22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það hefur spunnist nokkuð langt mál um þessa skýrslu þó að hún sé reyndar ekki mikið meira en þriggja tíma gömul hér á borðum þm. Þó höfðu menn kannske eitthvert hugboð um það hvað í henni mundi standa. En ég vil bara benda á þá staðreynd að við erum ekki að tala um annað en þær reglugerðarbreytingar sem við horfum upp á. Því að þessi skýrsla er náttúrlega langt frá því að vera frv., ekki einu sinni drög að frv., eins og við heyrðum á máli hv. 2. þm. Norðurl. v., þingflokksformanns framsóknarmanna eða Samvinnuflokksins eins og menntmrh. vill heldur kalla hann. Hann taldi af og frá að þetta gæti verið grundvöllur að frv. sem þeir framsóknarmenn stæðu að í þessari ríkisstjórn. Og ég skildi hann svo að þeir stæðu væntanlega ekki heldur að slíku frv. í annarri ríkisstjórn.

Ég tel líka mjög ótímabært að menn ræði þessa hluti hér eins og um frumvarpsdrög væri að ræða. En ég tel alls ekki ótímabært að ræða þær hugmyndir sem hér eru settar fram því að það er þó nokkuð síðan menn hafa talað um grundvallaratriði í þessu máli. Það er nokkuð langt síðan menn hafa tekist á um það hér hugmyndafræðilega um námslán eða námsstyrki hvort lán eru fjármögnunaraðferð sem samfélagið tekur á sig vegna hagsmuna heildarinnar eða vegna hagsmuna einstaklinga, hvort menn líta á þetta sem fjárfestingu heildarinnar í sinni eigin framtíð eða sem ölmusu til einstaklinga. Og á þeim grundvelli, þ.e. út frá mestu andstæðum, verður að ræða málið en ekki með þeim hætti sem við höfum upplifað núna, í einhvers konar augnablikstaugaveiklun að gera hluti eins og reglugerðarbreytinguna, sem gerð var núna í vetur, sem tvímælalaust verður ekki túlkuð á annan veg en sem samningsrof á þeim aðilum sem þarna um ræðir. Því að menn hafa náttúrlega tekið ákvarðanir um sitt nám á grundvelli þeirra reglna sem þeir höfðu í höndunum. Það er alls ekki hægt að réttlæta svona aðgerð öðruvísi en að um sé að ræða meiri stefnubreytingu af hálfu löggjafans en komið hefur fram. Reyndar hefur alls engrar stefnubreytingar orðið vart af hálfu löggjafans, heldur eingöngu af hálfu framkvæmdarvaldsins og það í einhvers konar andartakstaugaveiklun sem aðallega snerist um þjónustu stofnunarinnar. Það má segja að allt þetta mál sé sprottið upp af því að um eitt mál voru menn sammála, þó að andstæðingar væru að öðru leyti, það að þjónusta stofnunarinnar var ekki nógu góð við lántakendur. Og þar með voru menn líka að viðurkenna nauðsyn þessarar stofnunar fyrir lántakendur.

Ég ætla mér ekki, herra forseti, að eyða löngum tíma í að ræða efni og innihald þessarar skýrslu. Eins og ég sagði er hún ekki nema þriggja og hálfs tíma gömul hér á okkar borðum. Ég vil benda á nokkrar staðreyndir sem hér hafa verið ræddar. Ég vil benda á það að fram kemur í þessari skýrslu að hingað til hafa þó ekki nema 14,8% af útlánum sjóðsins orðið að styrkjum. Og ég tel þá staðreynd í hróplegri mótsögn við þá túlkun sem fram hefur komið í máli ráðamanna á því hvernig misfarið sé með þennan sjóð.

Í máli hæstv. ráðh. komu nokkuð fram áhyggjur hans yfir því að menn sæktu í þetta fé. Ég tel að þessari umræðu þyrfti þess vegna einmitt að ætla meiri tíma, því að þegar menn segja slíka hluti þá er alveg greinilegt að þeir líta fram hjá þeirri staðreynd hvers vegna kjörin voru höfð eins góð og þau eru. Þau voru höfð góð til þess að sem flestir gætu stundað nám. Og ef menn eru að draga úr því að laða menn að námi, þá eru menn líka um leið að boða þá pólitík að það eigi hreint og beint að minnka ásókn manna í nám, það séu ekki hagsmunir þjóðarinnar að allir læri, heldur einhverjir útvaldir.

Það er annað atriði sem ég tel að bendi til skammsýn eða þröngsýni eða einfaldlega hugsunarleysis í þessum hugmyndum. Það er það sem kemur fram í fyrsta lið þessarar skýrslu: „Lagt er til að það sé skýrt afmarkað í lögum um lánasjóðinn hverjir teljist vera í aðstoðarhæfu námi.“ Alþingi er m.ö.o. ætlað að setja fram í lögum lista yfir þær stofnanir eða þær námsgreinar sem lánshæfar eru. Þeir sem þekkja til starfa Alþingis ættu að átta sig mjög fljótlega á því að Alþingi er ekki hæfasta stofnunin til að taka ákvarðanir um slíka hluti, eins breytilegir og þeir eru í nútíma samfélagi frá ári til árs. Og að gera því skóna að menn geti gengið frá slíku í lögum finnst mér benda til þess að menn hafi tínt flestallt til sem einhvers staðar hafði komið fram sem gagnrýni og tekið það upp í þessa skýrslu bara til að fylla síður hennar. Annað stingur reyndar ekki í stúf við stefnu núverandi stjórnvalda. Það er sú fáránlega hugmynd að setja fulltrúa úr Alþýðusambandi Íslands í stjórn lánasjóðsins. Ég held að menn sjái kannske best fáránleika þeirra hluta ef námsmenn gerðu þá kröfu að fá að sitja í stjórn Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands með gagnkvæmum réttindum.

Umr. frestað.