22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (4227)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar umræður en mér þykir nauðsynlegt, í ljósi þeirra umræðna sem hafa orðið, að upplýsa nokkur atriði í þessu máli þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem hefur fjallað um það.

Það hefur mikið blandast inn í þessa umræðu að það sé andstætt byggingarnefndinni að þessi till. verði samþykkt. Þetta er eitt af fyrstu málum þingsins og var sent til umsagnar m.a. byggingarnefndinni, að ég hygg í októbermánuði. Byggingarnefndin sá ekki ástæðu til þess að senda félmn. neina umsögn um málið. Það er náttúrlega harla einkennilegt, ef það er rétt sem haldið er fram að það sé í andstöðu við byggingarnefndina að slík till. sé samþykkt, að hún hafi þá ekki séð ástæðu fyrr til þess að skýra mál sitt. Það er ekki fyrr en kemur að því að fara á að afgreiða þessa till. úr nefnd fyrir stuttu að formaður félmn. upplýsir að hann hafi hitt Hermann Þorsteinsson, formann byggingarnefndar, þar sem hann hafi lýst fyrir honum að hann hefði athugasemdir í því máli. Því var kallað í formann byggingarnefndarinnar, Hermann Þorsteinsson, og tvo presta kirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson og Ragnar Fjalar Lárusson. Prestarnir lýstu báðir stuðningi við þessa till. og lögðu eindregið til að hún væri samþykkt en fram komu efasemdir hjá formanni byggingarnefndar.

Ég hygg að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta sé eingöngu sjónarmið formanns byggingarnefndar, að hann hafi efasemdir um þessa till., en allir aðrir aðilar, og það legg ég áherslu á, fimm eða sex umsagnaraðilar um þetta mál, hafa lýst eindregnum stuðningi við það ásamt prestum kirkjunnar sem komu á fund nefndarinnar. Ég vil einnig upplýsa það að Hermann Þorsteinsson afhenti nefndinni nokkur minnisatriði varðandi Hallgrímskirkju og á því blaði kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta: „Listskreyting kirkjunnar að innan og utan svo og frágangur landsins umhverfis kirkjuna er mikið mál framtíðarinnar sem vissulega er tímabært að hugsa fyrir.“ Og það er einmitt það sem verið er að gera með þessari till., það er verið að gera áætlun um listskreytingu kirkjunnar, sem er þá óháð byggingarframkvæmdunum.

Ég held að það hljóti að vera málinu til framdráttar að þeir aðilar komi að þessu máli og geri þá áætlun sem gert er ráð fyrir í till., þ.e. að kirkjumrh. skipi einn mann, menntmrh., biskup Íslands, húsameistari ríkisins, byggingarnefnd Hallgrímskirkju, Félag ísl. myndlistarmanna og kirkjulistarnefnd. Ég held að málinu sé vel borgið í höndum slíkrar nefndar. Og húsameistari ríkisins, sem einmitt er lagt til að eigi sæti í þessari nefnd, hefur mælt með samþykkt þessarar till. Þannig að mér finnst mjög einkennilegt að núna eigi að fara að upphefja langt mál um það og mér finnst mikill misskilningur kominn fram í þessu máli þar sem verið er að reyna að halda því fram að þetta sé gert í andstöðu byggingarnefndarinnar. Því taldi ég ástæðu til að koma þessum upplýsingum inn í þessa umræðu.