23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4581 í B-deild Alþingistíðinda. (4409)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. landbn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46 frá 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Fyrst vil ég rifja upp, herra forseti, að þann 26. febrúar s.l. gerðust mikil tíðindi í þessu þjóðfélagi. Þá tókst samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins, sem staðfest var með yfirlýsingu ríkisstj. og lagasetningu hér á Alþingi, um gerbreytta stefnu í efnahagsmálum. Nú nýlega höfum við rætt nýtt lagafrv. um nýja húsnæðisstefnu. Með þessu samkomulagi tóku aðilar vinnumarkaðarins að sér það ábyrgðarmikla hlutverk að hafa frumkvæði um nýja stefnumótum, bæði í efnahagsmálum og húsnæðismálum, og taka það frumkvæði af ríkisstjórninni.

Þegar þetta samkomulag var gert lá það fyrir að ríkisstj. sjálf hafði almennt við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga reiknað með 36% verðbreytingaforsendum milli ára og að verðbólga var á bilinu 35-40%. Sem afleiðing af þessu samkomulagi var þessum forsendum gerbreytt og stefnt að þeim markmiðum að ná verðbólgu mjög hratt niður, niður fyrir 10%, jafnvel niður í 7-8% sem afleiðingu af þeim efnahagsaðgerðum sem verkalýðshreyfingin með aðstoð vinnuveitenda knúði fram.

Stjórnarsinnar hafa síðan reynt að eigna sér þennan árangur. Það er út af fyrir sig mannlegt þó það sé kannske ekki stórmannlegt og ekki aðalatriði málsins. Aðalatriðið er það að hæstv. ríkisstj. gaf út ótvíræð fyrirheit um það að hún vildi reyna að efna sinn hlut af þessu samkomulagi. Snar þáttur þessa samkomulags var ákveðin spá um verðlagsþróun á næstunni, þ.e. um breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar, enda samningsákvæði skilyrt á þann veg að ef verðhækkanir verða meiri á tímabilinu en ráð er fyrir gert, þá kemur samkomulagið með sérstökum hætti til endurskoðunar. Af hálfu aðila vinnumarkaðarins er til þess ætlast að ríkisstj. fyrir sitt leyti leggi sig alla fram um það að við þetta samkomulag verði staðið, að verðlagsþróun verði haldið innan þeirra marka sem að er stefnt. Um það hefur ríkisstj. gefið út sérstaka yfirlýsingu.

Hingað til hefur árangurinn verið viðunandi. Partur af þessu samkomulagi var í því fólginn m.a. að koma í veg fyrir hækkun á búvöruverði, auk þess sem það fólst í samræmdum aðgerðum, m.a. til þess að færa niður, til samræmis við breyttar verðlagsforsendur, tekjuskattsálagningu, útsvarsálagningu sveitarfélaga, vaxtaákvarðanir, verð á opinberri þjónustu, bensínverð. Með afnámi verðjöfnunargjalds af rafmagni voru orkureikningar lækkaðir. Því næst var samkomulag um lækkun á tollum, þar á meðal var hin umdeilda lækkun á tollum af fólksbifreiðum, það var lækkun á tollum af grænmeti, hjólbörðum, heimilistækjum. Það var niðurfelling launaskatts til eflingar samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna, sem var ein af forsendum þess að ríkisstj. treysti sér til að reyna að hanga á völtu en sæmilega stöðugu gengi. Og því næst að lokum samkomulag um stóraukna upplýsingastarfsemi um verðmyndun og verðgæslu. Að lokum var þáttur í þessu samkomulagi sú hin nýja húsnæðisstefna sem Alþingi hefur nú fjallað um undanfarna daga.

Það mál sem hér er flutt á síðustu dögum þings er ekki í samræmi við þetta samkomulag. Það er reyndar hreint og klárt brot á þessu samkomulagi af hálfu ríkisstj. Ég hef haft samband við t.d. forseta Alþýðusambands Íslands, sem því miður er eitthvað krankur þessa dagana, og hann heimilaði mér að hafa það eftir sér að hann liti á þessa frumvarpssmíð af hálfu ríkisstj. sem alvarlegt brot af hennar hálfu á því samkomulagi, sem ríkisstj. er aðili að við aðila vinnumarkaðarins, vegna þeirra álaga og verðhækkana sem af því munu hljótast fyrir neytendur í landinu.

Í gær ákvað hæstv. fjmrh., eða ríkisstjórn, verulegar hækkanir á áfengi og tóbaki, sem nema a.m.k. 0,2% af vísitölu framfærslukostnaðar. Og það er alveg ótvírætt að ef þær heimildir verða nýttar, sem hér er verið að fá landbrh. til aukinnar skattálagningar og álaga á innfluttar kartöflur og efni unnið úr þeim, þá munu verðhækkunaráhrif þess í vísitölu vera talsvert meiri, ef þessar heimildir verða nýttar að fullu, heldur en hækkun áfengis og tóbaks. T.d. mundi liðurinn 200% hækkun innflutts hráefnis í franskar kartöflur og þess háttar gera 0,2% hækkun á vísitölu og liðurinn kartöflur og vörur framleiddar úr kartöflum nemur a.m.k. 0,46% hækkun á vísitölu. Ef þetta næði fram væri ríkisstjórnin sjálf að eigin frumkvæði með þessum þremur hækkunum, með samfelldum aðgerðum að lýsa því yfir að hún hefði engan hug og engan vilja á að standa við sinn hlut í gerðu samkomulagi, og það er mjög alvarlegt mál. Þess vegna verð ég að játa það að mér kemur mjög spánskt fyrir sjónir að tveir hv. þm., sem teljast til þingflokks Alþb., að annar þeirra skuli lýsa því yfir í útvarpsviðtali að þeir styðji þetta frv. - eins og gerði hv. þm. Ragnar Arnalds þegar það var lagt fram í hinni enn þá herfilegri mynd - og að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli láta sér sæma að skrifa undir svona tillögur framsóknarmanna í tveimur flokkum, Framsóknar- og Sjálfstfl., þó með fyrirvara sé gert.

Herra forseti. Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um forkastanleg vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessu máli. Fulltrúi Alþfl. í landbn., hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hafði farið þess á leit að ég hlypi í skarðið fyrir hann þar sem hann hefur fjarvistarleyfi, en hann er erlendis í opinberum erindagerðum, og hafði jafnframt óskað þess sérstaklega að ég kæmi þeim óskum á framfæri, vegna þessa máls og vegna eðlis þess, að leitað yrði umsagna Alþýðusambands Íslands vegna þess að þetta mál snertir vilja stjórnvalda til þess að efna eða vanefna þann grundvallarsáttmála sem hér var gerður um kaup og kjör og verðþróun. Jafnframt að málinu yrði vísað til umsagnar Neytendasamtakanna vegna þess að þetta er stórt hagsmunamál fyrir neytendur en ekki bara fyrir örfámennan hóp verksmiðjueigenda eða bænda. Og að það yrði í þriðja lagi leitað álits t.d. lagadeildar Háskólans á því hvernig þessi lagasetning stenst alþjóðlegar skuldbindingar okkar, svo sem að því er varðar EFTA eða GATT. Og í fjórða lagi var það hans ósk að fulltrúi viðskrn. kæmi á fund nefndarinnar til þess að ræða það mál.

Það er fljótsagt að þessum óskum var dreissugt vísað á bug eins og ég segi í mínu nál. Af hálfu formanns og meiri hl. nefndarinnar var m.ö.o. ekkert tekið undir það og því harðneitað, svo sjálfsögðum óskum um þinglega meðferð þessa máls, að fulltrúar þessara aðila, þessara fjöldasamtaka fólksins í landinu, fengju að segja álit sitt á þessu, ekki einu sinni við það komandi að þeir fengju að koma á fund nefndarinnar. En náðarsamlegast var að lokum fallist á það að fulltrúi viðskrn. mætti koma á fund nefndarinnar til þess að gera grein fyrir því hvernig þetta samræmdist alþjóðlegum skuldbindingum.

Vegna orða frsm. meiri hl. hér áðan, að því er þann þátt málsins varðar, þá er rétt að það komi afdráttarlaust fram að þessi fulltrúi viðskrn. sem hér um ræðir viðurkenndi og sagði berum orðum að þetta frv. stæðist ekki skuldbindingar okkar gagnvart alþjóðlega tollasamkomulaginu, þ.e. GATT, og sérstaklega nú einmitt vegna þess að við höfum skuldbundið okkur til að virða hina svokölluðu „stand still“-reglu, eða reglu hins óbreytta ástands, vegna þess að fram undan eru viðræður um frekari aðgerðir til rýmkunar á hindrunum í alþjóðaviðskiptum og lækkun á tollum innan GATT-samkomulagsins. Þetta er þó engan veginn meginatriði málsins. Þó vil ég nefna það í þessu viðfangi að það skýtur svolítið skökku við þegar við annars vegar og viðskrn. íslenska er mánuðum og misserum saman í stríði við aðrar þjóðir út af sambærilegu máli - þá á ég við viðleitni okkar til þess að fá niðurfelldan 13 og 21% toll á saltfiskinnflutningi í Portúgal og Efnahagsbandalagslöndum, sem við getum ekki stutt beinum og skýlausum samningsákvæðum vegna þess að þessi tollur er tilkominn eftir að við gerðum okkar samkomulag um viðskipti við Efnahagsbandalagið - engu að síður höfum við mánuðum og misserum saman lagt á það megináherslu að það sé eitt stærsta hagsmunamál Íslendinga að fá slíka mismununartolla, svokölluð jöfnunargjöld eins og þau mundu heita þar, felld niður vegna þess að við stöndum þar í samkeppni við aðra sem fram hjá þessum tollum fara. Þar með er þetta raunverulega aðgerð sem getur haft þau áhrif að bola okkur út af mörkuðum þar og eru þar auðvitað gífurlega miklir hagsmunir í húfi. Og það fer ekkert milli mála að það er ekki sérstaklega hagkvæmt að á sama tíma og þetta mál er kannske að nálgast lokastig þá skuli þau tíðindi berast á Íslandi að við erum sjálfir hvenær sem er, þegar eftir er leitað af tiltölulega fámennum hópum, reiðubúnir að beita sams konar brögðum. Það verður áreiðanlega eftir því tekið og það er hvorki í þágu íslenskra útflytjenda, íslensks sjávarútvegs, eða þjóðarhagsmuna Íslendinga almennt. Þetta er að mínu mati alvarlegasti þáttur málsins.

Þetta frv. sýnir að ríkisstj. er ekki treystandi. Hún er tilbúin til þess hvenær sem eftir er leitað af fámennum en áhrifamiklum hagsmunaaðilum að ganga í berhögg við forsendur þess samkomulags sem hún er búin að skuldbinda sig við að reyna að halda við hin fjölmennu samtök launafólksins í landinu. Og vinnubrögðin síðan aldeilis forkastanleg, hrokinn alveg yfirgengilegur, að virða ekki svo sjálfsagðar kröfur sem það er að þeir, sem hafa gert samkomulag við ríkisstj. um svona mál, eins og miðstjórn Alþýðusambands Íslands, skuli fá svo mikið sem leyfi til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá er og á annað að líta, herra forseti, um vinnubrögðin. Hér er í fyrsta lagi verið að samþykkja, ef þetta verður að lögum, afar óviðfelldið valdaframsal úr höndum Alþingis til landbrh., þar sem hann á að hafa heimild til þess að ákveða þessa skatta eftir „behag“ eins og það heitir á góðri skandinavísku. Landbrh. á bara að fá eina allsherjar heimild innan þeirra marka, allt að 200% gjald á tollverð hinnar innfluttu vöru og hafa það algjörlega að eigin geðþótta.

Menn kann að greina á um það hvað þetta þýðir í upphæðum talið fyrir almenning og neytendur í þessu landi. Um það kunna að vera eitthvað skiptar skoðanir, enda talnagrundvöllurinn ekki sérlega traustur. Menn leyfa sér það hér á hinu háa Alþingi að leggja fram frv. til laga um framsal á skattlagningarvaldi Alþingis í hendur á einum ráðherra og það eru engar upplýsingar lagðar fram, engir útreikningar af neinu tagi um eitt eða neitt til rökstuðnings þessu. Nú vita menn það að ástæðurnar fyrir þessu eru auðvitað þær að hér eru reknar kartöfluverksmiðjur sem eru ekki samkeppnisfærar miðað við það hráefnisverð sem þeirra eigendur láta verksmiðjurnar borga. Eigendur eru sjálfir framleiðendur og þeir ákvarða sitt verð til verksmiðjanna og það verð er langt umfram það sem kallast mætti sambærilegt verð erlent eða heimsmarkaðsverð. Um það efni vísa ég til fskj. sem er verðsamanburður Verðlagsstofnunar á frönskum kartöflum, þá er ég að tala um smásöluverð, sem sýnir að verðmunurinn er þetta tvö- til þrefaldur. Þrátt fyrir þessar forsendur eru þessar „fabrikkur“ ekki samkeppnisfærar og málið er flutt þess vegna. Menn vilja ekki hrófla við innkaupsverði verksmiðjanna og verðmunurinn er slíkur sem ég hef nefnt dæmi um. Það er auðvitað kveikjan að málinu. Þetta er m.ö.o. hagsmunamál og síðan er landbrh. bara gefið skattlagningarvald til að gera hvað sem honum þóknast til þess að rétta þennan mun. Það eru engir útreikningar lagðir fram og engar upplýsingar, hvorki um fjárfestingu þessara verksmiðja né heldur um rekstrarkostnað þeirra eða afkomu eða nokkurn skapaðan hlut. Þetta er m.ö.o. lagasetning eftir pöntun, bara eftir pöntun.

Þetta ætti að nægja um vinnubrögðin. Þau eru forkastanleg hvort heldur er að því er varðar forsendur málsins sjálfs og meðferð þess hér inni á Alþingi og í landbn. Ef menn vildu nú fallast á að það væru einhver rök fyrir því að ríkið kæmi sérstaklega til aðstoðar þessum verksmiðjurekstri, þá er hin rétta aðferð í því efni allt önnur. Hún er sú að þá eiga fulltrúar ríkisstj., eða þingmeirihlutans að leggja hér fram tillögur á Alþingi Íslendinga við fjárlagaafgreiðslu, eða með öðrum hætti þótt ekki sé við fjárlög, um beina rekstrarstyrki. Þá hafa menn það á hreinu hvort meiri hlutinn þorir að leggja fram rök sem tekin væru góð og gild fyrir nauðsyn þess arna, og þá væru þessar upphæðir hér skráðar og menn tækju þá afstöðu til þess hvort þeir væru reiðubúnir að leggja skatta á allan almenning og neytendur til þess að dekka hallarekstur þessara verksmiðja. Þá væri málið m.ö.o. ekki feluleikur, þá þyrfti ekki að stunda eitthvert valdaframsal, og þá væru a.m.k. vinnubrögðin út af fyrir sig í þokkalegu samræmi við eðlilega starfshætti. Og þá kæmi auðvitað til greina að líta á niðurgreiðslureikning skattgreiðenda í heild og hvort ástæða væri til að færa hluta af niðurgreiðslunum, sem þegar eru lögfestar á fjárlögum, og nýta þær að hluta til með þessum hætti.

Nú sagði ég, herra forseti, að miðað við það hversu forkastanlegt þetta mál allt saman er og illa undirbúið, engar heimildir lagðar fram og engar upplýsingar, málið bara keyrt í gegn með venjulegum framsóknarþjósti af landbúnaðarkerfinu, þá kunni menn að greina á um það hvað þetta gæti þýtt. En ég vil vekja athygli á því að af hálfu hagfræðings Verslunarráðs Íslands hafa verið settar fram tölur um það. Hann telur að ef þessar heimildir væru nýttar að fullu, þ.e. þessi geðþóttaskattlagning landbrh., ef hún væri nýtt að fullu, þetta 200% álag, og miðað væri við kartöfluinnflutning eins og hann hefur verið hingað til landsins s.l. fjögur ár, þá gæti falist í þessari heimild 2-300 milljón kr. skattur á neytendur af innfluttum kartöflum. - Og munar nú lítið um einn kepp í sláturtíðinni, segir einhver. - Því til viðbótar, segir hagfræðingur Verslunarráðsins, bætast álögur á innfluttar vörur unnar úr kartöflum. Skattheimtan gerir síðan innlendum framleiðendum kleift að hækka verð til neytenda þannig að í heild getur þessi skattheimta falið í sér álögur á neytendur miðað við þessar forsendur og fulla nýtingu á skattlagningarheimildum sem eru ekki undir einum milljarði króna.

Ég skal út af fyrir sig ekkert fullyrða um það nákvæmlega hvernig þessar heimildir verða nýttar og um það getur enginn fullyrt, reyndar ekki meirihlutamenn sjálfir, þeir sjá það ekkert fyrir. En hitt er annað mál að það sem Alþingi er beðið um að samþykkja hér er skattálagningarframsal, til hv. landbrh. af öllum mönnum, sem gæti numið þessu ef allar heimildir væru nýttar til fulls. Auðvitað liggur ljóst fyrir að það er ekki verið að flytja þetta frv. að gamni sínu. Auðvitað liggur það fyrir - ef menn líta á muninn að því er varðar verðsamanburðinn frá Verðlagsstofnun, sem birtur er á fskj. með mínu nál. þar sem fram kemur að verðmunurinn á smásöluverðinu er þetta tvö- til þrefaldur - að það er meiningin að nýta þessa skattlagningarheimild. Og hún mun fela í sér verulegar álögur á neytendur í fyrsta lagi, og hún mun skapa svigrúm fyrir verksmiðjueigendur til þess að hækka enn verð á sínum framleiðsluvörum.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um hin dæmigerðu vinnubrögð þeirra framsóknarmanna í svona málum - og með framsóknarmönnum þá á ég ekki endilega við þá framsóknarmenn sem eru í Framsfl., heldur framsóknarmenn þriggja flokka. Það er svo eftir öðru að því er haldið fram að hér sé verið að leggja á eitthvað sem eigi með réttu lagi að heita jöfnunargjald. M.ö.o. það er rökstutt með því að hér sé verið að koma til móts við niðurgreiðslur erlendis frá. Af því tilefni vil ég taka það fram að samkvæmt upplýsingum, bæði einstakra innflytjenda, Verslunarráðsins og viðskrn., eru engar niðurgreiðslur á kartöflum. Engar. Engum slíkum niðurgreiðslum til að dreifa, hvorki í löndum Efnahagsbandalagsins né heldur í Bandaríkjum Ameríku né Kanada, þaðan sem þessar vörur hafa verið fluttar inn. Engar niðurgreiðslur. Ekki af neinu tagi. Og þess vegna er algerlega út í hött að kalla þetta eitthvert jöfnunargjald. En það heyrir auðvitað undir sérstaka framsóknarhagfræði að ef neytendur kynnu að eiga þess kost að njóta þess í lækkuðu vöruverði að heimsmarkaðsverð á þessum vörum, óniðurgreitt, er tvisvar til þrisvar sinnum lægra en það verð sem verið er að krefja íslenska neytendur um, þá mega þeir ekki njóta þess. Hin hliðin á því máli er sú að ef þetta mál snerist um það og menn væru heiðarlegir í sínum málflutningi og segðu bara ósköp einfaldlega: Það eru pólitískir hagsmunir Framsfl. að koma þarna til aðstoðar tveimur verksmiðjum, - ef menn væru heiðarlegir í sínum málflutningi þá ættu þeir bara að leggja fram tillögu um það að þessi verksmiðjurekstur væri sérstaklega styrktur. En þá ættu menn líka að standa frammi fyrir því að það væri bein skattlagning eða nýting á skattfé almennings sem færi í það. Þá sæju menn það nákvæmlega hverja er verið að styrkja og hvaða kröfur er verið að gera og hvaða álögur er verið að leggja á neytendur.

Herra forseti. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á ályktun Neytendasamtakanna sem þegar hafa látið til sín heyra í þessu máli. Sú ályktun á erindi inn í þingtíðindin og þess vegna vil ég kynna hana hér, með leyfi forseta.

„Neytendasamtökin mótmæla fram komnu stjfrv. um heimild til handa stjórnvöldum til þess að leggja allt að 200% ofan á tollvirði innfluttra búvara.

Neytendasamtökin telja, verði frv. að lögum, að það muni leiða til stórhækkaðs vöruverðs til neytenda, koma í veg fyrir samkeppni og draga úr viðleitni framleiðenda til þess að laga sig að markaðsaðstæðum og beita hagkvæmni við framleiðsluna.

Neytendasamtökin fordæma jafnframt þær hugmyndir að neytendur eigi að þola stórhækkað vöruverð af þeim ástæðum einum að nokkrir framleiðendur stofna og reka úrvinnsluverksmiðjur fyrir framleiðslu sína. Vilji stjórnvöld stuðla að slíkum atvinnurekstri er eðlilegra að þau styðji hann með öðrum aðferðum en að hækka verð samkeppnisvara til neytenda. Slíkar þreifingar ofan í matarbuddu almennings eru ekki til þess fallnar að bæta kjör heimilanna. Nær væri að veita þessum fyrirtækjum beina rekstrarstyrki á fjárlögum. Þá væri kostnaðurinn ljós hverjum sem er og á valdi Alþingis hverju sinni að ákveða hvort halda skyldi slíkum stuðningi áfram.“

Herra forseti. Þessi ályktun mun hafa verið gerð þegar frv. var sett fram í sinni upphaflegu mynd, en þá ættuðu þessir sérhagsmunaseggir, sem að þessum málum standa, hvorki meira né minna en að framselja heimild til landbrh. um að leggja þetta 200% álag ofan á tollvirði innfluttra búvara eins og þær leggja sig.

Í framhaldi af þessu, herra forseti, er rétt að það komi fram að fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hefur þungar áhyggjur af þessu máli og hefur beint mótmælum sínum og kröfum í því efni, eftir upplýsingum sem mér voru veittar símleiðis í gær, til þingmanna sinna. En þeir létu þau orð fylgja að þeir treystu það illa á atfylgi þingmannanna að þeir vildu vera öryggir um að þessi vitneskja kæmist til skila vegna þess að þeir lýstu því fyrir mér átakanlega hvernig þessi samvinnuflokkur Framsfl. er í þessum málum ávallt og ævinlega kúgaður í hverju málinu á fætur öðru þegar hagsmunir neytenda eru annars vegar.

Kannske að við fáum eitthvað að heyra um þetta þegar hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson tekur hér til máls á eftir. Vonandi hefur hann kjark til að staðfesta að rétt sé með farið um að slík ályktun hafi verið gerð.

Herra forseti. Á þskj. 1066 leggur einmitt hv. 2. þm. Reykv. fram brtt. við þetta endemis frv. sem auðvitað er þakkarverð og væri til bóta ef hún næði fram að ganga. Hún er við 1. gr. og byggist á því að heimildin til að leggja slíkt gjald á vörur unnar úr kartöflum falli niður og svo sú galopna heimild til ráðherrans að ákveða hvaða vörur skuli gjaldskyldar. Auðvitað væri það til bóta en samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hingað til, er lítil von talin til þess að þm. hafi nokkurn stuðning í sínum eigin þingflokki við svo sjálfsagða hagsmunagæslu fyrir neytendur.

Herra forseti. Mönnum kemur það kannske á óvart í önnum þingsins af hverju lögð er slík áhersla á að fá þm. til að átta sig á að þetta mál er hið versta mál. Það gat vel farið svo í þeim asa, sem ríkjandi er hér seinustu daga þings, að þetta færi fram hjá mönnum. Þess vegna vil ég sérstaklega biðja menn að aðgæta að þetta mál er tekið mjög alvarlega af miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Það liggur alveg ljóst fyrir að forsvarsmenn Alþýðusambandsins telja að með því að hleypa þessu máli óbreyttu í gegnum þingið sé verið að svíkjast ódrengilega aftan að alþýðusamtökunum og því samkomulagi sem gert var við aðila vinnumarkaðarins og milli þeirra og ríkisvaldsins um að ríkisvaldið reyndi fyrir sitt leyti að standa við þau fyrirheit sín, þau loforð sín að standa á móti hækkun á verði á þýðingarmiklum neysluvörum almennings. Þetta er einn prófsteinninn á það hvort nokkur hugur fylgi máli eða hvort nú er svo langt um liðið að ríkisstj. heldur að hún geti áhættulaust og umvöndunarlaust þjónað hagsmunum sérhagsmunahópa jafnvel þótt þeir gangi í berhögg við svo ríka almannahagsmuni.

Menn skulu gæta að því að þetta er hið alvarlegasta mál því að ef ríkisstj. verður uppvís að því einu sinni og oftar en einu sinni að taka þetta samkomulag ekki alvarlega verður henni ekkert trúað til að gera slíka hluti aftur. Þá er hún raunverulega að leggjast á sveif með þeim sem með ansi yfirborðskenndum rökum og glamri hafa talið sig geta snúist gegn samkomulaginu og hafa lagt sig alla fram um að gera það tortryggilegt.

Þetta er prófsteinn á það hvort má sín meira, virðing ríkisstj. fyrir gerðu samkomulagi, orðheldni hennar og heiðarleiki í samskiptum við aðila eða hvort hitt vegur þyngra þegar sérhagsmunaseggir framsóknarkerfisins setja undir sig hornin og ætla enn einu sinni að keyra yfir allt og alla til að tryggja sína sérhagsmuni og það með jafnógeðfelldum aðgerðum og hér hefur verið lýst, nefnilega með framsali á skattlagningarvaldi sem út fyrir sali Alþingis á ekki að fara. En það eru þeirra ær og kýr. Það er einkenni á vinnubrögðum framsóknarmanna, svo sem berlega hefur komið fram, ekki bara nú heldur í fleiri málum.

Herra forseti. Ég legg eindregið til að Alþingi sjái sóma sinn í því að vísa svo gerræðisfullri lagasetningu á bug. Takist það ekki vil ég til vara gera þá tillögu að Alþingi leggi lið þeirri brtt. sem fram er lögð á þskj. 1066. En dugi það ekki til og ætli stjórnarmeirihlutinn að hafa sinn gang í þessu máli er ekki eftir annað en að vara þá við afleiðingunum þótt síðar verði.