19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3914)

320. mál, fasteigna- og skipasala

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. um ákvæði í 6. gr. frv. vildi ég gjarnan greina frá því að í núgildandi lögum um fasteignasölu, nr. 47/1938, er svohljóðandi ákvæði að finna í 6. gr. þeirra laga, sem er nákvæmlega sambærilegt því ákvæði sem er hér í frv. Ég vitna hér í núgildandi lög nr. 47/1938, 6. gr. Orðrétt segir þar: „Enn fremur getur fasteignasali áskilið sér aukalega greiðslu fyrir útlagðan auglýsingakostnað enda hafi eignin verið auglýst eftir sérstakri beiðni eiganda.“ Hér er sem sagt ekki um neinar breytingar að ræða frá núgildandi lögum að því er auglýsingakostnaðinn varðaði og sérstakar greiðslur fyrir hann. En hv. þm. gerði þetta atriði sérstaklega að umtalsefni.

Varðandi hitt atriðið segir í 14. gr. orðrétt: „Honum er heimilt að áskilja sér þóknun fyrir tímabundna vinnu við tilraun til að selja fasteign eða skip.“ Má segja að nokkuð hliðstætt ákvæði sé í núgildandi lögum, þar sem segir í 6. gr. einnig, orðrétt: „Fasteignasala er þó heimilt að áskilja sér minnst 150 kr. fyrir aðstoð við sölu fasteignar.“ En hér er um viðbótarákvæði að ræða við ákvæðið um 2% söluþóknun af kaupverði eignar.

Ég vildi aðeins vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. láta þessi atriði koma hér fram.