19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. tók nú af mér ómakið að hluta til. Það væri gott ef við gætum haft gagn af þessu samstarfi. Ég óttast þó að þetta verði okkur of dýrt, þ.e. ég hygg að vegna kostnaðar sem þarna er lagt í höfum við ekki þan fyrirtæki sem geti borið þann kostnað. Og þetta er fyrst og fremst - og það vil ég undirstrika - samstarf stórfyrirtækja sem leggja þarna sameiginlega peninga til vísinda- og rannsóknastarfsemi. Af íslenskum fyrirtækjum sé ég ekki mörg sem réðu við að gerast þarna beinir aðilar að, jafnvel ekki SÍS. Ég hef rætt þetta mál t.d. við sendiherrann okkar í Genf, Hannes Hafstein, og hann var þessarar sömu skoðunar.

Það er sjálfsagt að fylgjast með þessu samstarfi. En ég á ekki von á beinni þátttöku okkar eða að skilyrði skapist fyrir beinni þátttöku okkar, þá þegar af kostnaðarástæðum - og þá er ég ekki að tala um ferðalög, heldur rannsóknakostnað - nema þá í samstarfi við aðra. Það held ég að sé einmitt sú leið sem við eigum að reyna að fara og sem mér fannst hæstv. menntmrh. vera inn á.