22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (4229)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir harmaði það, við skulum segja þann möguleika, að kviksögur, sem er þá málflutningur hv. 3. þm. Suðurll., skuli verða til þess, eins og hún orðaði það, að stöðva þetta mál. Ég tek undir það, ég harma það ef svo er. En ég ætla engum þm. að bera kviksögur inn í Alþingi og byggja málflutning sinn á kviksögum. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort ráðherrar eða þm. almennt . . . (GHelg: Ég hefði kannske átt að segja ósannindi, herra ráðherra.) Ég skrifaði það orðrétt niður. (GHelg: Já, en ég hefði átt að segja ósannindi.) Mér er alveg sama hvað þm. hefði átt að segja. Það er svo margt sem hún hefur sagt sem hún hefði betur orðað öðruvísi og jafnvel ekki sagt. Hún hefði kannske átt að orða þetta einhvern veginn öðruvísi núna, en þetta er það sem hún sagði.

Ég tel að þetta sé út af fyrir sig alvarlegt mál ef þm. almennt, ég tala nú ekki um ráðherrar, þurfa að byggja, eins og hún orðaði það, málflutning sinn og jafnvel stöðva mál vegna þess að upp koma kviksögur sem eru það trúanlegar að þm. almennt treysta sér til að byggja málflutning sinn á þeim. Það er ekki mitt að verja hvort ég fer þar eftir kviksögum eða ekki. Hitt er annað mál að ég trúi henni vel og trúi öllum sem segja að aðstandendur kirkjunnar, þegar talað er við þá, sýni áhuga fyrir því að fá stuðning hvaðan sem er, svo ég tali nú ekki um frá Alþingi sjálfu. Það var sannarlega kominn tími til þess. Og ég sem borgarfulltrúi og sem forseti borgarstjórnar lagði mikla áherslu á stóraukið framlag til Hallgrímskirkju en þrátt fyrir það að framlagið hafi verið stóraukið þá er það enn þá mjög lítið frá Reykjavíkurborg. Hitt er annað mál að í minni fjármálaráðherratíð var það stóraukið samkvæmt tillögu fjmrh. og það var aukið enn þá meira og fyrir það hef ég hlotið dóm Alþingis. Það var aukið enn þá meira með aukafjárveitingum, svo það þarf enginn, hvorki hér inni og síst af öllu þar að efast um minn vilja og hug til framkvæmdanna, enda hef ég persónulega stutt þá áður á byrjunarstigi og geri áfram.

Þannig að auðvitað þakka ég sem áhugamaður, sem Reykvíkingur borinn og barnfæddur hér, fyrir þann stuðning sem þetta mikla mannvirki og guðshús fær, hvaðan sem hann kemur. En ég reikna ekki með, þrátt fyrir það þakklæti sem kann að koma frá þeim sem standa að Hallgrímskirkju og byggingu hennar, þó að þeir þakki að sjálfsögðu fyrir stuðninginn, að þeir ætlist til þess að með því sé verið að taka af þeim verkið sjálft, að vinna verkið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir eru löngu búnir að gera sér í hugarlund hvernig kirkjan skuli líta út að innan. Og komi ný nefnd til þess að endurskoða það sem þegar hefur verið hugsað, þá er ekkert víst að þeir samþykki slíkar breytingar. Og þá er komin upp deila og þá er komin upp óánægja.

Ég er alveg viss um það að allir aðstandendur þessa guðshúss þakka fyrir stuðning en ég efast um að þeir vilji að þeir, sem koma til með að sýna kirkjunni velvilja á þessu lokabyggingarstigi hennar, taki yfir verkið eða það sem eftir er af því.

Hitt er annað mál að hv. 9. landsk. þm., sem ekki er í salnum á þessari stundu, (Gripið fram í: Hann er hérna.) já, hann talar hér til þm. Reykv. sem er búinn að sýna áhuga fyrir þessari byggingu og þessu guðshúsi frá byrjun. (ÓGE: Ég var að tala til ráðherra.) Hann var ekki að tala til ráðherra. Hér tala ég sem þm. og ég hlusta ekki á hv. þm. sem formann þingflokks Sjálfstfl. né öðruvísi valdamann hér í þessum sal heldur en hvern og einn annan. hér tölum við sem þingmenn með þeim stuðningi sem við höfum til þess að vera hér. Ég tala ekki um þetta mál sem ráðherra og kæri mig ekkert um að vera ávarpaður í þessu máli sem slíkur, með þeim tón eins og hv. þm. orðaði orðrétt: Lætur sér í léttu rúmi liggja skoðun og afstöðu ráðherranna. Ég læt mér aldrei í léttu rúmi liggja skoðun þm. hvorki einstaklinga eða heildarinnar. En þegar í stærilæti er vitnað á þennan hátt, sem hann gerði, í samþykkt, ekki vegna þess að borin sé umhyggja fyrir málinu heldur borin umhyggja fyrir því einu að hér tefjum við í nokkrar mínútur af eilífðinni sem kirkjubyggingin tekur. Þetta er það sem ég ekki sætti mig við. Ég læt ekki tala á þann hátt og með slíku stærilæti frá einum eða neinum, hvorki um þau mál sem mér eru kær né heldur til mín persónulega.

Sem sagt, ég verð að harma það og á bágt með að trúa því að það sé rétt orðað af hv. 10. landsk. þm. þegar hún segir að sú skoðun, sem nú kemur upp á síðustu mínútum afgreiðslu þessa frv., sé byggð á kviksögum. Hún er byggð á málflutningi eins af félögum mínum sem tilheyrir sama stjórnmálaflokki og ég og ég hef aldrei staðið hann að því að fara með kviksögur.