06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um skattfrádrátt fyrir fiskvinnslufólk, frádrátt sem skuli nema 10% af beinum tekjum af störfum við fiskvinnslu, er þess eðlis að það verðskuldar vandaða umræðu á hinu háa Alþingi. Þó nokkrar umræður urðu um þetta fyrir tveimur dögum og sumt í þeirri umræðu var þess eðlis að það kallar á nokkrar athugasemdir.

Engum blandast hugur um sem fylgist með í íslensku atvinnu- og efnahagslífi að nú er svo komið vegna skuldasöfnunar í sjávarútvegi, sérstaklega s.l. fjögur ár vegna þess að hann hefur búið við rangskráð gengi árum saman, að flest sólarmerki benda til þess að þessum grundvallaratvinnuvegi sé smám saman að blæða út. Menn greinir ekki á um að um bullandi hallarekstur er að ræða í fiskvinnslu og flestum greinum útgerðar líka. Jafnvel þótt það sé byggt á meðaltölum Þjóðhagsstofnunar breytir það ekki því að um þetta er ekki deilt. Greiðslugeta þessa undirstöðuatvinnuvegar, samkeppnishæfni hans við aðra atvinnuvegi um laun, er m.ö.o. viðurkennt að er orðin allt of lítil.

Á s.l. sumri urðu miklar umræður um það að fólksflótti væri úr fiskvinnslunni og í framhaldi af því fólksflótti af landsbyggðinni. Forsvarsmenn fiskvinnslustöðvanna nefndu mörg dæmi um það að þjóðarbúið og þjóðarframleiðslan yrðu fyrir óbættum skaða vegna þess að ekki væri mannafli til þess að fullvinna afurðirnar, sérstaklega ekki í þær neytendaumbúðir og pakkningar sem skila hæstu verðlagi. Þetta tap er metið upp á mörg hundruð millj. kr. Á sama tíma er það svo að þessi undirstöðuatvinnuvegur getur ekki greitt sambærileg laun við þær greinar sem njóta hagnaðarins af rangskráðu gengi og innstreymi erlends fjár sem opinberi geirinn stendur fyrir. Við skulum hafa í huga að 2/3 hlutar af erlendum lánum Íslendinga eru teknir af opinberum aðilum. Það er efnahagsstefna ríkisstj., - og það er heldur ekkert umdeilt meðal þeirra sem þessi mál ræða - hallareksturinn í ríkisbúskapnum, vitlausar fjárfestingar, linnulaust innstreymi erlends fjármagns, röng gengisskráning, þar af leiðandi dúndrandi viðskiptahalli, sem skilar tekjunum til verslunarinnar, þjónustunnar og framkvæmda, bæði opinberra og einkaaðila, sem síðan endurspeglast í launaskriði, yfirborgunum og þeim sívaxandi kjaramun sem orðinn er í þjóðfélaginu milli þeirra sem stunda undirstöðuatvinnuvegina og svo hins vegar þjónustugeirans.

Nú eru kannske ekki allir Íslendingar sem vita að við lifum á fiski, en mikið væri það nú æskilegt að menn gerðu sér grein fyrir því. Þjóðfélagsástand sem er niðurstaða og afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstj. er leiðir til þessarar stöðu fær ekki staðist; þetta getur ekki staðist til lengdar.

Að vísu má segja að hægt sé að hugsa sér að fara aðrar leiðir en hv. flm., þeir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Guðmundur J. Guðmundsson, leggja hér til. Þá verða menn líka að hafa í huga að þær aðgerðir verða að vera skjótvirkar og þá verða menn líka að benda á hverjar þær gætu verið.

Það vakti athygli mína við umræðurnar um daginn að þrjár hv. þingkonur, fulltrúar kvennasjónarmiða, andmæltu þessu frv. og út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. Það gerði hv. þm. Kristín Kvaran, fyrir hönd Bandalags jafnaðarmanna, það gerði málsvari Kvennalistans, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, og það gerði hv. þm. Guðrún Helgadóttir, þm. Alþb. Það var dálítið athyglisvert vegna þess að ekki fer á milli mála að við erum að ræða um starfskjör fjölmennustu kvennastéttar í landinu, þeirrar stéttar sem vinnur erfiðustu störfin undir bónusálagi með slíkum hætti að fulltrúar heilbrigðisstétta viðurkenna að atvinnusjúkdómar í þessari starfsgrein eru tíðir eins og allir þekkja sem einhver kynni hafa af. Þess vegna er það athyglisvert að fulltrúar kvenna hér á hinu háa Alþingi skuli ekki hafa tekið undir þetta. En hins vegar er alveg ástæðulaust að ýkja eða gera þeim upp skoðanir af hverju.

Það er nefnilega út af fyrir sig hægt að hugsa sér aðrar leiðir; það er alveg rétt. Hvers vegna völdu flm. þessa leið? Það er auðvitað þeirra að svara því. Þeir geta auðvitað bent á að í gildandi skattalögum á Íslandi, sem að vísu eru engan veginn til fyrirmyndar, hefur hvað eftir annað verið gripið til þess ráðs að leysa vandamál, sem upp koma í þjóðfélaginu eða á vinnumarkaðinum, fyrir sérstaka hópa með afslætti og undanþágum og frádrætti frá skatti. Flm. geta þess vegna vísað til þessarar hefðar og sagt: Hér er um að ræða sértækar aðgerðir í skattamálum; þær varða tiltekinn hóp - og stutt það hefðbundnum rökum um að svona er okkar skattakerfi. Ég nefni dæmi. Kannske er ekki alveg að treysta minni mínu, en mig minnir að þessir frádráttarliðir frá tekjuskatti séu ekki færri en 20, og ég skal telja upp nokkra þeirra:

1. Skyldusparnaður.

2. Helmingur tekna vegna aldurs.

3. Helmingur greiddra meðlaga.

4. Sjómannafrádráttur.

5. Fiskimannafrádráttur.

6. Kostnaður vegna stofnunar heimilis.

7. Námsfrádráttur.

8. Eftirstöðvar námsfrádráttar.

9. Iðgjald af lífeyristryggingum.

10. stéttarfélagsgjald.

11. Iðgjald af lífsábyrgð.

12. Vaxtagjöld.

13. Gjafir til menningarmála.

14. Helmingur greiddrar húsaleigu,

að svo miklu leyti sem það ákvæði kemst til skila, þ.e. að svo miklu leyti sem leigumarkaðurinn lýtur lögum og reglum, en er ekki undir borðið. Auðvitað geta flm. með nokkrum rétti sagt: Svona eru málin leyst, svona hafa þau verið leyst. - Þetta er þess vegna út af fyrir sig hefðbundin leið og hana er auðvitað hægt að fara.

Hitt er rétt, sem fram hefur komið, að skattakerfi af því tagi sem við höfum, jafnflókið og það er, brýtur í bága við grundvallarreglu við setningu skatta sem er sú að skattakerfið skuli vera einfalt og skilvirkt. Þegar menn bæta undanþágum við undanþágur vill oft fara svo að praxisinn, afleiðingarnar verða aðrar en menn ætluðu. Mér dettur í hug t.d. að nefna liðinn Frádráttur vegna vaxtagjalda. Ætli það geti ekki verið svo að þessi liður m.a. valdi því að húsnæðislánakerfi Íslendinga sé orðið tekjumisjöfnunarkerfi, tekjutilfærslukerfi frá hinum efnaminni í þjóðfélaginu, sem m.a. hafa ekki einu sinni efni á að kaupa íbúðir eða eignast þak yfir höfuðið heldur leigja, til þeirra sem mestu lánin taka og stærstu húsin byggja og fá þess vegna í sinn hlut meginhluta þessa vaxtafrádráttar. Auðvitað eru þetta veigamikil rök út af fyrir sig.

Það er ekki nóg með að margir af hinum efnameiri í þessu þjóðfélagi byggi þá afkomu sína fyrst og fremst á sjálfdæmi um framtöl á tekjum eða aðstöðu til undandráttar frá sköttum. Það er líka á það að líta að skattalöggjöfin á Íslandi mismunar mönnum og tekjum þeirra gagnvart skatti eftir því hvort þeir eru launþegar eða stunda einhvers konar rekstur. Skattaívilnanir til fyrirtækja eru margvíslegar og þær hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Mjög algengt er að þeir sem stunda einhvers konar sjálfstæðan atvinnurekstur geta látið fyrirtæki greiða persónulegan kostnað, þurfa ekki að telja fram allar sínar tekjur eða telja þær fram á tekjulægri meðlimi fjölskyldunnar með þeim afleiðingum sem birtust t.d. í þeirri fréttatilkynningu húsnæðismálastjórnar sem vísaði til þess að sjálfstæðir atvinnurekendur sem hefðu leitað til Húsnæðisstofnunar teldu fram lægri tekjur en einstæðar mæður þeirrar þjónustu.

Það er líka hægt að nefna ótal dæmi í skattalögum um skattaívilnanir til atvinnurekstrar vegna frádráttarliða. Niðurstaðan er sú að reglan í íslensku þjóðfélagi er að fyrirtæki á Íslandi, meira að segja vel stæð fyrirtæki og vel búin eignum, greiða svo til enga skatta.

Sem dæmi um reiknaða frádráttarliði, frádrátt frá tekjum eftir að venjulegur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá, má nefna fyrir fyrirtækin: 1) Gjaldfærslu skv. 53. gr. Hún gefur kannske dálitla skýringu á því hvers vegna bændastéttin á Íslandi er skattlaus þrátt fyrir þá almennu vitneskju sem við höfum að til eru auðvitað innan bændastéttarinnar grónir bændur sem búa að gamalli afskrifaðri fjárfestingu og eru eins og Björn ríki orðaði það eitt sinn, á Löngumýri, sterkefnaðir menn sem betur fer. Það eru kannske einmitt einkum og sér í lagi hinir efnaðri í bændastétt sem skv. þessari reglu verða skattlausir.

2) Fyrirtæki mega draga frá 5% af útistandandi viðskiptakröfum. 3) Fyrirtæki mega draga frá 10% af matsverði vörubirgða. 4) Fyrirtæki mega draga frá 10% vegna arðgreiðslna, og fyrirtæki skirrast ekki við, stór fyrirtæki eins og t.d. Flugleiðir, að greiða arð jafnvel á sama tíma og fyrirtækið er rekið með halla og þiggur verulega ríkisábyrgð og styrki frá ríkinu. 5) Fyrirtæki mega leggja í fjárfestingarsjóði allt að 40% af hagnaði sínum. 6) Og fyrirtæki mega draga frá aukafyrningar skv. 44. gr. um tekjufærslu eða vegna söluhagnaðar.

Þannig er alveg augljóst mál að skattakerfið byggir allt á þeirri hugsun að sniðgengnar eru einfaldar reglur. Skattakerfið er ótrúlega flókið. Það er allt gegnumétið af undanþágum og frádráttum. Þegar þetta safnast allt saman verður niðurstaðan sú að tekjuskattskerfið er ónýtt. Það er ekki lengur - engan veginn, eins og allir vita - það sem það átti að vera, tekjujöfnunartæki, alls ekki. Það er þvert á móti dæmi um skattatæki sem löggjafinn er búinn að gera ónýtt með því í tímans rás að stagbæta það út frá einhverjum skammtímasjónarmiðum með þeim afleiðingum að það er aðeins hluti þjóðfélagsþegnanna, launþegar í landinu, þeir sem lifa á að selja vinnuafl sitt, sem greiða tekjuskatt og aðrir nánast ekki. Það er orðið að ójafnaðartæki, tekjutilfærslutæki frá hinum efnaminni til hinna efnameiri og sama má segja um söluskattskerfið og sama má segja um húsnæðislánakerfið og sama er að verða uppi á teningnum um lífeyrisréttindakerfið. Og svo kalla menn þetta velferðarríki.

Mér finnst að þetta eigi erindi inn í þessa umræðu vegna þess að þessi tillaga er um skattamál og það á inn í hana erindi vegna þess að út af fyrir sig er það alveg réttmæt ábending að þegar menn eru að gera svona breytingartillögur af ærnu tilefni og af ærinni nauðsyn er auðvitað æskilegt að hugsa um áhrifin í heild. Auðvitað er hægt að ímynda sér að hægt væri að leysa þetta mál með einfaldari hætti í staðinn fyrir að fara alla þessa frádráttarleið með því að hækka skattfrelsismörk frá tekjuskatti, með því að hækka þau verulega, t.d. upp að mörkunum að 50 þús. kr. laun launþega verði tekjuskattslaus, og þá um leið vera með einfaldan raunverulega tekjujafnandi tekjuskatt á hærri tekjur en fella niður alla frádráttarliði sem nöfnum tjáir að nefna. Einbeita síðan mannafla skattakerfisins að eftirliti með stóru fjárhæðunum í söluskattinum þar sem við erum að tala um þúsundir milljóna. En um leið gera auðvitað á því kerfi þá uppstokkun að taka upp einfalt og skilvirkt kerfi þar sem er raunverulega hægt að gera sér raunsæjar vonir um að eftirlitið skili árangri. Jafnframt verður auðvitað, þegar skattundandrátturinn er kominn á svo sjúklegt stig eins og er í þessu þjóðfélagi, að hafa viðurlög við skattundandrætti og skattsvikum svo hrottafengin að menn læri það í eitt skipti fyrir öll að ef um er að ræða fyrirtæki sem stelur undan söluskatti geri það það ekki aftur.

Út frá þessum sjónarmiðum væri hægt að beina þeirri spurningu til flm.: Fremur en að fara hina hefðbundnu leið undanþáganna, hvers vegna beinið þið því ekki til hins háa Alþingis að byrja heldur á róttækari aðgerð um hækkun á skattfrelsismörkum, þ.e. afnámi á tekjuskatti á laun? En hverju mundu flm. svara? Þeir geta ósköp einfaldlega vísað til þess að fyrir liggur viljayfirlýsing Alþingis um þetta, þáltill. sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi, tillögur okkar jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna og áttu að koma til framkvæmda á þremur árum. Niðurstaðan er hins vegar sú að hæstv. ríkisstj., sem er sjálf uppvís að því að kynda hér elda verðbólgunnar sem mun fara ört vaxandi á næstu mánuðum, hefur í uppgjöf sinni gagnvart því verkefni að reka ríkissjóð án halla gripið til þess ráðs að lappa upp á þetta ónýta skattakerfi, hækka óbeina skatta, hækka söluskatta, sem skila sér ekki nema að minnstum hluta til ríkissjóðs, og falla frá og svíkja gefin fyrirheit og samþykktir Alþingis um afnám á tekjuskatti. Hvað eiga hv. flm. þá að gera? Hvaða von er til þess að hér myndist meiri hluti fyrir svo róttækri aðgerð?

Ég held að menn verði að gera það upp við sig. Tilefni þessarar tillögu er brýnt. Verðmætatapið sem af því hlýst að geta ekki mannað frystiiðnaðinn á Íslandi, beinlínis tekjutapið fyrir þjóðarbúið og þar með fyrir getu okkar til launagreiðslna, er þvílíkt að það má ekki líðast. Auðvitað er þetta ekki nema ábending um einn hluta af því. Ef þetta kæmist til framkvæmda gæti það kannske orðið til þess að létta aðeins undir með þessum fyrirtækjum um samkeppnishæfni gagnvart öðrum greinum þjóðarbúskaparins, en auðvitað er það aðeins einn steinn í þá hleðslu.

Það má vel út af fyrir sig, miðað við þetta ástand mála, taka undir með hv. þm. Garðari Sigurðssyni sem flutti hér tilfinningaheita ræðu og segja: Það er of skammt gengið. En um leið verð ég að lýsa því skýrt og klárt yfir, út frá sjónarmiðum skattakerfis og launþega, að auðvitað er þetta aðeins ný bót á þetta slitna fat. Auðvitað getur þetta ekki orðið lausn til frambúðar. Stóra verkefnið fyrir hið háa Alþingi og fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka hér er að taka þetta gjörsamlega vonlausa, hripleka og himinhrópandi rangláta skattakerfi til endurskoðunar í heild sinni.

Það er alveg ljóst að hæstv. ríkisstj., sem búin er að vera hér við völd í rúmlega tvö ár, mun ekkert byrja á því verkefni. Hún mun halda áfram sínar hefðbundnu leiðir að bæta nýjum og nýjum bótum á þetta útslitna fat. Þetta er þess vegna meiri háttar pólitískt verkefni sem bíður þeirrar tíðar að þessi ríkisstj. fari frá og hér myndist annar meiri hluti á Alþingi sem lætur stjórnast af einhverjum grundvallarsjónarmiðum um tekjujöfnun, um jafnræði í eignaskiptingu og ný hlutaskipti í þessu þjóðfélagi, vegna þess að grundvallarstaðreyndin er sú að það sem þessi ríkisstj. hefur unnið sér til óhelgi er að hún hefur lagt allar byrðarnar á þá sem minnst mega sín, en hún hefur hlíft skjólstæðingum sínum, þeim sem eru hinir raunverulegu fjármagnseigendur á Íslandi, við því að axla neitt af þessum byrðum.

Menn standa frammi fyrir þessum pólitísku staðreyndum. Er ekki önnur leið fær en sú að reyna að rétta hlut vinnandi fólks eftir leiðum eins og þessum?