14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

46. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að gera tvær athugasemdir við ræðu hv. 3. landsk. þm.

Í fyrsta lagi vil ég andmæla þeim ummælum að það sé beðið og ekki hafst að á meðan tillögur þessarar umræddu nefndar liggja ekki fyrir. Ég lét þess getið í svarræðu minni, sem ég vil ítreka, að það er einmitt verið að vinna að þessu máli. Vinna að þessu máli er í fullum gangi hvað sem líður tillögum þessarar nefndar.

Það er verið að vinna að því að ganga frá samkomulagi við borgina um húsnæði, um möguleika til að reka unglingageðdeild. Nánar tiltekið, það stendur í 6. gr. fjárlaganna, sem við meðhöndluðum hér í fyrra, að heimilt sé fyrir ríkið að gera makaskipti við Reykjavíkurborg, annars vegar um jörðina Úlfarsá í Mosfellssveit og hins vegar húseign á Dalbraut, til að reka þar unglingageðdeild. Það er því einmitt í samræmi við það sem hv. þm. var að nefna. Það er ekki verið að tala um að bíða eftir kostnaðarsamri nýbyggingu heldur þvert á móti. Verið er að tala um að taka til notkunar húsnæði sem til er og framkvæma þessa heimild sem er í fjárlögum.

Málið er því að mínu viti mjög skammt undan og alrangt, sem hv. þm. segir, að menn bíði og hafist ekki að eða ætli að bíða eftir kostnaðarsamri nýbyggingu. Mér þykir fyrir því, herra forseti, að vera að flytja sama svarið tvisvar en ég tel það nauðsynlegt þegar svo er að heyra sem fyrirspyrjandi hafi ekki heyrt það sem sagt var.