19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 108 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um þátttöku Íslands í svonefndu Eureka-vísindasamstarfi Evrópuþjóða. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég valdi þann kostinn að beina þessari fsp. til hæstv. forsrh.

Í fyrsta lagi er hér spurt um afstöðu ríkissfj. Í öðru lagi þá heyra þessi mál undir a.m.k. - ja, hugsanlega þrjá til fjóra ráðherra sé allt skoðað grannt. Og í þriðja lagi hefur hæstv. forsrh. sýnt framtíðartækni ýmiss konar verulegan áhuga í orði a.m.k. og skipað sérstaka nefnd til að gera eins konar framtíðarspá fyrir þróun mála í íslenska þjóðfélaginu næstu árin bæði á sviði vísinda og tæknimála.

Þess vegna er sú fsp. hér fram borin hvort ríkisstj. hafi tekið afstöðu til þátttöku Íslands í svonefndu Eureka-vísindasamstarfi Evrópuþjóða. Það er nefnilega svo, að 18 Evrópulönd hafa tekið höndum saman um þetta vísindasamstarf. Þeirra á meðal eru öll NorðurIöndin en einhverra hluta vegna er Ísland ekki þar með. Það er greinilegt af blaðaskrifum um þetta mál að menn stefna þarna hátt og hugsa til stórra hluta á sviði nýtækni ýmiss konar. Það hafa verið haldnir ráðherrafundir um þetta mál, m.a. norrænir ráðherrafundir, en einhverra hluta vegna hefur Íslands aldrei þar að neinu verið getið og Ísland tekur ekki þátt í þessu samstarfi. Þess vegna hef ég spurt hvort ríkisstj. hafi tekið afstöðu til þátttöku Íslands í þessu vísindasamstarfi.

Þess má geta hér að lokum að þetta samstarf á að ná til upplýsingatækni af ýmsu tagi, þess sem kallað er gervigreind, fjarskiptatækni, gagnasendinga, líftækni, þeirrar tækni sem fæst við nýjar efnisgerðir af ýmsu tagi og raunar er þetta samstarf Evrópuþjóðanna hugsað með nokkrum hætti sem svar þeirra við hinni vísindalegu og rannsóknatæknilegu hlið þess sem kallað hefur verið stjörnustríðsáætlun Reagans Bandaríkjaforseta, en skýrt skal tekið fram að þetta samstarf Evrópuþjóðanna tengist ekki neins konar hernaðartækni.

Meðal Norðurlandaþjóðanna ríkir mikill áhugi á þessu samstarfi og mér er kunnugt um það af blaðaskrifum að í Danmörku hafa komið fram a.m.k. hundrað hugmyndir um verkefni sem dönsk fyrirtæki og danskir framkvæmdaaðilar vilja vinna að innan þessa samstarfs.