12.11.1985
Sameinað þing: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

1. mál, fjárlög 1986

Geir Gunnarsson:

Það svokallaða frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1986, sem hér er á dagskrá, á sér einstæða sögu. Þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði komið saman frv. var afstaða ráðherra Sjálfstfl. sú að Framsfl. var hótað stjórnarslitum ef þinglið hans samþykkti frv. ekki sem grundvöll fjárlagagerðar fyrir næsta ár. En eftir að Framsfl. hafði samþykkt efni frv., eins og krafist var, gerist það að á fundi, sem tveir ráðherrar Sjálfstfl. ásamt þingflokki og miðstjórn héldu í Stykkishólmi, var þessu sama fjárlagafrv., að viðlögðum stjórnarslitum, hafnað sem ónothæfum grundvelli til að byggja á fjárlög. Þetta gerðist á meðan hæstv. þáv. fjmrh. var að lesa síðustu próförk þessa frv. sem hann lagði síðan fram á Alþingi.

Umræðan á Stykkishólmsfundinum um fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar var að sögn hæstv. núverandi menntmrh. bullandi vantraust á ríkisstjórnina, enda var í kjölfar hennar samþykkt að fjárlagafrumvarpið væri ónothæft sem grundvöllur fjárlagagerðar og að algert endurmat yrði að fara fram á útgjaldaáformum í ríkisbúskapnum.

Í leiðara Morgunblaðsins 2. október s.l. er tekið undir þessa skoðun með svofelldri athugasemd, með leyfi hæstv. forseta:

„Væntanlega geta flestir ef ekki allir sjálfstæðismenn tekið undir þessi orð, en sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna þingmenn Sjálfstfl. tóku þessi erindi ekki til umfjöllunar áður en fjárlagafrv. var endanlega samþykkt í þingflokknum og milli stjórnarflokkanna. Ekki er ólíklegt að samstarfsflokkurinn telji þetta undarleg vinnubrögð gagnvart sér“.

Og síðar í leiðaranum segir Morgunblaðið: „Hvernig var eiginlega staðið að afgreiðslu fjárlagafrv. í þingflokki Sjálfstfl.?"

Ekki eru undur að spurt sé. Morgunblaðið taldi síðan í sama leiðara að eðlilegasta ályktunin, sem ráðherrarnir hlytu að draga af því bullandi vantrausti sem umræðan um fjárlagagerðina hefði verið á ríkisstjórnina, væri sú að þeir segðu af sér.

Það varð því miður ekki niðurstaðan, en í framhaldi af þeim dómi að fjárlagafrv. væri ekki nothæfur grundvöllur til fjárlagagerðar fyrir næsta ár var gripið til þess ráðs að láta alla ráðherra Sjálfstfl. skipta um stóla svo að hæstv. fyrrv. fjmrh. kæmi engum vörnum við þegar honum var með þessum hætti ýtt úr stóli sínum. Til þess var allur stólaleikurinn settur á svið. Hann hefur nú ekkert lengur með fjárlagafrv. sitt að gera. Fjárlagafrv. er að dómi Sjálfstfl. ónothæft og það er nú einnig umkomulaust og því ekki vert raunverulegrar umræðu hér á hv. Alþingi. Það frv. sem hér er á dagskrá er því ekki annað en pappírsgagn sem lagt hefur verið á borð þingmanna til að uppfylla að forminu til þau ákvæði stjórnarskrárinnar að frv. til fjárlaga skuli lagt fram í upphafi þings. Umræða um slíkt plagg getur því enga merkingu haft á þessu stigi málsins. Fjvn. hefur nú í mánuð unnið að gerð fjárlaga fyrir næsta ár, en þar til í morgun ekkert haft í höndum annað en það sýndarplagg sem Sjálfstfl. hefur lýst ónothæft sem grundvöll að fjárlagagerð fyrir næsta ár, enda verið dubbaður upp nýr fjmrh. til þess að reyna að koma einhverju öðru efni saman.

Um nokkurt skeið hafa tveir fulltrúar meiri hluta fjvn. átt sæti í sex manna nefnd stjórnarflokkanna sem kölluð hefur verið nefnd sláturleyfishafa, en hún hefur átt að leita eftir samkomulagi um nýjar hugmyndir um útgjaldahlið fjárlagafrv. Fjórir nefndarmenn af sex fulltrúum stjórnarflokkanna í fjvn. koma þar hvergi nærri og hafa ekkert fengið að fylgjast með störfum sláturleyfishafanna og hafa beðið eins og fulltrúar stjórnarandstöðunnar eftir því að fjvn. geti farið að fjalla um annað en marklaust og afhrópað fjárlagafrv.

Í ríkisfjölmiðlum hefur verið greint frá flugufregnum um ákvarðanir sláturleyfishafanna, en fyrir fjvn. eða þingflokka stjórnarandstöðunnar hafa fyrir þá umræðu, sem hér ætti að fara fram ef allt væri með felldu, ekki verið lagðar neinar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í fjárlagagerð, fyrr en loks nú í morgun. Þá loks hefur hæstv. fjmrh. sýnt það sem sjónvarpið kallar „útlínur að tillögum“ um nokkrar tilteknar breytingar sem stendur til að gera við endursmíði fjárlagafrv.

Þessar takmörkuðu og afar síðbornu hugmyndir, sem loks í morgun var skotið inn á fund fjvn. sem stóð nærri til hádegis, breyta engu um að enginn grundvöllur er til að ræða hið afhrópaða fjárlagafrv., hvorki í dag né eftir tvo daga. Þessar tillögur breyta útgjaldahlið um 1,7% og gjaldahlið um 0,9%. Slík vinnubrögð, að leggja fram fjárlagafrv. sem flokkur fjmrh. hafði afneitað og draga síðan að leggja fram boðaðar breytingar þar til daginn sem fjárlagaumræða hafði verið ákveðin, eru með öllu ótæk og óþekkt svo langt aftur sem ég man. Raunveruleg umræða um fjárlagafrv. hlýtur því að bíða 2. umr þegar svo er að málum staðið af hálfu hæstv. ríkisstj.