14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

45. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta er mjög mikið nauðsynjamál, sem hér er hreyft, hvort sem kvennaáratugur er eða ekki. Það er auðvitað eitt af mikilvægum verkefnum heilbrigðisþjónustunnar að reyna að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma eftir því sem kostur er og nú er sem betur fer til mikilvæg tækni til að hjálpa í því máli, sem er röntgenmyndataka á brjóstum, en krabbamein í brjóstum hefur eins og kunnugt er verið dánarorsök allt of margra kvenna vegna þess að ekki var unnt að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins mjög snemma eftir að hann kom til.

Það þarf að sjálfsögðu engar brýningar um þetta mál því að það var ljóst bæði í fyrra og nú og eins í vor, þegar fsp. var um þetta upp borin við þáv. heilbrrh., að ráherra heilbrigðismála hefur að sjálfsögðu fullan hug á því að koma þessu á, ekki síst vegna þess að nú er mjög fullkominn búnaður til í þessu skyni. Það er bæði búnaðurinn og aðstaðan sem til er nú hjá Krabbameinsfélagi Íslands og sérfræðiþekking er til í landinu til þess að hrinda slíkri rannsókn af stað.

Í tillögum heilbrrn. við undirbúning fjárlagafrv. nú í haust var farið fram á fjárveitingu í þessu skyni, en á það var ekki fallist þannig að það er ekki inni í frv. En það er að sjálfsögðu ljóst að það kemur í hlut Alþingis að taka ákvörðun um hvort og hvenær skipuleg leit að brjóstakrabbameini hefst hér á landi. En það er fullur stuðningur við það af hálfu heilbrrn. að sjálfsögðu.