22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4371 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

235. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Á þskj. 463 er till. til þál. um gerð áætlunar um skipulag í loðdýrarækt. Atvmn. hefur rætt málið á fundum sínum og fengið umsagnir um málið og er sammála um afgreiðslu þess. Í nál. á þskj. 887 segir svo:

„Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Rannsóknastofnun landbúnaðarins, landbrn. og Búnaðarfélagi Íslands. Í umsögn landbrn. segir m.a.:

„Ráðuneytið tekur undir með hv. flm. að þörf sé á áætlun um uppbyggingu loðdýraræktar hér á landi. Ráðuneytið hefur áður gert áætlanir um uppbygginguna en síðla á árinu 1985 kom í ljós að hún mundi verða enn örari en gert var ráð fyrir. Þess vegna skrifaði ráðuneytið Byggðastofnun bréf, dags. 29. okt. 1985, þar sem þess er óskað að Byggðastofnun annist endurskoðun áætlana miðað við breyttar forsendur.

Með bréfi, dags. 18. nóv. 1985, svarar Byggðastofnun og ákveður að taka verkið að sér. Til ráðuneytis hafa verið kallaðir fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, Sambandi ísl. loðdýraræktenda, Samtökum fóðurstöðva, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og landbrn. Auk þess hefur verið leitað til annarra aðila eftir því sem þurft hefur.

Miðað við framanskráð lítur ráðuneytið svo á að gerð áætlunar um skipulag loðdýraræktar sé þegar langt komin.“

Atvmn. er þeirrar skoðunar að mikil þörf sé á áætlun um skipulag loðdýraræktar og að sú áætlun komist í framkvæmd sem fyrst. Með tilvísun til þess sem fram kemur í umsögn landbrn. um slíka áætlun leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstj.

Allir nefndarmenn í atvmn. eru sammála um þessa afgreiðslu málsins og skrifa undir nál. Þeir eru Birgir Ísl. Gunnarsson, Garðar Sigurðsson, Björn Dagbjartsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Eggert Haukdal, Kristín Halldórsdóttir og Þórarinn Sigurjónsson.

Umr. (atkvgr.) frestað.