20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

5. mál, jarðhitaréttindi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta eru auðvitað algjörlega óeðlileg vinnubrögð af hæstv. forseta. Ég vona að hann sjái það í hendi sér þegar hann hugleiðir málið augnablik. Flm. málsins hafði lagt til í upphafi að málið færi til sérnefndar-og sérstaklega lagt áherslu á að málið færi til sérnefndar. Því var hafnað. Flm. leggur síðan til að málið fari til allshn. Síðan kemur einhver þm., að vísu formaður hv. iðnn., og leggur til auðvitað að málið fari til sinnar nefndar. En þó að á bak við þá kröfu sé kannske býsna mikill þungi þar sem þetta er hans eigin nefnd, og það er skiljanlegt að hann leggi kapp á það, þá er hans tillaga brtt. við tillögu flm. og því eðlilegt að bera það fyrst upp hvort málinu verði vísað til allshn. Ég fer þess eindregið á leit við hæstv. forseta að hann láti atkvæðagreiðslur ganga í þeirri röð.