20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

67. mál, orkulög

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú ræða sem formaður iðnn., hv. þm. Páll Pétursson, flutti var sterkur rökstuðningur fyrir beiðni minni, sem ég setti fram áðan, um að þetta mál verði kannað nánar til næsta fundar. Það hefur þegar komið í Ijós að hv. þm. Páll Pétursson veit ekki hverjir eru í þessari nefnd. Hann gleymdi t.d. að nefna hér Friðrik Sophusson, varaformann Sjálfstfl. og einn höfuðtalsmann hans í þessum málaflokki hér á Alþingi. Það eru alvarleg mistök hjá formanni nefndarinnar að gera sér ekki grein fyrir að sjálfur varaformaður Sjálfstfl. situr með honum í nefndinni.

Það er í öðru lagi rangt með farið hjá formanni nefndarinnar að Kjartan Jóhannsson sitji í nefndinni. Hann situr ekki í nefndinni. (PP: Það var rangt með farið.) Já, það var rangt með farið. (PP: Það er Guðrún Agnarsdóttir sem situr í nefndinni.) Formaður nefndarinnar hefur ruglast á Kjartani Jóhannssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur í lýsingu sinni á því hverjir eru í nefndinni og er þess vegna nokkuð ljóst að formennskan fer honum ekki vel úr hendi. Það er grunnatriði að formenn í nefndum séu nokkurn veginn klárir á því í fyrsta lagi hverjir eru í nefndinni og hvers kyns þeir eru. en verði ekki á þau mistök sem fram hafa komið hjá formanni nefndarinnar Páli Péturssyni.

Öll þessi umræða sem við vöktum um þetta mál, hv. þm. Guðrún Helgadóttir og ég, hefur orðið til þess að upplýsa fyrir deildinni allri að mjög mikið skortir á að formennskan í iðnn. sé með slíkum glæsibrag að það sé réttlætanlegt að deildin taki heilan klukkutíma í að vísa hverju málinu á fætur öðru til þessarar nefndar. Ljóst er að forseti deildarinnar verður að láta það verða sitt fyrsta verk að kynna fyrir formanni nefndarinnar nú, einum og hálfum mánuði eftir að þing hefur hafist eða svo, hverjir eru í nefndinni. Ég vil þess vegna ítreka þá formlegu beiðni mína til hæstv. forseta að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað og að gerð verði gangskör að því að kynna fyrir formanni nefndarinnar hverjir sitja í nefndinni og kannað rækilega hvenær hún eigi að halda fundi og með hvaða hætti. Einnig, eins og ég lagði fram ósk um áðan, að kynnt verði fyrir deildinni hvað nefndin hefur verið virk í því að skila málum frá sér á síðasta þingi, hve marga fundi hún hefur haldið og annað í þeim dúr.

Ég vil svo að lokum leiðrétta enn einu sinni hv. þm. Pál Pétursson þegar hann gat þess að það væri stjórnarandstaðan sem sérstaklega væri að hafa orð á þessum vanköntum á formennsku hans í nefndinni. Það var enginn annar en samflokksmaður hans, hv. ritari þessarar deildar Ólafur Þ. Þórðarson, sem rakti sérstaklega í greinargerð fyrir atkvæði sínu að á tveimur þingum hefði formanni nefndarinnar ekki tekist eða hann ekki viljað skila þessum málum frá sér. Þess vegna ákvað ritari deildarinnar, framsóknarmaðurinn hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að standa með stjórnarandstöðunni í afgreiðslu á fleiri málum hér á fundinum.