14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

38. mál, einkarekstur á heilsugæslustöðvum

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Tarna var heldur skrýtin þula. Mig undrar það nú ekki að gert sé ráð fyrir að jafnsjálfsögð breyting og hér er verið að tala um að gerð verði á lögunum um heilbrigðisþjónustu fari ekki í gegn umræðulaust ef skilningurinn á málinu er af því tagi sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Ég vil eindregið ráðleggja honum að leita ráða hjá þeim flokksmönnum sínum sem mest afskipti hafa haft af heilbrigðisþjónustunni, auk hans sjálfs vitaskuld, og einkanlega í borginni. Þetta vil ég ráðleggja honum áður en hann flytur næstu ræðu um grundvallarsjónarmiðin í þessu.

Skringilegt þykir mér að heyra hv. þm., sem vafalaust vill láta álíta sig nokkuð ábyrgan, halda því fram eftir að því er lýst yfir að möguleiki fyrir breytt rekstrarform yrði einungis opnaður að því tilskildu að hinum fullkomnustu faglegu kröfum um þjónustu verði fullnægt, að faglegu eftirliti verði beitt og fullnægt verði öllum þeim kröfum sem lögin setja almennt. Þetta opinberaði þvílíkar kreddukenningar, sem Alþb. hefur enn á sinni könnu þrátt fyrir þennan merkilega landsfund sem haldinn var um daginn og er óðum að hrista af þeim fylgið. Menn sjá ekki þar í sveit annað en eitthvað sem líkist uppboði á fólki hér fyrr á tíð eins og það var kallað eða kannske jafnvel hreppaflutninga eða eitthvað slíkt, ég veit ekki hvað hv. þm. var helst í huga, eftir að talað var um að nýta á allan hátt hina mestu faglegu þekkingu. Með hvaða rekstrarformi það svo er, það er ekki aðalatriðið. Frá mínu sjónarmiði er það heilbrigðisþjónustan sjálf sem er aðalatriðið, þjónusta við fólkið og bætt heilbrigðisástand landsmanna, en ekki hitt hvaða rekstrarform er. Það er hagfræði en ekki heilbrigðismál.