21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4279 í B-deild Alþingistíðinda. (4014)

368. mál, selveiðar við Ísland

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að harma það að svona hefur tekist til með þessi nefndarstörf. Þar sem hv. 4. þm. Vesturl. hefur fylgst mjög vel með þessu máli og af áhuga hvarflaði ekki að mér annað en að hann væri ekki mættur á fund með fullri vitund formannsins fyrst málið var afgreitt. Þannig að ég skrifaði undir nál. Reyndar fór ég fram á fyrirvara en það er ekkert skrýtið að slíkir smáhlutir detti niður í þessum látum. Ég ætla ekki að kenna formanninum um það, hann hefur víst nægilega margt á sinni könnu þessa dagana og er þrýst á hann úr ýmsum áttum.

Ég held að það verði að verða við þessari ósk. Mér finnst eðlilegt að hv. 4. þm. Vesturl. fái tíma til þess að skila nál. Mér finnst þetta líka leitt þar sem ég er sannfærð um að hann hefði verið okkur mjög sammála. Mér fannst það a.m.k. á okkar umfjöllun um þetta mál að við ættum þar mjög mikla samleið. Ég held að það sé búið að koma þessum málum í strand vegna mistaka og fljótfærni sem er ekkert óeðlilegt þegar mál stöðvast helst ekki í nefndinni fleiri en einn eða tvo daga. Þegar þetta skeður ár eftir ár ættu hv. þm. að fara að hugsa sinn gang og hæstv. ráðherrar að ýta þá fyrr á eftir málum. Í ljósi þess að þingsköpum var breytt á s.l. ári sérstaklega með það í huga að bæta starfshætti hér á þinginu er þetta mjög leitt að það skyldi ekki ganga fram. Við erum að upplifa það nú að það er ákveðið með þó nokkuð löngum fyrirvara að þinginu skuli vera lokið kl. 5 á miðvikudag. En til þess að svo geti orðið og málin komist í gegn nægði ekki þó við stæðum hér dag og nótt, a.m.k. ekki ef þau ættu að fá einhverja eðlilega umfjöllun og eðlileg vinnubrögð.