18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 881, frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, sbr. lög nr. 77/1985.

Eins og hv. alþm. vita voru gerðir nýir kjarasamningar, samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. um nýjar leiðir í kjaramálum sem marka vissulega tímamót í efnahagsmálum á Íslandi. Horfið var frá hefðbundnum aðferðum sem ávallt hafa mistekist eða oftast. Ákveðin var niðurtalningarleið sem þýðir lækkun verðlags, tilkostnaðar á öllum sviðum, lækkun gjalda, lækkun vöruverðs og þjónustu, lækkun fjármagnskostnaðar, þar með taldir vextir, stöðugt gengi, sem gefur von um hækkandi kaupmátt. Og áhrifin láta ekki á sér standa. Verðbólgan lækkar og áætlað er að í árslok verði hún jafnvel komin niður í 6%.

Ég tel ástæðu til í byrjun þessa máls að fagna sérstaklega þessum kjarasamningum, ekki síst kaflanum um húsnæðismál sem felur í sér stóraukið framlag lífeyrissjóða til byggingarsjóða ríkisins. Ég hef áður sem félmrh. marglýst því yfir og lagt áherslu á nauðsyn þess að aukið fjármagn frá lífeyrissjóðunum komi til að fjármagna húsnæðiskerfið. Þess vegna fagna ég þessari ákvörðun í samkomulaginu alveg sérstaklega. Ríkisstj. fylgdist vandlega með þessum hugmyndum aðila vinnumarkaðarins um breytingu á húsnæðismálum og var viðbúin að taka afstöðu í málinu. Í bréfi ríkisstj. til samningsaðila 27. febr. s.l. gaf ríkisstj. eftirfarandi yfirlýsingu um húsnæðismál:

„Ríkisstjórnin fellst á grundvallaratriði þeirra hugmynda, sem fram koma í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál, og er reiðubúin til þess að athuga þær vandlega í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega útgjöld ríkisins í þessu sambandi. Ríkisstjórnin er reiðubúin til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um húsnæðismál í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar.“

Á grundvelli þessarar yfirlýsingar skipaði forsrh. nefnd til að gera tillögur um húsnæðismál. Í nefndina voru skipaðir: Ásmundur Hilmarsson og Jóhannes Siggeirsson samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands; Örlygur Geirsson, samkvæmt tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja; Gunnar Birgisson og Vilhjálmur Egilsson, samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna; Jóhann Einvarðsson, samkvæmt tilnefningu félmrh., og Geir H. Haarde, samkvæmt tilnefningu fjmrh.

Forsrh. skipaði Hallgrím Snorrason hagstofustjóra sem formann. Með nefndinni hafa unnið frá félmrn.: Gylfi Kristinsson og Þorgerður Benediktsdóttir lögfræðingur. Frá Húsnæðisstofnun ríkisins: Helgi Guðmundsson lögfræðingur, Hilmar Þórisson, Katrín Atladóttir og Percy Stefánsson. Og frá Seðlabanka Íslands: Ingvi Örn Kristinsson.

Ég lagði áherslu á það í upphafi að nefndin hefði samráð við milliþinganefnd í húsnæðismálum sem vinnur að stefnumótun til framtíðar og býr yfir miklum gögnum og upplýsingum, m.a. ýmsum tillögum stjórnmálaflokkanna og niðurstöðum ýmissa nefnda og kannana. Gott samstarf var á milli nefndanna og m.a. voru haldnir sameiginlegir fundir. Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, og þakka nefndinni og öðrum þeim sem hafa lagt fram mikla vinnu við að móta þetta frv. í samræmi við samkomulagið. Sérstaklega vil ég þakka formanni nefndarinnar, Hallgrími Snorrasyni hagstofustjóra.

Í skilabréfi nefndarinnar til ríkisstj. segir nefndin m. a.:

„Nefndin varð sammála um að einbeita sér fyrst að þeim þætti þessa málefnis sem lýtur að breytingum á hinu opinbera húsnæðislánakerfi. Þeim verkþætti er nú lokið og fylgja tillögur nefndarinnar hér með í formi frv. um breytingar á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Nefndin mun að afloknum þessum verkþætti taka til við aðra hluta húsnæðissamkomulags aðila vinnumarkaðarins, þ.e. breytingar á lögum um tekju og eignarskatt, þ.e. húsnæðisafsláttur, og stefnir að því að skila tillögum um það efni sem allra fyrst.“

Og í bréfi frá forsrh. til formanns nefndarinnar sem er dags. 15. apríl, eftir að nefndin hafði afhent þetta frv., kemur fram að ríkisstj. lýsir sig einnig reiðubúna til áframhaldandi viðræðna um húsnæðisafslátt, sbr. samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 26. febr. s.l. og yfirlýsingu ríkisstj. dags. 27. febr., og felur nefndinni að vinna þetta verk. Og nefndin hefur þegar hafið starf við að móta þessar tillögur.

Nefndinni var skammtaður naumur tími til starfa og tók hún því í upphafi þá ákvörðun að einbeita sér að athugun á þeim hluta húsnæðissamkomulags samningsaðila, sem lýtur að breytingum á hinu opinbera húsnæðiskerfi, og samningu tillagna um það efni. Í framhaldi af þessu mun nefndin fjalla um aðra þætti húsnæðisskipulagsins og stefnir að því að ljúka gerð tillagna um það efni hið allra fyrsta.

Meginatriði húsnæðissamkomulagsins, svo og þessa frv., er það að lagt er til að lánsréttindi í hinu opinbera húsnæðislánakerfi verði tengd aðild manna að lífeyrissjóðum og lánveitingum lífeyrissjóðanna til húsnæðislánakerfis. Er lagt til að einstaklingar hafi mismikinn lánsrétt eftir því hve lífeyrissjóðir þeirra hafa lánað mikið fé til húsnæðislánakerfisins í hlutalli við ráðstöfunarfé sitt. Lánveitingar lífeyrissjóða til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna hafa um árabil verið ein meginuppspretta lánsfjár þessara sjóða. Þessar lánveitingar, eða skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af byggingarsjóðunum tveimur, hafa bæði verið reistar á sérstöku samkomulagi um að sjóðirnir tækju með því móti þátt í fjármögnun félagslegra íbúðarbygginga en hins vegar á lögum. Með lögum nr. 13/1981 var ákveðið að hverjum lífeyrissjóði sé skylt að verja a.m.k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, Framkvæmdasjóðs Íslands og fjárfestingarlánasjóða. Skuldabréfakaupin í heild sinni hafa þó aldrei náð þessu marki og skuldabréfakaup sjóðanna allra hafa numið 33-37% ráðstöfunarfjár þeirra undanfarin ár. Að auki hafa sjóðirnir keypt mjög mismikið af skuldabréfum, margir sjóðir hafa staðið við kaupskylduna og vel það, en aðrir hafa keypt mun minna og sumir ekki neitt. Geta sjóðanna til annarra útlána, einkum til einstaklinga, hefur því þegar af þessum ástæðum verið mjög misjöfn og yfirleitt má segja að því minna sem sjóðirnir hafa varið af fé sínu til skuldabréfakaupa af hinu opinbera, því hærri lán hafa þeir getað veitt sjóðfélögum.

Meginrökin fyrir þeim tillögum sem fluttar eru með frv. þessu, um að lánsréttur einstaklinga hjá Byggingarsjóði ríkisins verði háður skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna, sem einstaklingarnir greiða til, eru því þau að heildarlánsréttur manna hjá Byggingarsjóði ríkisins og lífeyrissjóðunum sé nú mjög misjafn eftir lífeyrissjóðsaðild. Þannig eiga allir rétt á opinberum húsnæðislánum en mismikinn rétt hjá lífeyrissjóðunum eftir því hve miklu af ráðstöfunarfé sínu sjóðirnir verji til skuldabréfakaupa af hinu opinbera. Kaupi sjóður mikið af skuldabréfum af hinu opinbera og fjárfestingarlánasjóðum á sjóðfélaginn einungis kost á litlu láni úr sjóðnum. Sjóðir, sem vilja lána sem mest til sjóðfélaga, gæta því þess að kaupa sem minnst af skuldabréfum byggingarsjóðanna og annarra fjárfestingarlánasjóða. Það er skoðun samningsaðilanna að verði ekki breyting á þessu og lánsréttindi manna gerð jafnari en nú er, verði að gera ráð fyrir að sjóðirnir hætti almennt að kaupa skuldabréf byggingarsjóðanna en fari í þess stað að lána beint til sjóðfélaga sinna.

Auk þess sem hér hefur verið rakið má benda á að með þeim hætti sem hér er lagt til verður unnt að tryggja húsnæðislánakerfinu verulega aukið fjármagn á næstu árum án þess að til komi aukið ríkisframlag.

Tillögur frv. þessa um Byggingarsjóð ríkisins eru þríþættar.

Í fyrsta lagi er í 1. gr. lagt til að lagaákvæðum um fjáröflun sjóðsins verði breytt á þann veg að gert verði ráð fyrir sérstökum samningum um skuldabréfakaup lífeyrissjóða og enn fremur að felld verði niður ákvæði um lágmarksfjárframlag ríkissjóðs.

Í öðru lagi eru í 2.-4. gr. gerðar tillögur um lánsrétt einstaklinga og lánsfjárhæðir og lengingu lánstíma.

Í þriðja lagi eru í 5.-12. gr. gerðar ýmsar tillögur um lagabreytingar til að samræma ýmis gildandi ákvæði laganna megintillögum frv. um lánsrétt, lánsfjárhæðir og endurgreiðslutíma lána.

Tillögur frv. um Byggingarsjóð verkamanna eru þríþættar.

Megintillagan er í 18. gr. og fjallar um hækkun lánshlutfalls úr 80% í 85%.

Í öðru lagi eru í 13.-17. gr. ýmsar tillögur sem leiða af þeim tillögum sem gerðar eru um Byggingarsjóð ríkisins, einkum þeirri að hægt sé að miða lán við svonefnda staðalíbúð.

Í þriðja lagi eru í 19.-2L gr. tillögur um breytingar sem leiða af hækkun lánshlutfallsins.

Hér á eftir verður fjallað um tillögur frv. í einstökum atriðum.

Fjáröflun Byggingarsjóðs ríkisins. Í gildandi ákvæðum um fjáröflun segir í 2. tölul. 9. gr. laga um Húsnæðisstofnun að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins skuli ekki nema lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins hvert ár. Í 1. gr. frv. er lagt til að þetta ákvæði um lágmarksframlag verði fellt niður og framlag ríkissjóðs verði óbundið og ákveðið með fjárlögum hvers árs. Þessi till. er rökrétt afleiðing þeirrar till. frv. að lánsréttur og lánsfjárhæðir verði lögfestar. Samkvæmt gildandi lögum er við ákvörðun framlags ríkissjóðs ár hvert gengið út frá útlánaáætlun sem félmrh. og fjmrh. samþykkja. Í þeirri áætlun er m.a. gert ráð fyrir ákveðnum fjölda útlána og ákveðnum fjárhæðum nýbyggingarlána sem miðaðar eru við byggingarkostnað. Eins og nú háttar geta stjórnvöld því stýrt útlánum sjóðsins með breytingum á hlutfalli lána af byggingarkostnaði og að vissu marki með ákvörðun um fjölda útlána og þar með ákveðið ríkissjóðsframlagið. Í till. þessa frv. er á hinn bóginn gert ráð fyrir að lánsfjárhæðir verði lögfestar miðað við verðlag á fyrsta fjórðungi þessa árs og þær breytist síðan í hátt við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Þetta á ekki aðeins við nýbyggingarlán heldur og lán til kaupa á notuðum íbúðum. Þetta hefur í för með sér að möguleikar stjórnvalda til að stýra útlánum og hafa þau áhrif á íbúðarbyggingar og fasteignaviðskipti, sem heppileg eru talin með hliðsjón af framvindu efnahagsmála og efnahagsstefnu stjórnvalda, eru takmarkaðri en nú er og því eðlilegt að ekki sé kveðið á um lágmarksframlag ríkissjóðs í lögum. Jafnframt er nú gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir beini fjármagni sínu í mun meira mæli en nú er til Húsnæðisstofnunar, en í því felst að vissu marki sameining á núverandi húsnæðislánum og lífeyrissjóðslánum.

Gera verður ráð fyrir að þörfin fyrir framlög úr ríkissjóði ráðist fyrst og fremst af tvennu, af niðurgreiðslu vaxtakostnaðar húsbyggjenda og íbúðarkaupenda (þ.e. af muninum á vöxtum af teknum lánum hjá lífeyrissjóðum og veittum lánum til einstaklinga) og af lánsfjáreftirspurn. Í tillögum nefndar þeirrar sem samdi frv. þetta er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að vextir af útlánum megi ekki verða hærri en 3,5% á ári. Ríkisstjórnin taldi það ekki heppilegt að kveðið væri á um hámark vaxta í lögum. Á hinn bóginn hefur ríkisstj. ákveðið að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði 3,5% á ári eins og þeir eru nú og verði ekki hærri meðan þessi ríkisstj. situr.

Í 1. gr. frv. þessa er gert ráð fyrir að vextir af skuldabréfum þeim sem lífeyrissjóðirnir kaupa af Húsnæðisstofnuninni verði miðaðir við að lánskjör á þessum bréfum verði miðuð við þau kjör sem ríkissjóður býður á fjármagnsmarkaði hverju sinni, eins og gert er ráð fyrir í húsnæðissamkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Ljóst er að þetta getur falið í sér mikla óvissu fyrir Byggingarsjóð ríkisins um þær skuldbindingar sem hann tekst á hendur gagnvart lífeyrissjóðum og um niðurgreiðslu vaxtakostnaðar einstaklinga. Jafnframt leggur þessi tilhögun auknar skyldur á ríkissjóð um þátttöku hans á lánsfjármarkaði. Ýmislegt verður þó að hafa í huga í þessu sambandi.

1. Niðurgreiðsla vaxtakostnaðar hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna hefur viðgengist um langt skeið. Eins og nú háttar eru vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins 3,5% en 1% af Byggingarsjóði verkamanna. Vextir af skuldabréfum þeim sem lífeyrissjóðirnir kaupa af byggingarsjóðunum tveimur eru nú 6-9%. Vaxtamunur er því nú 2,5-5,5% hjá Byggingarsjóði ríkisins og 5-8% hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þess ber þó að geta að þessi mikli vaxtamunur hefur staðið í tiltölulega skamman tíma. Á árunum 1980-1981 var vaxtamunurinn hjá Byggingarsjóði ríkisins 1% og um 1,25 til 1,75% á árunum 1982-1983.

2. Hafa verður í huga að þrátt fyrir háa vexti á fjármagnsmarkaði að undanförnu og þann vaxtamun sem nú er hafa útlánavextir byggingarsjóðanna ekki orðið hærri en að ofan greinir. Því er óvíst að ákvæði um vaxtaþak, eins og tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir, breyti svo miklu um vaxtaákvarðanir og núv. ríkisstj. mun ekki hækka vexti umfram 3,5%.

Þá má nefna eins og síðar verður rakið nánar að horfur eru á að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóðanna aukist mjög mikið á næstu árum. Þetta stafar ekki síst af því að í kjarasamningunum í febrúar tókst samkomulag um að iðgjaldagreiðslur yrðu auknar í áföngum á árunum 1987-1990 frá því að miðast við dagvinnulaun nú í það að iðgjald greiðist af öllum launum. Þessi breyting er talin munu auka iðgjaldatekjur um 50% og er það varlega áætlað. Að auki hefur ávöxtun á ráðstöfunarfé sjóðanna batnað mjög mikið undanfarin ár. Á hinn bóginn er ljóst að vegna aldursskiptingar þjóðarinnar undanfarin ár mun líða langur tími þar til lífeyrisgreiðslur sjóðanna fara að aukast svo að um munar. Af þessu leiðir að lánsfjárframboðið hjá lífeyrissjóðunum eykst mjög ört á næstu árum og verður að ætla að sú aukning geti haft talsverð áhrif á vexti á almennum fjármagnsmarkaði.

Þeir útreikningar sem gerðir hafa verið á vegum nefndarinnar sem vann að máli þessu benda til að verði mismunurinn á vöxtum á teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meira en 2-3% til lengdar muni lánakerfið sligast. Þannig sýna dæmi sem tekin hafa verið um 5-6% vaxtamun til langs tíma að slík niðurgreiðsla krefjist sífellt meira ríkisframlags og lántöku hjá lífeyrissjóðum. Þetta gæti aðeins staðið mjög skamma hríð og hlyti að kalla á gagngera endurskoðun þessara mála og breytingu á lögum.

Sem fyrr segir er í frv. þessu gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnunin geri bindandi samninga við lífeyrissjóði um skuldabréfakaup. Lagt er til að samningar þessir verði til a.m.k. tveggja ára þar sem óhjákvæmilegt er að sem mest festa skapist um lánamálin og Húsnæðisstofnun komi við traustri áætlanagerð. Þetta er ekki síst nauðsynlegt fyrir væntanlega lántakendur, enda er það eitt markmiða húsnæðissamkomulagsins að eytt sé óvissu einstaklinga um væntanlega lántökumöguleika eftir því sem kostur er. Gert er ráð fyrir að í samningum þessum verði kveðið á um að viðkomandi lífeyrissjóður skuldbindi sig til að verja að lágmarki tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum byggingarsjóðanna. Jafnframt yrði að vera ákvæði um eftirlit með því að við þetta væri staðið og hvernig bregðast skuli við frávikum. Yrði þá að reikna með að vanefndir lífeyrissjóðs hefðu í för með sér skerðingu á lánsrétti sjóðfélaga hjá Byggingarsjóði ríkisins hafi þeir ekki fengið bindandi lánsloforð fyrir. Í samningum þessum yrðu loks ákvæði um lánskjör og endurgreiðslur.

Auk þess sem þegar hefur verið nefnt um vexti má benda á að endurgreiðslutími á lánum lífeyrissjóða til byggingarsjóðanna er nú tiltölulega skammur eða mest 10 ár miðað við endurgreiðslutíma útlána til einstaklinga sem er 40 ár skv. tillögu þessa frv. Með hliðsjón af því að iðgjaldatekjur lífeyrissjóðanna munu vaxa mjög á næstu árum, en greiðslubyrði þeirra af lífeyri tekur fyrst að vaxa að mun að alllöngum tíma liðnum, virðist eðlilegt að reynt verði að semja um mun lengri endurgreiðslutíma af lánum lífeyrissjóðanna til byggingarsjóðanna en nú er.

Þá má enn fremur hafa í huga að lán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga eru yfirleitt til 20-40 ára. Lenging lánstímans gæti breytt stöðu byggingarsjóðanna til muna næstu árin og þar með útlánagetu þeirra í framtíðinni. Í 1. gr. er lagt til að í 3. tölul. 9. gr. verði kveðið á um að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af Húsnæðisstofnun fremur en af Byggingarsjóði ríkisins eins og nú er. Þetta stafar af því að lántökuréttur einstaklinga er í frv. háður lánveitingum lífeyrissjóðanna til hins opinbera húsnæðislánakerfis í heild. Því er eðlilegt að skuldabréfaviðskipti verði við Húsnæðisstofnunina sem komi fram fyrir hönd byggingarsjóðanna beggja og skipti síðan niður lánsfénu milli sjóðanna eftir þörfum.

Töluverð óvissa ríkir um útlánaþörf Byggingarsjóðs ríkisins næstu árin. Undanfarin fimm ár hafa að meðaltali verið veitt 1368 nýbyggingarlán á ári og um 2000 lán til kaupa á notuðum íbúðum. Auk þess má við mat á byggingarþörf næstu ára taka mið af tölum um breytingu mannfjöldans. Í hverjum árgangi á aldrinum 20-30 ára eru nú um 4300 manns en árlega deyja um 1700 manns. Mismunurinn er 2600 en sýnt er að þessi tala fer lækkandi. Þetta stafar bæði af því að fallandi fæðingartíðni veldur því að fækkar í árgöngum á aldrinum 20-30 ára frá því sem nú er og að tala þeirra sem deyja á ári hverju fer vaxandi vegna aukins fjölda roskins og aldraðs fólks. Séu tveir um hverja íbúð benda þessar tölur til að byggingarþörfin nemi 1300 íbúðum á ári og fer sú tala lækkandi. Við þetta bætist svo íbúðaþörf einhleypinga sem gera má ráð fyrir að aukist, m.a. vegna tíðra hjónaskilnaða.

Tölur Húsnæðisstofnunar sýna að undanfarin ár hefur fjöldi lána til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn verið um helmingur allra lána til byggingar á nýju húsnæði og kaupa á nýju og notuðu húsnæði. Í áætlunum um útlánaþörf er miðað við að útlán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn skiptist í svipuðum hlutföllum milli nýrra og notaðra íbúða og verið hefur. Enn fremur er miðað við að útlán skiptist líkt á milli þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn og hinna sem eiga íbúð fyrir. Þá má nefna að sýnt er að meðallán til þeirra sem eru að kaupa notaða íbúð og eiga íbúð fyrir muni fara lækkandi ár frá ári eftir því sem meira verður áhvílandi af húsnæðismálastjórnarlánum á slíkum íbúðum. Þetta gæti haft veruleg áhrif þegar fram líða stundir þótt naumast verði þau áhrif mikil næstu árin.

Niðurstaða áætlana um útlán miðast við fyrrgreindar tölur um fjölda lána og skiptingu þeirra, svo og miðað við þær tillögur um lánsfjárhæðir sem gerðar eru í þessu frv., er sú að útlánaþörf gæti numið 4,5-5,5 milljörðum kr. á næstu árum en fari síðan minnkandi. Á hinn bóginn er hæpið að stefna strax í upphafi að ýtrustu útlánum heldur virðist eðlilegt að útlánaeftirspurn verði næstu fjögur árin fullnægt með hliðsjón af vexti ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna. Auk þess er æskilegt að reynt sé að forðast stökkbreytingar í framboði íbúðalána vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem það hefði vafalaust á íbúðaverð og fasteignaviðskipti, svo og á efnahagslífið í heild sinni. Því þykir rétt að gera ráð fyrir að útlánaeftirspurninni í upphafi verði sinnt á þann hátt að þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn og eiga forgang fái lán sín afgreidd með eðlilegum hætti en eftirspurn hinna sem eiga íbúð fyrir verði jafnað yfir lengri tíma.

Við könnun á fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins hefur nefndin notið liðsinnis Ingva Arnar Kristinssonar hagfræðings hjá Seðlabanka Íslands. Þá fékk nefndin dr. Pétur H. Blöndal tryggingastærðfræðing til þess að gera áætlun um þróun ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna.

Í áætlunum Péturs Blöndals kemur fram að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna muni vaxa úr tæpum 5 milljörðum kr. á árinu 1986 í 8-9,5 milljarða kr. á árinu 1990 eftir því hvernig ávöxtunar sjóðirnir njóta og lánstíma og fjárráðstöfun þeirra er háttað. Sé reiknað með að sjóðirnir verji yfirleitt 55% af ráðstöfunarfé til kaupa á skuldabréfum og sé gert ráð fyrir svipuðum lántökum Byggingarsjóðs verkamanna og á þessu ári má gera ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins hafi til umráða af lífeyrissjóðafé um 3,1 milljarð kr. á árinu 1987 og um eða yfir 5 milljarða kr. árið 1990. Sé gert ráð fyrir a) ofangreindum lántökum hjá lífeyrissjóðum b) að aðrar lánveitingar en til kaupa á nýjum og notuðum íbúðum nemi um 300-400 millj. kr. eins og nú háttar og c) áætlað fyrir greiðslum af teknum lánum, tekjum af afborgunum og vöxtum af veittum lánum og rekstrarkostnaði fæst sú niðurstaða að Byggingarsjóðurinn muni hafa til ráðstöfunar af eigin fé og lánsfé um 2,5-2,6 milljarða kr. til útlána til byggingarlána og lána til kaupa á nýjum og notuðum íbúðum á árinu 1987 og 3,8 milljarða kr. árið 1990.

Útlánaáætlun má byggja á eftirfarandi forsendum: 1. Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á nýjum íbúðum er talin svara til byggingar 1400 íbúða á ári. Fyrstu tvö árin verði eftirspurnin þó meiri eða sem nemur lánum til 1600 íbúða. Þar af verði um 800 lántakendur sem ekki eiga íbúð fyrir og njóta því forgangs.

2. Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á notuðum íbúðum er talin vera 2000 en jafnframt er bætt við 200 fyrstu tvö árin. Þar af er gert ráð fyrir að um 1100 lán gangi til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir.

3. Gera má ráð fyrir að veitt meðallán verði nokkuð lægri en svarar fullum lánsfjárhæðum, m.a. vegna þess að ekki njóti allir óskerts lánsréttar, að áhvílandi lán verki til lækkunar á veitt lán og vegna mismunandi veðhæfni íbúða. Hér er gert ráð fyrir að meðallán nemi 80% af fullum lánsfjárhæðum. Niðurstaða þessa er sú að lánsfjárþörf vegna forgangslána geti numið 2,6 milljörðum kr. en lánsfjárþörf vegna þeirra sem eiga íbúð fyrir geti numið 1,8 milljörðum kr. Þessar tölur ættu að eiga við árin 1987 og 1988 en eftir það gætu þær lækkað í 2,3-2,4 milljarða og 1,6-1,7 milljarða kr.

Auk takmarkaðs fjármagns er margt sem mælir með því að hluta af lánsfjáreftirspurn þeirra sem eiga íbúð fyrir og eiga því ekki forgang að lánum skv. frv. verði í upphafi jafnað yfir lengri tíma en eitt ár. Þetta væri ekki síst til að draga úr þenslu- og verðbólguáhrifum útlánaaukningarinnar á byggingar- og fasteignamarkaði. Má þá jafnframt hafa í huga að sparnaður í hagkerfinu mun aukast í áföngum á árunum 1987-1990 vegna þeirrar aukningar á greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóða sem um samdist í kjarasamningnum í febr. s.l.

Sé gert ráð fyrir að um helmingi af þeim lánveitingum sem reiknað er með hér á undan til þeirra sem eiga íbúð fyrir verði frestað um eitt ár yrði fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins til lána vegna nýrra og notaðra íbúða um 3,5 milljarðar kr. á árinu 1987. Framlag ríkissjóðs mætti á þessum forsendum ekki vera lægra en 1 milljarður. Lögbundið lágmarksframlag ríkissjóðs miðað við samþykktar útlánaáætlanir á árinu 1986 er 940 millj. kr. Á hinn bóginn mun ríkissjóður verja á þessu ári 1100 millj. kr. til sjóðsins auk 200 millj. kr. til lána til þeirra sem eiga í sérstökum greiðsluerfiðleikum. Hafa verður í huga að framlag ríkissjóðs umfram hið lögbundna lágmark byggist á sérstakri fjáröflun sem fellur niður í lok þessa árs. Þessu til viðbótar ver ríkissjóður 300 millj. kr. til Byggingarsjóðs verkamanna þannig að samtals nema framlög ríkissjóðs til byggingarsjóðanna beggja 1600 millj. kr. á þessu ári.

Vegna mikillar aukningar ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna næstu árin á ekki að skapast hætta á sífellt vaxandi biðröð þótt lánum sé frestað í upphafi. Heppilegt virðist að útjöfnunar lánsfjáreftirspurnarinnar gæti fyrst og fremst á árinu 1987 en eftir það ætti ekki að taka nema 2-3 ár að ná jafnvægi. Er því miðað við að lánsfjárhæðir skv. frv. þessu, ofangreindar tölur um fjölda lána og að framlag ríkisins verði ekki lægra en 1 milljarður kr. á ári.

Þörfin fyrir framlag ríkissjóðs ræðst þegar fram í sækir ekki einungis af lánsfjáreftirspurn heldur ekki síður af vaxtaniðurgreiðslunni. Hún er svo aftur háð vaxtamuninum á teknum lánum og veittum og muninum á endurgreiðslu lánanna. Verði hér um verulegan mun að ræða í vöxtum og tíma og vaxtaniðurgreiðslan því mikil kallar það, svo sem fyrr segir, á vaxandi framlag ríkissjóðs. Á hinn bóginn er einnig ljóst að framlag ríkissjóðs ræður miklu um eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Því er óhjákvæmilegt að ákvarðanir um framlag ríkissjóðs á fjárlögum til Byggingarsjóðs ríkisins ár hvert verði teknar með hliðsjón af hvoru tveggja, útlánaþörf sjóðsins á árinu og eiginfjárstöðu sjóðsins.

Sem fyrr segir er í frv. þessu gert ráð fyrir að lánsréttur sé háður skuldabréfakaupum lífeyrissjóða af Húsnæðisstofnun. Í 2. gr. eru gerðar tillögur um lánsrétt einstaklinga og er megintillagan sú að einstaklingar eigi fullan lánsrétt kaupi lífeyrissjóður þeirra skuldabréf fyrir a.m.k. 55% af ráðstöfunarfé sínu, lágmarkslánsrétt ef skuldabréfakaupin nema 20% af ráðstöfunarfé, en verji sjóðirnir enn lægra hlutfalli af ráðstöfunarfé til Húsnæðisstofnunarinnar eiga félagar í þeim sjóðum engan lánsrétt hjá Byggingarsjóði. Þessar tillögur stefna að því að jafna heildarlánsrétt einstaklinga í hinu opinbera húsnæðislánakerfi og hjá lífeyrissjóðum og að tryggja húsnæðislánakerfinu nægilegt fjármagn til útlána.

Jafnframt er hér lagt til að þeir sem ekki eiga íbúð fyrir njóti forgangs til lána fram yfir hina sem eiga íbúð. Þessar tillögur eru teknar beint eftir húsnæðissamkomulagi ASÍ, VSÍ og VMS og er stefnt að því að sjóðirnir séu hvattir til skuldabréfakaupa fyrir a.m.k. 55% ráðstöfunarfjár en með því móti tryggja þeir sjóðfélögum sínum sem mestan lánsrétt.

Athygli skal vakin á því að þótt lán verði eftir sem áður veitt til byggingar eða kaupa tiltekinnar íbúðar verða þau jafnframt háð persónulegum rétti einstaklinganna. Af þessu leiðir m.a. að viðmiðun við byggingarkostnað og fjölskyldustærð sem er í gildandi lögum fellur niður.

Í 3. og 4. gr. eru tillögur um lánsfjárhæð og eru þær teknar eftir húsnæðissamkomulagi samningsaðilanna. Er lagt til að hámarkslán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa nýja íbúð verði 2,1 millj. kr. Til samanburðar má nefna að húsnæðismálastjórnarlán 2-4 manna fjölskyldu var á fyrsta fjórðungi þessa árs 1 millj. og 50 þús. kr. Lífeyrissjóðslán til einstaklinga voru á bilinu frá um það bil 100 þús. kr. til 1,0 millj. kr. í lok s.l. árs. Algengt er nú að slík lán séu 400-500 þús. kr. en rétt til svo hárra lána vinna menn sér þó yfirleitt inn með iðgjaldagreiðslum í nokkur ár. Af tillögum frv. leiðir hins vegar að menn geta eignast fullan lánsrétt með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða í tvö ár.

Sú hækkun á lánum til einstaklinga sem gert er ráð fyrir í frv. og flestir lántakendur munu njóta, verði það að lögum, er ekki síst mikilvæg fyrir þá sök að hún dregur úr þörf fyrir skammtímalán og léttir því greiðslubyrði verulega fyrstu árin eftir íbúðakaupin. Jafnframt er lagt til að lánstími verði lengdur í 40 ár úr 31 ári fyrir nýbyggingarlán og úr 21 ári hvað varðar lán til kaupa á notuðum íbúðum. Áhrif þessara þátta koma skýrt fram í meðfylgjandi töflu sem sýnir samanburð á greiðslubyrði lántakenda á 2,1 millj. kr. láni í núverandi lánakerfi og í því kerfi sem frv. gerir ráð fyrir.

Í tillögum frv. þessa er gert ráð fyrir að þeir sem eiga íbúð fyrir og fullan lánsrétt eigi kost á láni til byggingar eða kaupa á nýrri íbúð sem nemi 70% af lánum til þeirra sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn. Fjárhæðin yrði því 1470 þús. kr. Sömu fjárhæð eiga þeir að eiga kost á sem ekki eiga íbúð áður en kaupa notaða íbúð. Þeir sem eiga íbúð fyrir og ætla að kaupa notaða íbúð eiga loks að eiga kost á 1 millj. og 29 þús. kr. láni, þ.e. 70% af láninu til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir.

Loks má nefna að lagt er til að lánin eða hlutar þess, sé það greitt út í áföngum, séu verðtryggðir. Í þessu felst í reynd hækkun á lánum frá því sem nú er og eykur hún stórlega öryggi einstaklinga um fjármögnun íbúðakaupa.

Ég vil benda hv. þm. á að kynna sér töflu á bls. 21 í grg. þar sem kemur fram að við núverandi kerfi mundi greiðslubyrði lántaka breytast mjög eða sem svarar á fyrsta ári úr 200 þús. kr. í 73 500 kr. sem yrði á 1. og 2. ári ársgreiðsla.

Byggingarsjóður verkamanna. Megintillagan sem gerð er í frv. um Byggingarsjóð verkamanna felst í 18. gr. Þar er tekin upp sú tillaga samningsaðila að lánshlutfall verði hækkað úr 80% í 85%. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að veita sérstök skammtímalán til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun. Ekki þykir raunhæft að þessi lán verði til skemmri tíma en þriggja ára. Er þá jafnframt gert ráð fyrir að þeir sem fá slík lán þurfi ekki að greiða afborganir af langtímaláni sínu hjá sjóðnum á sama tíma.

Að öðru leyti eru tillögurnar um breytingar á ákvæðum um Byggingarsjóð verkamanna aðallega gerðar vegna tillagna frv. um Byggingarsjóð ríkisins eða til samræmingar vegna tillögunnar um hækkun lánshlutfalls. Hér er m.a. um það að ræða að vegna þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á ákvæðum um lánsrétt og ákvörðun lánsfjárhæða hjá Byggingarsjóði ríkisins verður hætt að ákveða lán sem hlutfall af byggingarkostnaði svonefndrar staðalibúðar. Ákvæði um staðalíbúðir eru því felld niður en þau hafa jafnframt gilt um lán til verkamannabústaða. Í frv. er gert ráð fyrir að í þess stað ákvarði húsnæðismálastjórn sérstakan kostnaðargrundvöll sem hún geti miðað verkamannabústaðalánin við. Um þetta er vísað til athugasemda við einstakar greinar frv.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt en ég vil aðeins koma inn á athugasemdir um 2. gr. frv. sem er í raun og veru mikilvægasta greinin þannig að þar kemur allt fram sem um er að ræða. Til þess að fyrirbyggja misskilning tel ég mjög eðlilegt að alþm. kynni sér mjög athugasemdir um 2. gr.

Herra forseti. Ég vil aðeins í lokin draga saman aðalatriði þessa lagafrv. um nýtt húsnæðislánakerfi. Það er í fyrsta lagi, eins og áður hefur komið fram, hækkun lána. Húsnæðislánin hækka sérstaklega til þeirra sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Lánin geta orðið fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð: Ný íbúð allt að 2,1 millj. kr., notuð íbúð allt að 1 millj. 470 þús. kr. Fjárhæðir þessar miðast við byggingarvísitölu 250. Fyrir þá sem eiga íbúð fyrir: Ný íbúð allt að 1 millj. 470 þús. kr., notuð íbúð allt að 1 millj. 29 þús. kr. Þeir sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn eru í forgangsröð.

Lánsréttur fer eftir því hversu háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu lífeyrissjóður umsækjanda ver til kaupa á skuldabréfum hjá Húsnæðisstofnun. Skuldabréfakaup fyrir 55% af ráðstöfunarfé veitir fullan rétt en 20% hlutfall veitir minnsta rétt. Miðað er við að umsækjandi hafi greitt í lífeyrissjóð undangengin tvö ár áður en umsókn var lögð fram. Ég vil sérstaklega undirstrika að síðan 1980 hefur öllum launþegum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi verið rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði.

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að þarna geti komið upp ýmis vandamál í sambandi við meðferð málsins. Um það verður að fjalla á sérstakan hátt og ég geri ráð fyrir því að það komi til í sambandi við athugun félmn. hvort á að setja varnagla við þessu. Það er sjálfsagt erfitt mál en eins og okkar lífeyrisskyldukerfi er byggt upp má búast við ýmsum vanköntum í sambandi við þetta mál. Lánsréttur einstaklings miðast við skuldabréfakaup lífeyrissjóðsins sem hann greiðir í. Lánsréttur hjóna, eða sambýlisfólks, sem bæði eru á vinnumarkaði, ræðst af meðaltali skuldabréfakaupa lífeyrissjóðs þeirra. Lánsréttur hjóna, eða sambýlisfólks, þar sem heimilisstörf eru aðalstarf annars þeirra ræðst af lánsrétti þess sem er á vinnumarkaðinum.

Áður en gengið er frá lánasamningi skal ganga frá greiðslu og kostnaðaráætlun og umsækjanda kynnt greiðslubyrði hans. Heimilt er að synja um lán ef umsækjandi ræður augljóslega ekki við framkvæmdina. Umsækjandi getur átt kost á því að mat kostnaðar og greiðsluáætlana sé á vegum lánastofnana sem Húsnæðisstofnun hefur gert samning við. Sér þá viðkomandi lánastofnun um lánssamning, afgreiðslu og útborgun lánsins.

Stærðarreglur. Lán vegna nýrra íbúða skerðast um 2% fyrir hvern fermetra sem umfram er 170 fermetra. Er þá miðað við innanmál útveggja hússins alls að frádregnum bílskúr.

Sé lánið greitt út í tveimur eða fleiri hlutum fylgja hlutarnir breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar. Lánin eru verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu og bera, eins og nú hefur verið ákveðið, 3,5% vexti og eru til allt að 40 ára. Umsækjendur eiga rétt á að fá innan tveggja mánaða eftir að fullgild umsókn er lögð fram bindandi svar um lánsfjárhæð og afgreiðslutíma lánsins. Á tímabilinu 1. sept. til 31. des. 1986 ræðst lánsréttur af því hve háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1986 lífeyrissjóður umsækjanda ver til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunarinnar. Sá sem á óafgreidda lánshluta getur því fengið þá afgreidda skv. nýja kerfinu strax eftir 1. sept. ef lífeyrissjóður umsækjanda fer inn í kerfið á þessu ári, t.d. kaupir fyrir 55% af ráðstöfunarfé sínu strax á þessu ári. Þeir lánshutar sem eru óafgreiddir eftir 1. jan. 1987 verða allir afgreiddir eftir nýja kerfinu ef umsækjandi óskar þess.

Herra forseti. Ég vænti þess að um þetta mál sé víðtækt samkomulag á hv. Alþingi og hægt verði að nýta vel þann stutta tíma sem eftir er af þingtíma og tryggja þannig að þetta frv. verði að lögum. Ég vænti þess einnig að hv. félmn. beggja deilda vinni saman að því að athuga þetta frv. Ég geri alveg ráð fyrir því að margt geti komið upp. Ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, koma inn á örfá atriði sem eru í samningunum sjálfum, þ.e. í sambandi við aðrar aðgerðir.

Mér finnst rétt að geta þess við 1. umr. að fyrsta atriðið í samkomulaginu er um aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar. Samkomulag varð um að varið verði 300 millj. kr. til viðbótar þeim 200 millj. kr. sem fyrr hafði verið ákveðið af ríkisstj. að verja til sérstakra viðbótarlána á þessu sviði. Ríkisstj. brást strax við þessu atriði og ákveðið var að 500 millj. kr. yrðu veittar í þessu skyni og að þetta yrðu lán til 31 árs og hámarksupphæð yrði 400 þús. kr. á hvern lántakanda eftir því sem ástæður væru til.

Ég vil aðeins geta þess í sambandi við þetta að í dag hafa borist til ráðgjafarstöðvarinnar tæplega 900 umsóknir sem var búið að bóka. Það var búið að afgreiða í gær um 360 umsóknir, sem nema 70,4 millj. kr., en 493 umsóknir eru í afgreiðslu nú.

Ég vil geta þess einnig, vegna þess að það kemur fram í samkomulaginu, að unnið hefur verið að því að fjölga starfsfólki og núna fyrir örfáum dögum var tekið í notkun nýtt húsnæði sem gerir aðstöðu ráðgjafarstöðvarinnar allt aðra en orðið var og mun flýta mjög afgreiðslu þessara mála á næstu dögum.

Í sambandi við annað atriði þessa máls var gert ráð fyrir í samkomulaginu að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því í sambandi við skuldbreytingalán að bankakerfið gæfi húsbyggjendum og kaupendum kost á lengingu lánstíma í allt að 10 ár. Áður hafði verið samið um átta ára skuldbreytingu í bönkum og strax þegar þetta samkomulag kom upp var tekin upp viðræða við bankakerfið um þetta atriði. Hæstv. viðskrh. er með þetta mál í sérstakri athugun, að fá hrein svör við þessum tilmælum, en ég vil geta þess, skv. upplýsingum frá ráðgjafarstofnuninni, að viðskipti við bankakerfið hvað þetta varðar eru mjög til fyrirmyndar.

Þá er í þessu samkomulagi gert ráð fyrir því að Húsnæðisstofnun verði falið að framkvæma könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði hér á landi og skal þeirri könnun hraðað eins og kostur er þannig að hægt sé við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 1987 að veita fjármagn til byggingar leiguhúsnæðis í ljósi þeirrar þarfar sem er fyrir byggingu slíks húsnæðis hér á landi. Á þessu máli var tekið strax og er könnun á þessari þörf nú þegar í gangi.

Í sambandi við breytingu á skattalögum eða hinum svokallaða húsnæðisafslætti hefur komið fram í upphafi máls míns að sú nefnd sem vann þetta frv. er þegar byrjuð að vinna að því að móta þær hugmyndir eða þær breytingar sem til greina koma á þessu sviði og ríkisstj. hefur veitt samþykki sitt til þess að svo verði þannig að ég geri ráð fyrir að við þetta verði staðið.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu, herra forseti, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn. Og ég endurtek að ég vonast til að félmn. beggja deilda þingsins vinni ötullega að því að skoða þetta mál þannig að tryggt verði að hægt verði að afgreiða það, eins og lofað hefur verið, áður en þingi lýkur.