23.04.1986
Efri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4522 í B-deild Alþingistíðinda. (4297)

423. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð um það hvernig á því stendur að þetta mál er komið hér aftur vegna þess að ég skildi það sem hér fór fram áðan á þann veg að þetta mál ætti að liggja hér bara af þeirri einföldu ástæðu að sýnt væri að það færi ekki í gegnum Nd. Það má svo sem vel láta reyna á það vegna þess að við höfum yfirleitt ekki haft þann sið hér að taka mikinn tíma í það sem hæstv. forseti kallaði málþóf. Það hafa aðrir séð um í þessari hv. deild.

Það má vel segja það núna þegar að þinglokum er komið og verður farið að skamma stjórnarandstöðuna einhvers staðar í fjölmiðlum fyrir að hún hafi verið dauf að það verði m.a. ádeiluefnið að menn hafi ekki staðið nógu lengi hér í stól til að andæfa ýmissi þeirri vitleysu sem ríkisstj. hefur verið að knýja í gegn. En margt er nú svo skrýtið í þeim kýrhaus að menn hafa hreinlega ekki nennt að eltast við það.

Auk þess er það venja í þessari hv. deild að lengja ekki mál úr hófi þó að menn þurfi eðlilega að gera grein fyrir sinni skoðun í hverju máli, m.a. í því máli sem hér er eftir, húsnæðismálinu, sem ég held að hljóti að taka nokkurn tíma með tilliti til þess hvernig það mál ber að og hversu stórt það er. Ég sé það bara á þeim brtt., sem þegar hafa verið lagðar fram af þeim hv. þm. Stefáni Benediktssyni og Kolbrúnu Jónsdóttur, að sú umræða mun taka býsna langan tíma, eðlilegan tíma, af þeim ástæðum að hv. fyrri flm. hlýtur að þurfa að gera allnána grein fyrir þeim brtt., svo og nál. sínu. Það er óhjákvæmilegt.

Ég dreg ekki sanngirni virðulegs forseta í efa. Það gerir ábyggilega enginn hér í deildinni. En létt hefur það verk verið fyrir hæstv. forseta að sýna sanngirni á báða bóga stjórn og stjórnarandstöðu því að hlutföllin á málum sem hafa gengið fram í deildinni af ríkisstj. annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar eru slík. Það hefur verið létt verk fyrir forseta að sýna sanngirni í þeim 3-4 málum sem hér hafa farið í gegn allt í allt frá hv. stjórnarandstöðu. Það er rétt að ítreka það nú að það er mjög glöggt um öll vinnubrögð þessa þings nú að það hefur verið ákveðið - hvar sem það hefur verið, ekki hefur það verið gert í Garðastrætinu en einhvers staðar hefur það verið gert - að tillögur stjórnarandstöðunnar skyldu yfirleitt ekki sjá dagsins ljós hér og jafnvel til 2. umr. eða til afgreiðslu. Það er greinilega sú lína sem hefur verið gefin út til nefndarformanna. Það kom gleggst í ljós í umræðum í Sþ. í gær að a.m.k. sumir hæstv. ráðherrar eiga ákaflega erfitt með að sjá frv. eða tillögur frá stjórnarandstöðunni ná fram að ganga, eiga þá mjög bágt, svo að ekki sé meira sagt, ef það lítur út fyrir að einhver till. frá stjórnarandstöðunni villist í gegn frá nefndarformönnum, því að það hljóta að hafa verið hreinar hafvillur, sem þeir hafa þó lent í í lokin, að hafa samþykkt eina og eina till. frá stjórnarandstöðunni.

Það er alveg hárrétt hjá virðulegum forseta að það hefur ekki verið rekið á eftir þessu máli, sem við erum að ræða núna, með neinu offorsi. En hvers vegna hefur þetta mál verið hér á dagskrá og verið frestað æ ofan í æ? Það er af því að stjórnarliðið sjálft hefur verið í hreinustu vandræðum með það, klúðrað því út og suður. Hv. 4. þm. Austurl., formaður allshn., sá samviskusami maður, hefur verið á handahlaupum hér í tillögugerð undanfarna daga í mestu erfiðleikum með að finna einhverja þá lausn á þessu máli sem ráðherra t.d. gæti sætt sig við og Alþingi gæti talið brúklegt og er þó engan veginn brúklegt enn. Það á vel eftir að koma í ljós þegar farið verður að framkvæma þá endaleysu sem menn ætta að láta ná hér í gegn.

Ég ætla nú, með leyfi virðulegs forseta, að rekja athugasemdir við þetta lagafrv. eins og það kom upphaflega frá hæstv. ráðherra til þess að menn átti sig á því hvað um var að ræða þegar hæstv. dómsmrh. flutti þetta mál inn í þingið. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta, til að þetta gleymist mönnum ekki alveg eftir allt klúðrið og handahlaupin við leiðréttingarnar síðustu daga:

„Frv. þetta felur í sér þá meginbreytingu að ákvörðunarvald um útgáfu leyfa til áfengisveitinga á veitingastað er lagt í hendur lögreglustjóra í stað dómsmrh."

Þetta var þessi voðalega breyting sem lagt var til að gerð yrði eftir að hæstv. dómsmrh. hefur legið undir stóráföllum í sambandi við það að hafa lagst allt um of á vínveitingaleyfi sem gífurleg ásókn hefur verið í í þeirri gróðafíkn frjálshyggjunnar sem nú ríður húsum og hann hefur orðið að búa við í þessum málum eins og mörgum öðrum. Svo segir áfram í athugasemdum, með leyfi virðulegs forseta:

„Jafnframt er gert ráð fyrir því að óheimilt verði að gefa út slíkt leyfi nema viðkomandi sveitarstjórn mæli með leyfisveitingu, en nú er óheimilt að veita leyfi ef hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd er leyfisveitingu mótfallin“ - þ.e. sýslunefndin er tekin út úr þessu. Það er trúlegt að menn hafi saknað hennar svona mikið. Þess vegna hafa menn rokið til, farið að breyta og saknað þess að hún skyldi þó ekki halda þessu valdi þessi tvö ár sem hún á eftir ólifuð í landinu sem stjórnsýslueining.

„Rétt þykir að flytja ákvörðunarvald um útgáfu leyfa þessara til staðbundinna lögreglustjóra að fengnum meðmælum sveitarstjórnar sem í hlut á. Með frv., ef að lögum verður, er aukin ábyrgð lögð á sveitarstjórnir í landinu en ákvörðunarvaldi því, sem dómsmrh. hefur nú, haldið innan lögreglustjórnarinnar. Jafnframt er tekið fram að við ákvörðun um leyfisveitingu skuli lögreglustjóri hafa hliðsjón af tilgangi áfengislaganna sem fram kemur í 1. gr. þeirra, þ.e. að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.

Haldið er því skilyrði að veitingastaður skuli vera fyrsta flokks að því er varðar húsakynni, veitingar og þjónustu. Til að meta það hvort veitingastaður telst fyrsta flokks og til að tryggja samræmt mat um land allt er gert ráð fyrir starfsemi matsnefndar áfengisveitingastaða svo sem verið hefur.

Auk þeirra breytinga, sem raktar hafa verið, felur frv. í sér nokkrar minni breytingar.“ - Hér eru þær raktar og ég nenni ekki að telja þær upp enda eru þær að miklu leyti á stofnanamáli sem ég er ekki mikið hrifinn af að þurfa að þylja upp í framhaldi af þessu.

Það er því dagljóst að þetta mál, eins og það er komið frá hæstv. dómsmrh., var auðvelt til afgreiðslu í þessari deild með því að kanna á hvern hátt sú framkvæmd yrði sem af því leiddi. En menn vildu það ekki heldur fóru að hringla í þessu máli fram og til baka, reyna að finna einhverja lausn - mér skilst helst vegna þess að í Nd. höfðu ákveðnir hv. þm. flutt frv. fyrr á þessu þingi sem gekk nokkuð á skjön við þetta mál. Þess vegna hafi nefndin í Ed. endilega þurft að fara að breyta því enda var það beinlínis kynnt þannig í allshn. Ed. að það yrði að athuga þetta mál vegna þess að einhverjir þm. í Nd. hefðu ætlað að hafa þetta einhvern veginn öðruvísi.

Það hryggir mig ef menn eru farnir að mynda sér skoðun eftir því hvort eitthvert frv. hefur einhvern tíma komið fram frá einhverjum þm. um þetta mál þar sem tekið er jafnvel á þessum málum af því gáleysi sem þeim hv. þm., sem það frv. fluttu í Nd., er svo gjarnt að gera þegar áfengismál eru annars vegar.

Ég skal ekki lengja þessa umræðu meira, virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka það fram til að forða misskilningi að ég veit undir hvaða þrýstingi virðulegur forseti er gagnvart afgreiðslu mála. En mér þykir það hins vegar undarlegt að það sé þetta mál sem virðulegur forseti þarf alveg sérstaklega að koma hér í gegn og ýta á eftir. Það kemur mér mjög á óvart.

Hitt ítreka ég svo að þegar litið er til baka hefur því miður ekki verið mikil ástæða til þess á þessu þingi, sem nú er að ljúka, fyrir stjórnarandstöðuna að sýna samkomulagsvilja æ ofan í æ til að greiða fyrir málum, vegna þess að nefndarformenn stjórnarflokkanna, annaðhvort sjálfir eða skv. skipunum, hafa fengið um það ótvíræð fyrirmæli eða hafa gert það að láta ekkert af málum stjórnarandstöðunnar ná fram að ganga, helst ekkert nema þá ótilneyddir einhverjar tillögur sem væru það saklausar og með það breyttu orðalagi að þær segðu í raun og veru ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég sé a.m.k. eftir því að hafa sýnt þann samkomulagsvilja við hæstv. ríkisstj. sem ég hef sýnt hér í vetur í afgreiðslu mála þegar hæstv. ríkisstj. og hennar lið tekur þannig á málum stjórnarandstöðunnar sem ég hygg að séu engin dæmi um á síðustu árum að gert hafi verið. Heimur versnandi fer, segir einhvers staðar. Ég hélt að það gæti ekki átt við núv. ríkisstj. en það er greinilegt að það á að snúa orðtakinu á hana. Ríkisstjórnin versnandi fer.