21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

5. mál, jarðhitaréttindi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og deildina rekur vafalaust minni til hafa þm. Alþfl. oftlega flutt frv. um þetta sama efni, þ.e. um þjóðareign á jarðhitaréttindum. Þessi frv. hafa ekki verið nákvæmlega eins og það frv. sem hér er flutt, en þau hafa miðað að hinu sama að því leytinu að skapa skýr ákvæði um það að hvaða leyti jarðhiti skyldi vera sameign þjóðarinnar og að hvaða leyti hann gæti verið séreign þess sem á jarðskorpuna á hverju svæði.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um það sem greinir þessi frv. að. Hitt er ljóst að það skortir löggjöf á þessu sviði. Vafalaust getur menn greint á um það, á hugsjónagrundvelli eða af öðrum ástæðum, að hve miklu leyti hér skuli vera um sameign að ræða eða ekki, en það sem er að hjá hv. deild og hv. Alþingi er að hafa ekki, þrátt fyrir ítrekaðan málatilbúnað af þessu tagi, tekið afstöðu til málsins. Ég minnist þess að þegar ég mælti fyrir þessu frv. okkar Alþýðuflokksmanna varðandi jarðhitaréttindi í fyrra tók hv. þáverandi iðnrh. svo til orða að hann teldi þetta hið athyglisverðasta mál, það væri verið að vinna að því í ráðuneytinu og hann vildi leggja því lið að hér fengist niðurstaða sem sem flestir gætu vel við unað. Nú hefur sú niðurstaða ekki séð dagsins ljós, hvorki í fyrra né hitteðfyrra og ekki fram til þessa dags.

En því tek ég hér til máls fyrst og fremst að ítreka nauðsyn þess að á þessu máli verði tekið þannig að afstaða Alþingis liggi skýr fyrir og heiti nú á menn í hvaða ráðherrastólum sem þeir sitja þessa stundina að veita þessu máli lið og brautargengi þannig að afstaða Alþingis til málsins liggi skýr fyrir.