21.04.1986
Efri deild: 83. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4255 í B-deild Alþingistíðinda. (3965)

332. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Ég hef skilað minnihlutaáliti í þessu máli og vil minna á það í upphafi og taka það fram að ég hef síður en svo hugsað mér að halda uppi málþófi og hef aldrei hugsað mér að halda uppi neinu málþófi hér um þetta mál. Hins vegar hlýt ég að benda virðulegum forseta á það að ég þarf eðlilegan tíma til framsögu í þessu máli. Ég þarf að vitna til þess aðila, sem hér á til um að segja og þarf að leita til af Alþingis hálfu, þ.e. áfengisvarnaráðs. Ég þarf einnig að vitna til nýlegra greina sem hafa birst í blöðum og þarf og á að vekja athygli á hér á Alþingi þannig að ég bendi virðulegum forseta á það að mér dugir ekki sá tími til kl. 4, sem er reiknað með til þessarar framsögu, en hins vegar skal ég hefja hana með mikilli ánægju. (Forseti: Ef ég má aðeins trufla hv. ræðumann, þá tók ég það fram hér í upphafi að ég mundi fresta umræðum þegar ég vissi að ég gæti sett nýjan fund. Ég vænti þess að hv. þm. sé þá tilbúinn að fresta ræðu sinni svo að það megi gerast.) Já, virðulegi forseti. Ég heyrði þetta og vildi aðeins vekja athygli á þessu í upphafi, en mun að sjálfsögðu gera hlé á máli mínu þegar virðulegum forseta þóknast að setja nýjan fund og taka þetta mál þar með út af dagskrá þessa fundar.

Ég minni í upphafi á afgreiðslu minni hlutans í fyrra, en í minni hlutanum þá áttum við hv. 9. þm. Reykv. Haraldur Ólafsson sæti. Hann hafði hér framsögu fyrir nál. af okkar hálfu í þessu máli. Við fórum þar nokkurs konar millileið ef Alþingi mætti bera gæfu til að víkja þessu máli í þann farveg sem þá var - og er reyndar enn máske eðlilegastur, þ.e. að vísa því til þeirrar stjórnskipuðu nefndar um áfengismál og stefnumótun í áfengismálum almennt, sem sett var á laggirnar að tillögu Alþýðuflokksmanna hér á sínum tíma og samþykkt var einróma af öllum hv. þm. þá. Við lögðum sem sagt til að málinu yrði vísað til ríkisstj. með tilliti til þessarar stjórnskipuðu nefndar sem fengi þá þetta mál ásamt öðrum til umfjöllunar.

Nú bendi ég á það að til viðbótar þessu hafa þær hugmyndir komið fram í ríkisstj., sem virðast vera að verða að virkileika, að þar verði sett á laggirnar sérstök nefnd manna til þess að fjalla um vímuefnavána í heild sinni og aðgerðir til þess að fyrirbyggja hana sem best og mest. Því væri kannske tvöföld ástæða til þess að hafa þann hátt á nú að vísa þessu máli til þessarar stjórnskipuðu nefndar eða til ríkisstj., stjórnskipuðu nefndarinnar annars vegar og þeirrar ráðherranefndar sem á að setja á laggirnar hins vegar.

Ég hef á þessu máli ákveðna skoðun en hún kemur kannske ekki þessu máli beint við þó að það sé mín einkaskoðun sem ég hef býsna drjúg rök fyrir. Ég hef miklu meiri áhuga fyrir því að koma á framfæri skoðunum annarra á þessu máli, sem hafa á því þekkingu, vita hvað þeir eru að tala um í þessum efnum og byggja fyrst og fremst á niðurstöðum þeirrar þekkingar og þeirrar vitneskju sem þeir vita sannasta og réttasta. Það er býsna mikið talað um tvískinnung í áfengismálum okkar í dag og síðast í máli hv. frsm. meiri hl. kom þetta fram. Ég vil þá taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning að sú áfengislöggjöf sem ríkir í dag er ekki sú sem ég kysi að væri á landi hér. Það þýðir því ekki að sakast um það við mig að Alþingi hefur kosið að setja áfengislöggjöf með þessum hætti og undanþágum sem veldur vissum tvískinnungi og ég neita ekki að margir eru haldnir í þessum efnum. Hér er nefnilega ekki um það að ræða, eins og mér sýnist af mörgum þeim sem halda uppi þeim málatilbúnaði, að okkur sé nauðsyn á því að hér verði áfengur bjór. Hér er sem sé ekki um það að ræða að við eigum að velja á milli, að við eigum að hafna öðru í staðinn. Ég hef aldrei heyrt þá röksemd hjá neinum þeirra sem flutt hafa þetta mál hér inn í þingsali að með því að leyfa bruggun og sölu áfengs öls þá ættum við að taka fyrir sölu á sterkari drykkjum. Þetta hefur aðeins verið túlkað á þann veg að við yrðum að bæta þessu hreinlega við.

Nál. mitt, sem kemur fram á þskj. 883, er þess eðlis að ég tel kannske rétt að vitna í það síðar í mínu máli því af nógu er að taka þegar maður fer að leita fanga um það að mæla gegn frv. af þessu tagi. Varðandi þessi mál öll hefur verið vitnað nokkrum sinnum í þann virta mann dr. Tómas Helgason. Eflaust eru menn ósammála skoðunum hans, eflaust eru menn ósammála fullyrðingum hans eða ekki sammála þeim. Hitt dregur enginn í efa, vona ég, að þar er byggt á þekkingu, þar er byggt á rannsóknum, þar er byggt á víðtækum athugunum á vandamálinu í heild sinni, athugunum sem teknar hafa verið góðar og gildar og sem mjög þýðingarmiklar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni m.a., svo og öðrum þeim aðilum sem fjalla um þessi mál af meiri alvöru en Alþingi Íslendinga hefur gert hingað til í þessum efnum og ekki af því gáleysi sem margir hafa gert hér í sölum Alþingis.

Í grein í Morgunblaðinu nú á dögunum segir dr. Tómas Helgason eftir að hann er búinn að ræða um frv., sem hér var til meðferðar fyrir stuttu um verslun ríkisins með áfengi, þ.e. að framleiða áfengi hér á landi til þess að selja það út úr landinu, og vara mjög við þeim hagsmunum sem þar kæmu inn í:

„Þó tæki fyrst steininn úr ef Alþingi samþykkti bjórfrv. sem meiri hl. allshn. Ed. hefur lagt blessun sína yfir. Samþykkt þessa frv. er fáránleg tímaskekkja nú þegar lögð er öll áhersla á heilsuvernd og að draga úr útgjöldum til heilbrigðismála. Þegar í dag eru miklir einkahagsmunir í húfi í sambandi við bjórsölu og framleiðslu. Þeir munu ekki minnka ef almennt verður leyfð sala áfengs öls í landinu og getur þá hver sem er séð í hendi sér líkurnar á að aftur verði horfið frá því óráði. Það er varla af þekkingarleysi sem alþm. og jafnvel fjmrh. flytja frv. sem sannanlega munu auka áfengisvanda þjóðarinnar. Sjálfur forsrh. hefur látið Þjóðhagsstofnun reikna út hver verði aukning áfengisneyslu ef framleiðsla og sala áfengs öls verður leyfð í landinu. Þeir útreikningar sýna að neyslan mundi aukast um þriðjung. Slíkt hefur í för með sér enn meiri skaða. Ofneytendum mun fjölga, alkóhólistarnir verða veikari. Öðrum sjúkdómum og slysum, sem af áfengisneyslu hljótast, fjölgar og dánartalan hækkar þar með. En ekki virðist fylgja mikill hugur máli þegar jafnframt er stuðlað að aukinni neyslu. Vonandi eru enn nógu margir alþm. sem skilja hvað hættuleg aukin áfengisneysla er heilsu og félagslegri velferð þjóðarinnar svo að dugi til að fella bæði bjórfrv. og frv. um að leyfa einkaaðilum framleiðslu á áfengi í landinu.“

Hér hef ég vitnað til þess manns, sem virtur er í þessum fræðum öllum á hinum æðstu stöðum, eins og t.d. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni alveg sérstaklega, dr. med. Tómasar Helgasonar, og ég hygg að erfitt sé að hrekja þau rök sem hann hefur margoft látið fram koma í andstöðu sinni við þetta mál.

Það hefur oft verið vitnað til þess að við ættum að hlusta á ýmsa þá sem hart hafa orðið úti af áfengisbölinu í heild sinni og þá sem hafa fengist við það vandamál sérstaklega. Og þá kem ég að því að ég tel nauðsynlegt og gott að koma hér inn í þingtíðindi ákveðnum atriðum úr merkri grein úr síðasta SÁÁ-blaði sem er skrifuð af Óttari Guðmundssyni, yfirlækni við sjúkrastöðina á Vogi. Ég hlýt að vitna nokkuð til þessarar greinar hér þó ég skuli ekki lengja mál mitt mjög með því. Dr. Óttar segir orðrétt í þessari grein, m.a. varðandi þetta sérstaklega, með leyfi virðulegs forseta:

„Það sem gerir áfengisvandamálið svo flókið sem raun ber vitni er að áfengisneysla er hluti þess menningarþjóðfélags sem við höfum skapað og eina löglega vímuefnið sem neytt er. Áfengi er notað við mörg félagsleg tækifæri af öllum þorra manna og stórir hópar geta notað það án sérstakra skakkafalla. Alkóhólistar byrja að drekka á sama hátt og hinir sem aldrei lenda í neinum vandræðum, á sama aldri og af sömu ástæðum. Einhvers staðar fer síðan að halla undan fæti hjá alkóhólistunum og þeir taka að missa tökin á drykkjunni og hætta að geta ráðið við hana á þann hátt sem þeir sjálfir helst vildu. Áfengi fer að skapa þessum einstaklingum og vandamönnum þeirra veruleg vandræði og þjóðfélaginu ómetanlegt tjón. Alkóhólistar verða með tímanum þurftarfrekir í samfélaginu. Þeir veikjast meira en aðrir af ýmsum kvillum, lenda ölvaðir í slysum, slasa aðra og mæta oft illa til vinnu.

Á sama tíma er áfengisvíman, sem er að fara með þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra í hundana, vafin miklum dýrðarljóma. Menn krefjast þess í blöðum að áfengi verði sem víðast haft um hönd, tegundum fjölgi, fleiri barir opnaðir og sem frjálslyndust stefna tekin upp í sambandi við áfengismál. Umræða um bjór tröllríður dagblöðum svo mánuðum skiptir og í mörgum greinum eru það talin eðlileg mannréttindi að geta drukkið áfengan bjór við öll hugsanleg tækifæri. Þessi afstaða“ - og taki menn nú eftir því sem þessi yfirlæknir á sjúkrastöðinni segir um þetta atriði - „Þessi afstaða gerir alkóhólistanum erfitt um vik.

Vímugjafinn sem er að leggja líf hans í rúst er hafinn til skýjanna í fjölmiðlum og nánustu vinir og félagar telja reglubundna áfengisneyslu eðlilega og sjálfsagða. Þetta getur valdið mikilli firringu þess sem ekki ræður við það að drekka áfengi.“ (Forseti: Nú vildi ég biðja hv. 2. þm. Austurl. að gera hlé á ræðu sinni, því að nú verður þessum umræðum frestað þar til á næsta fundi væntanlega.)

Umr. frestað.