19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

Okurmál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi fsp. til þriggja ráðherra. Þeir svöruðu þeim fsp. með þeim hætti sem þingheimur veit um og ég tel að mjög margir þm. þurfi að ræða við þessa hæstv. ráðherra áfram. Nú er það svo að hæstv. viðskrh. er löngu farinn af fundi og hafði hann þó uppi þau orð um það fólk sem hefur orðið að sæta þeim kjörum sem bjóðast á okurmarkaðnum að það er brýnt að eiga orð við þann hæstv. ráðherra. Í annan stað mun hæstv. forsrh. vera að fara af fundi. Ég tel að það sé algerlega óeðlilegt að þm. geti ekki áfram átt orðastað við þessa ráðherra og rætt þau alvarlegu mál sem hér eru uppi. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé algjörlega fráleitt að gera tilraun til að ljúka þessari umræðu á knöppum tíma, eins og hæstv. forseti hefur hugsað sér að gera, og þess vegna væri langeðlilegast að þessi umræða héldi ósköp einfaldlega áfram á morgun, það yrði umræða í sameinuðu þingi um þessi mál á morgun.

Það er ekkert sem rekur svo á eftir að það sé ekki hægt að ræða þessi alvarlegu mál þar áfram. Það þarf auðvitað að fást botn í það hér og nú hvað ríkisstjórnin ætlar að gera gagnvart því fólki sem er að missa eigur sínar á nauðungaruppboðum því það er fólkið sem hér skiptir máli. Spurningunum sem snúa að þessu fólki og það beinir til Alþingis Íslendinga hefur enginn ráðherra gert tilraun til að svara í dag. Þess vegna hlýtur þessi umræða að halda áfram og ég mótmæli því að hún fari fram með þeim hætti að ráðherrar séu fjarstaddir. Ég skora á hæstv. forseta að tryggja að þeir séu hér á fundi þannig að unnt verði að eiga orðastað við þá. Annað er að mínu mati algerlega ólíðandi.