19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

401. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég bar fram ákveðna fsp. til hæstv. fjmrh. hér áðan varðandi ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki sem hann kaus að heyra ekki og svara ekki. Hins vegar hefur hv. 2. þm. Reykv., varaformaður Sjálfstfl., tekið ómakið af þeim félögum í þessu efni og lýst því yfir að varaformaðurinn samþykki frv. í trausti þess að það hafi það í för með sér að lagður verði söluskattur á þjónustu ríkisfyrirtækja, innan sama fyrirtækis. Ég vil segja það að taki hæstv. fjmrh. undir þessi sjónarmið hv. 2. þm. Reykv. þá mun ég fyrir mitt leyti greiða atkvæði á móti þessu frv. vegna þess að þar með er í rauninni verið að kollvarpa forsendum þess.

Málið er kynnt hér í Ed. og Nd. með þeim rökum að hér sé verið að leiðrétta tiltekna hluti vegna úrskurðar sem fallinn er í ríkisskattanefnd vegna ákveðins stórfyrirtækis hér á landi. Hæstv. fjmrh. nefnir það aldrei nokkurn tímann að það eigi að fara að söluskattskylda þjónustu ríkisins við sjálft sig í framhaldi af þessu frv. Síðan heyrist það í fjh.- og viðskn. Nd. að formanni stjórnarnefndar ríkisspítalanna er alveg sérstakt kappsmál að nota þetta til að skattleggja þjónustu ríkisspítalanna við sjálfa sig. Ég fer hér upp og spyr hæstv. fjmrh. Hann svarar ekki þeirri spurningu. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hann geri grein fyrir máli sínu með skýrari hætti en hann gerði hér áðan.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á það, herra forseti, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson minnti á hér áðan. Það er búið fyrir fáeinum dögum að setja hér lög til þess að skýra ákveðna hluti varðandi skattlagningu sem hefur verið framkvæmd með reglugerðum hér um árabil, í lögum um fjáröflun til vegagerðar. Með þessu ákvæði eins og það er núna er verið að opna skattlagningarsvigrúm fyrir fjmrh. sem samkvæmt síðustu ræðu er í rauninni víðara en nokkru sinni hefur verið. Og það er algerlega útilokað og kemur ekki til greina að Alþingi afgreiði mál með þessum hætti með nýjum víðtækum skattlagningarheimildum hér á síðustu sólarhringunum áður en þinginu er slitið. Þá eru menn að koma aftan að Alþingi, m.a. hv. Ed. sem afgreiddi málið á allt öðrum forsendum en þeim sem 2. þm. Reykv. var að rekja hér áðan. Þetta gengur auðvitað ekki.

Hver er svo tilgangurinn sem hv. 2. þm. Reykv. var að rekja hér áðan? Af hverju skyldi hann nú vera að strekkja í þessu máli? Er það til að bæta þjónustu ríkisspítalanna, bæta matinn hjá sjúklingunum, koma við betra eftirliti með gæðum þess matar sem sjúklingar á ríkisspítölunum fá? Nei. Það er smámál. Það er smámál hjá formanni stjórnarnefndarinnar. Aðalatriðið fyrir honum er það að einkaaðilar úti í bæ geti farið að bjóða í þetta vegna þess, segir hann, að þeir séu sérhæfðir í framleiðslu á þessum vörum. Ég segi: Þetta er auðvitað fullkomið rugl vegna þess að þeir eru ekki sérhæfðir í framleiðslu á þeim vörum sem sjúklingar þurfa á að halda. Þeir eru það ekki. Eini aðilinn sem getur framleitt þær vörur með skikkanlegum hætti eru eldhús spítalanna sem hafa þjálfað sig í þessum efnum um langt árabil. Og að vera að reyna að smeygja inn með einhverjum túlkunaræfingum á síðustu stundu möguleikum fyrir einhverja vildarvini íhaldsins til þess að fara að framleiða mat ofan í sjúklinga hér í landinu, á síðustu stundu meðferðar málsins hér á hv. Alþingi, þvert ofan í það sem hefur verið sagt í Ed. um málið, það eru vinnubrögð sem ganga ekkert upp. Og það er alveg ástæðulaust að láta þessi vinnubrögð ganga hér fyrir sig.

Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan, og það er eins gott að hæstv. fjmrh. geri hér grein fyrir sínu máli í framhaldi af ræðu síðasta ræðumanns, ég endurtek það sem ég sagði: Þetta mál rúllar ekkert hér í gegn í einhverjum rólegheitum ef menn ætla að fara að koma við svona æfingum á síðustu dögum þingsins. Það gengur ekkert upp. Menn hafa stytt mál sitt í ýmsum málum hér síðustu daga, menn hafa hleypt í gegn án framsöguræðna stjórnarfrv. hér í Nd., aftur og aftur, til þess að greiða fyrir þinghaldinu. Við höfum lagt áherslu á það og samið um að reyna að ljúka þingi á miðvikudaginn kemur. Svo eru menn með einhverjar æfingar til þess að þjóna tilteknum ofstækishópi í hægri kanti Sjálfstfl. núna á þessum úrslitadögum þingsins! Ég blæs á svona vinnubrögð, herra forseti, þau ganga ekki hér á hv. Alþingi.