22.04.1986
Neðri deild: 94. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4354 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 764 flyt ég frv. til l. um afhendingu Viðeyjar í Kollafirði. Tilefni frv. þessa er 200 ára afmælishátíð Reykjavíkurborgar á þessu ári, en hinn 18. ágúst n.k. verða liðnar tvær aldir frá því að Reykjavíkurborg fékk kaupstaðarréttindi.

Segja má að Viðey sé föðurleifð Reykjavíkurborgar, en þar dvaldi Skúli Magnússon landfógeti lengst af. Skúli valdi Innréttingum sínum stað í Hólminum, eins og Reykjavík kallaðist þá, um miðbik 18. aldar, en með þeim varð fyrsti vísir að kauptúnsmyndun í Reykjavík. Þykir vel við hæfi á svo merkum tímamótum að ríkið afhendi Reykjavíkurborg eignarhluta sinn í Viðey að gjöf, enda eru uppi hugmyndir um það í borgarstjórn að gera eyna að fólkvangi og útivistarsvæði borgarbúa. Á eynni eru merkar minjar, m.a. Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja, sem eru á fornleifaskrá.

Afhendingin er bundin því skilyrði að Reykjavíkurborg taki að sér og kosti verndun þeirra minja sem á eynni eru og afhentar eru. Skal sú verndun á ákveðnum tíma vera í samræmi við fyrirmæli þjóðminjalaga eftir því sem við á og fara fram í fullu samráði við þjóðminjavörð.

Reykjavíkurborg er óheimilt að selja þennan eignarhluta eða láta hann af hendi nema til ríkisins. Hætti Reykjavíkurborg að annast eignarhlutann á þann hátt sem fyrir er mælt í frv. þessu fellur hann undir ríkið að nýju endurgjaldslaust.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og menntmn.