22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (4238)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessa skýrslu sem hann hefur lagt fram með svörum við fsp. frá þingflokki Alþb. vildi ég bæta örfáum orðum við það sem fram kom frá hv. þm. Skúla Alexanderssyni sem var sá sem fyrstur bað um þessa skýrslu og hefur fjallað um efni hennar að verulegu leyti. Ég ætla að dvelja aðeins við það sem varðar endurnýjun skipastólsins og með hvaða hætti unnið er að slíkri endurnýjun.

Ég er alveg sammála þeirri meginskoðun, sem kemur fram á bls. 2 í þessari skýrslu, að æskilegt er að endurnýjun skipastólsins gerist hægt og sígandi, sem jafnast, en ekki í stórum stökkum eins og hefur því miður orðið reyndin á liðnum tíma, litið til síðustu áratuga. Ástæðurnar fyrir þeim sveiflum hafa verið pólitískar. Vantrú á sjávarútvegi okkar hefur legið þar að baki og mismunandi skoðanir á því hvernig að þessum málum skuli staðið.

Undanfarin ár hefur verið að mestu leyti stöðvun á viðbótum við fiskiskipaflotann og þetta hefur sumpart leitt til þess að verkefni í nýsmíðum, t.d. hér innanlands, hafa verið með minnsta móti en nokkuð hins vegar um breytingar. Ég tel æskilegt að það verkefni sem ætti að liggja fyrir jafnt og þétt, að endurnýja flotann, sé unnið sem mest hér innanlands. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé ekki eðlilegt að ætla sjávarútveginum sem atvinnugrein og þeim rekstri sem þar til heyrir að standa undir kostnaðarauka, og kannske verulegum kostnaðarauka, vegna þess að dýrara sé að byggja skip hér en erlendis eða afla skipa með slíkum hætti. En möguleikarnir á því að gera innlendan skipasmíðaiðnað samkeppnisfæran ættu að vera til staðar ef rétt er á málum haldið.

Innlendur skipasmíðaiðnaður hefur hins vegar á liðinni tíð ekki fengið að reyna sig sem skyldi. Ástæðurnar fyrir því eru m.a. þessi sveiflukennda endurnýjun og síðan mikill verkefnaskortur á milli þannig að ekki hefur náðst þar upp sú framleiðni og þjálfun vinnuafls sem æskileg væri. Þó vantar ekki mikið á að innlendar stöðvar, þær sem fremstar eru í landinu, séu fyllilega samkeppnisfærar og þær hafa reyndar reynst það í samkeppni varðandi útboð á nýsmíði. Ég er alveg viss um það að ef menn legðu áherslu á að stilla þarna saman þá hagsmuni sem felast í því að missa ekki þessi verkefni úr landi, við endurnýjun, nýsmíði og viðhald okkar skipastóls, er hægt að koma þannig fótum undir málm- og skipasmíðaiðnaðinn að hann sé fyllilega samkeppnisfær. Við sjáum dæmi um þetta varðandi Slippstöðina á Akureyri, sem hefur verið ein öflugasta skipasmíðastöð í landinu, að hún hefur fengið nú ekki alls fyrir löngu stór verkefni erlendis frá sem hún hefur náð í vegna þeirrar færni sem þar er og einnig vegna þess að tilboðin eru samkeppnisfær.

Það er ákveðið lánleysi í atvinnustefnu í landinu sem endurspeglast í því að við höfum misst þessi verkefni úr landi á liðinni tíð og á þessu þarf að verða breyting. Það gerist hins vegar ekki nema hægt sé af stjórnvalda hálfu að stilla þessa hagsmuni saman, iðnaðarhagsmunina og eðlilega kröfu sjávarútvegsins um samkeppnisfæra þjónustu og samkeppnisfær skip. Á því hefur verið mikill misbrestur á liðinni tíð og af því eigum við að læra. Það eru ófá atvinnutækifæri, sem svo eru kölluð, sem við höfum komið upp erlendis, t.d. í nágrannalandi okkar, Noregi, með viðskiptum við Norðmenn og skipakaupum þaðan á liðinni tíð, verkefni sem íslenskar hendur hefðu verið fullfærar um að vinna ef rétt hefði verið að málum staðið.

Við lesum um það í blöðum þessa dagana að meðal þeirra sem vinna í málm- og skipasmíðaiðnaði í landinu er uggur um verkefnaskort á næstunni og það er mjög eðlilegt í rauninni eins og málum er háttað. Það er ástæðulaust að þannig sé að málum staðið og ég vil því hvetja núv. hæstv. sjútvrh. og aðra ráðherra í ríkisstj. að leggja þessum málum lið og reyna að ná fram stefnumörkun til lengri tíma litið sem þjónar okkar hagsmunum á heildina litið og að á þessi dæmi sé litið út frá þjóðhagslegu mati.

Ég ætla svo ekki, herra forseti, að orðlengja þetta af minni hálfu, en ég vænti þess að þær upplýsingar sem hér eru reiddar fram og eru greinargóðar komi að gagni við frekari skoðun þessara mála.

Ég vil svo aðeins nefna það í lokin að við óskuðum eftir því, þingflokkur Alþb., við hæstv. sjútvrh. að hann legði fram upplýsingar í skýrsluformi um úrvinnslu sjávarafla, útflutning á ferskfiski og fjárfestingar í sjávarútvegi. Ég hef fengið afrit af bréfi til forseta Sþ. frá hæstv. sjútvrh. þar sem hann lýsir því að hann treysti sér ekki til að svara þeim atriðum sem þar var óskað upplýsinga um fyrir þinglok. Ég treysti því hins vegar að á því verði ráðin bót þannig að í byrjun næsta þings liggi þær upplýsingar skilmerkilega fyrir og ég hef skilið það svo að það sé ásættanlegt, enda hefur Alþingi heimilað þessa beiðni sem borin var fram af þingflokki Alþb. Þar er um að ræða mjög mörg þýðingarmikil atriði sem vissulega tengjast með vissum hætti því máli sem hér er rætt, t.d. í sambandi við uppbyggingu frystitogara og tilfærslu fiskvinnslunnar á haf út. Það er einn þátturinn sem þarna var óskað upplýsinga um og ég tel mjög nauðsynlegt að við fáum þær upplýsingar og það mat sem óskað er eftir af hálfu hæstv. sjútvrh. og ráðuneytis hans og við getum rætt þau efni snemma á næsta þingi í ljósi greinargóðra upplýsinga.