19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

94. mál, vímuefnasjúklingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. svörin.

Það er nú svo að mér hefur hreinlega láðst að geta þess að með vímuefnum á ég eingöngu við ólöglega vímugjafa. Ég á ekki við lögleg vímuefni eins og áfengi og tóbak og annað slíkt. Það sem ég á við eru ólögleg efni.

Það er gleðilegt til þess að vita að það skuli vera í burðarliðnum að koma á fót svokallaðri unglingageðdeild því að ekki mun af veita, en það ber að athuga það auðvitað að neysla örvandi og róandi lyfja og annarra efna er síður en svo einskorðuð við unglinga.

Það er umhugsunarvert í þessu sambandi að nú er svo komið að hreinræktaðir áfengisneytendur eru að verða sjaldgæf sjón á Vogi t.d. Þar eru t.d. fertugir hassneytendur mjög algeng sjón. Þess vegna er athugunarvert fyrir yfirvöld, og þess vegna er þessi fsp. hér fram komin m.a., að vandamálið virðist fara svo mjög ört vaxandi.