23.04.1986
Efri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4515 í B-deild Alþingistíðinda. (4282)

423. mál, áfengislög

Helgi Seljan (frh.):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að menn geri sér grein fyrir því þegar þetta mál er nú komið á lokastig hvort það hefur yfir höfuð nokkurn tilgang að vera að ræða það hér í Ed. miðað við væntanlegan framgang þess eða framgangsleysi í Nd. Þess vegna er manni kannske ekkert að vanbúnaði að ljúka máli sínu miðað við að málið gangi ekki lengra. Ég held líka að mönnum væri hollt að hugleiða hvernig þetta mál var upphaflega hingað komið frá hálfu dómsmrh. og hvað hæstv. dómsmrh. ætlaði sér með þessu frv. Hann var í raun og veru að færa það vald sem alfarið hefur verið hjá dómsmrn., sem legið hefur alltaf á þeirra borðum endanlega, hjá ráðuneytinu sjálfu, og mjög hefur verið undan kvartað, yfir til lögreglustjóra, bæjarfógeta eða sýslumanns á hverjum stað. Það var efni frv. Það var það sem skipti máli. Miðað við hvernig að þessum málum hefur verið staðið hefði ég út af fyrir sig ekkert verið sérstaklega hlynntur því að færa þetta vald frá dómsmrn. því að ég treysti mönnum þar alveg til að taka á þessum málum yfirleitt af hlutleysi, en jafnframt að gera þær eðlilegu kröfur sem þarf að gera varðandi vínveitingaleyfin almennt.

Þetta frv. var sem sagt til þess fallið að færa þetta enn frekar út til sveitarstjórnanna og svo til endanlegs úrskurðar viðkomandi lögregluyfirvalds, þess sama lögregluyfirvalds sem á að fylgjast með því að framfylgt sé réttum reglum í sambandi við vínveitingaleyfin og sem á að svipta viðkomandi aðila leyfi ef þess þarf. Út á þetta gekk frv. og sætir í raun og veru furðu minni að það skyldi þá ekki ganga hér snurðulaust í gegn á þann hátt sérstaklega í ljósi þess að dómsmrh., sérstaklega af því að hann er sá sem hann er nú, hefur legið undir býsna miklu ámæli fyrir að hafa ekki gert nógu mikið af því að veita þessi vínveitingaleyfi. Það kom hins vegar fram í upplýsingum sem hæstv. dómsmrh. gaf mér við fsp. minni í fyrra að fjölgun vínveitingaleyfa í hans tíð einmitt, vegna þess ofurþrýstings sem var og þrátt fyrir margar synjanir, var óvenjumikil vegna þess að ásóknin var svo gífurleg og það varð að líta hlutlægt á þessi mál og veita þar af leiðandi miklu fleiri leyfi en t.d. ég hefði talið æskilegt og ég veit að hæstv. ráðh. í hjarta sínu hefði líka talið mjög óæskilegt að veita svo mörg leyfi sem veitt voru.

Einu sinni var ég þeirrar skoðunar þrátt fyrir mína meginskoðun í þessum málum að með því að færa vínveitingaleyfi inn á t.d. skemmtistaði væru menn að stuðla að einhverju sem héti betri meðferð á áfengum drykkjum. Menn hafa löngum talað um það í niðrandi tón að menn vildu ekki horfa upp á ómenninguna sem fylgdi sveitaböllunum, fylgdi félagsheimilaböllunum og öðru slíku og hafa talað um það gjarnan í þessum andbyggðatón gagnvart landsbyggðinni að þar kynnu menn ekki með þetta að fara. Öðruvísi væri farið hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem menn gengju inn á hin fallegu vínveitingahús og færu þar að öllu með skikk og gát þannig að varla sæist vín á nokkrum manni. Ég trúði því einu sinni að það gæti vel verið að eitthvað væri til í þessu og að dansleikirnir sem ég sótti austur á landi og sæki enn þar væru með einhverjum verri blæ en dansleikirnir á vínveitingahúsunum í Reykjavík. En ég verð að segja nákvæmlega eins og er að hafi sú von einhvern tíma verið fyrir hendi hefur hún orðið sér a.m.k. til ærlegrar skammar, það er þó víst og satt, vegna þess að þegar maður hefur kynnst því nokkuð við þessar aðstæður sé ég nákvæmlega sömu hlutina vera að gerast í meðferð þessara drykkja á þessum svokölluðu „fínu“ skemmtistöðum sem bjóða upp á vínveitingar með „menningarlegu ívafi“, eins og menn hafa innan gæsalappa, í stað þeirrar kófdrykkju sem hefur verið talin einkenni sveitaballanna og ballanna í félagsheimilunum. Það hef ég séð með mínum eigin augum og verð þess vegna að segja að ef menn halda að það að veita einhverjum stað vínveitingaleyfi sé einhver trygging um leið fyrir því að þar sé farið að með meiri gát í drykkju og þar hagi menn sér eitthvað skynsamlegar er það vitanlega hin versta villa.

Vínmenning er orð sem ég kann lítt að meta og vil benda á að getur nú oftar en hitt snúist upp í algera andhverfu sína. Því held ég að það sé full ástæða til að fara hér að með fullri gát og varast að hafa það hömluleysi sem menn hafa verið að krefjast á undanförnum árum. Sannleikurinn er enda sá, eins og ég sagði áðan og ætla að ítreka hér enn, að ásóknin í þessi leyfi er auðvitað fyrst og fremst bundin ákveðinni gróðavon þeirra aðila sem eru að fá þessi leyfi í hendur.

Ég held að það sé hollast hins vegar fyrir hv. deild að fella niður tal um þetta, láta þetta mál niður falla og vera ekkert að vísa því í neðra þar sem það fengi þá kannske enn lakari dauðdaga en jafnvel hér, (Gripið fram í.) jafnvel miklu verri, segir hv. þm. Björn Dagbjartsson, en hér, þar sem við gætum núna sem hægast lokið þessari umræðu með hægu andláti þessa annars ágæta frv. í upphafi en sem hefur verið gert að óskapnaði hér í deild.