsgreinar iðnnáms og verkmennta ýmiss konar. Fyrir hönd framhaldsskólakennara leggjum við ríka áherslu á að ekki verði gerður greinarmunur á verknámi og bóknámi í lögum. Of lengi hefur verkmenntun verið gert lágt undir höfði, jafnvel svo að ýmsir nemendur og forráðamenn þeirra telja að það nám sem stundað verði í iðnfræðsluskólum sé ómerkilegra en hitt sem heima á í menntaskólum, svo að notuð séu hefðbundin heiti. Brýnt er að snúið verði af þessari braut og ein meginforsendan er að lög og reglugerðir taki af tvímæli.

2. Í frv. er mörkuð skýr grundvallarstefna um kröfur sem gerðar skulu til kennara. Við teljum afar mikilvægt að ekki verði hvikað frá þeirri stefnu og undantekningar festar í lög. Því teljum við fullkomlega óeðlilegt að gera greinarmun á ráðningu og setningu í þessu efni. Skv. frv. er gert ráð fyrir undanþágum og eru þau ákvæði að okkar mati öldungis fullnægjandi trygging fyrir því að ekki komi upp vandræðaástand vegna þessara skilmála.

3. Með frv., ef að lögum verður, er á engan hátt hugmyndin að gera stjórnendum skóla erfitt fyrir né vantreysta þeim á nokkra lund. Það er hins vegar tryggt að safnað verði í einn stað upplýsingum um stöðu mála í skólakerfinu að því er kennararáðningar og kennaraskort varðar. Þar með verður einnig auðveldara fyrir yfirstjórn menntamála en nú er að grípa til nauðsynlegra ráða til úrbóta og sjá þannig til þess að hæfir og fullmenntaðir kennarar fáist í allar námsgreinar framhaldsskólanna.

4. Fyrir hönd samtaka kennara leggjum við þunga áherslu á að ekki verði í lögum gerður greinarmunur á skólastigum. Við minnum einnig á að frv. byggir í núverandi mynd sinni á víðtæku samkomulagi og þar hafa kennarar slegið mjög af ýtrustu kröfum sínum.“

Svo mörg voru þau orð. Ég endurtek, herra forseti, að ég er sammála því í grundvallaratriðum að nauðsynlegt sé að kennarar okkar séu sem menntaðastir. Ég tel nokkuð á skorta að mögulegt sé að kenna hér fullnægjandi kennslufræði í einstökum greinum. Ég hef í hjarta mínu nokkrar efasemdir um að rétt sé að hafa orðin „ráðning“ og „ráða“ í þessu frv., en vegna þess að kennarasamtökin hafa lagt áherslu á að þau vilji ganga til samvinnu við yfirvöld menntamála um að framkvæmd þessara laga megi vera farsæl og í fullum friði vil ég treysta að svo megi til takast. Í trausti þess mæli ég með því fyrir hönd menntmn. að þetta frv. verði samþykkt og vil mega vænta þess að af því megi margt gott leiða, bæði inn á við fyrir kennarastéttina og út á við með því að sú kennsla sem í skólum fer fram og skólastarfið allt beri meiri árangur en nú.