23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4573 í B-deild Alþingistíðinda. (4380)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Það væri ástæða til að tala lengi vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað og þess skilningsskorts í málflutningi sem hér hefur átt sér stað. Það virðist vera sem hér tali nátttröll í mörgum tilvikum, einkum þegar rætt er um kjarasamninga og þá byltingu sem verið er að gera í húsnæðismálum nú. Það virðist vera sem sumir þm. hér séu fullir andstyggðar á því að gerðar séu úrbætur í húsnæðismálum vegna þess að verkalýðssamtökin áttu frumkvæðið að því. Það virðist vera sem mönnum sé ekki sama hvaðan gott kemur. Ekki er vikið orði að því að verkalýðssamtökin hafa nú staðið að því að beina geysilega miklu fjármagni í ónýtt húsnæðiskerfi sem ríkisstj. hefur ekki verið fær um að gera. Húsnæðiskerfið hefur verið gersamlega í rúst og neyð manna hefur verið afskaplega mikil. Það held ég að mönnum ætti að vera ljóst. Það er talið af því vonda að verkalýðssamtökin skuli taka til hendi, gera kjarasamning sem er í því fólginn að skapa félagslegar umbætur sem verða þessu fólki til bjargar. (SDK: Það var gagnrýni á ríkisstj.) Það kemur hvergi annars staðar fram, hvorki hjá hv. þm. Sigríði Dúnu né fleiri sem hér hafa talað, að það væri sérstök gagnrýni á ríkisstj. heldur er það af andstyggðarhvötum að menn eru að gera svona samkomulag. (SDK: Það er ekki rétt, hv. þm. )

Síðan er það gagnrýnt sérstaklega hvernig lánshlutfallið er fengið og að lífeyrissjóðunum sé blandað inn í þetta, menn skuli fá lán í takt við það sem þeirra lífeyrissjóðir greiða í húsnæðislánakerfið. Ég minni á að áður en þessi kjarasamningur var gerður lögðu lífeyrissjóðirnir til helming af öllu því fé sem fór til húsnæðislánakerfisins. Í öðru lagi voru ýmsir sterkir lífeyrissjóðir sem ekki lögðu nokkurn skapaðan hlut fram, einkum þeir sem betur mega sín. Lífeyrissjóður samvinnustarfsmanna keypti held ég 2% af skuldabréfum og Lífeyrissjóður verslunarmanna hæst 11%. Svo mætti lengi telja. Aðrir sjóðir, eins og lífeyrissjóðir lækna, arkitekta og fleiri, greiddu ekki nokkurn skapaðan hlut. Þeir sem voru í þessum sjóðum fengu lán í sínum lífeyrissjóðum, háar upphæðir þar, og gátu svo komið í húsnæðiskerfið og náð sama láni og verkakonan í frystihúsinu fékk, lán af hennar peningum og engra annarra. Það var hróplegt misrétti sem þarna átti sér stað. Sú leið sem hérna er valin er valin til að koma á nokkru jafnvægi þarna og neyða þessa lífeyrissjóði til að taka þátt í því félagslega átaki sem verið er að gera.

Það má vissulega margt bæta í því samkomulagi sem gert var þó ég telji það mikið tímamótasamkomulag og stóran þátt í því að leysa vanda þeirra sem verst eru settir í dag. Það er rangt þegar fólk heldur því fram að ekkert hafi verið gert til að leysa bráðavanda fólks. Það voru lagðar sérstakar 300 millj. í þann póst, auk þeirra 200 millj. sem ríkisstj. hafði áður lagt fram. Það var meira en tvöfaldað. Allt er það gert í þeim kjarasamningum sem gerðir voru nú fyrir skömmu.

Það gefst víst ekki tími til að fara vandlega ofan í þessa hluti, það mun hafa verið gert samkomulag um að menn styttu mál sitt, þó vissulega svelli í manni reiðin út af þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað og væri ástæða til að taka það sérstaklega fyrir. En ég minni á að þessir kjarasamningar voru gerðir fyllilega á ábyrgð þeirra aðila sem það gerðu. Félmrh. sagði við 1. umr. að verkalýðssamtökin og vinnuveitendur hafi valið svokallaða niðurtalningarleið. Ég vil frábiðja mér það orð. Það sem þarna var að ske er allt annað og alls ekki í takt við það. Ég vil líka minna á að í miðjum kjarasamningum, þegar við vorum að freista þess að fá ríkisstj. með í þennan pakka, stóð í erindi hennar til okkar sem sérstök viðvörun: "Ríkisstj. leggur þó á það áherslu að launasamningarnir og viðmiðanir þeirra eru að sjálfsögðu gerðir á ábyrgð samningsaðila sjálfra.“ Enda var það gert og þetta samkomulag, sem hér er verið að tala um, þetta félagslega átak sem verkalýðssamtökin hafa beitt sér fyrir og er að verða að veruleika, er á ábyrgð verkalýðssamtakanna til að laga það kerfi sem hefur gersamlega verið í rúst.

Ég tel að þeir sem hér hafa talað hefðu gjarnan mátt víkja að því hvað mikið var gert í þessum kjarasamningum og hvað mikið var gert í því að fá lífeyrissjóðina til að taka þátt í þessu. Það hefur verið reynt í áraraðir að fá lífeyrissjóðina til að taka meiri þátt í fjármögnun húsnæðislánakerfisins en það hefur ekki tekist. Lífeyrissjóðirnir hafa ekki viljað lúta lagasetningu, enda er þetta þeirra fé. Hér fannst leið með samkomulagi til að fjármagna þetta kerfi og það er einmitt það sem gerir að verkum að við horfum fram til bjartari tíma i húsnæðismálum.

Ég skal ljúka máli mínu að sinni, en mér þykir það miður að þess er lítt getið að í þeim kjarasamningum sem nýlega voru gerðir var samið um fleira en krónur. Það var samið um félagslegt átak sem kemur vissulega öllum til góða og þá sérstaklega þeim sem verst eru settir. Þetta samkomulag, sem hér er, markast mjög af því að þeir fái sérstakar úrbætur.