20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminum Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Með frv. er lagt til að lögfest verði samkomulag sem tekist hefur milli ríkisstjórnarinnar og Alusuisse um tilteknar breytingar á aðalsamningi þeirra frá 28. mars 1966, um álbræðslu við Straumsvík. Breytingar þessar eru settar fram í svonefndum 4. viðauka við aðalsamninginn, dags. 11. nóv. 1985, sem iðnrh. hefur undirritað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með fyrirvara um staðfestingu af hálfu Alþingis. Er viðaukinn lagður fram sem hluti af frv.

Með gerð þessa 4. viðauka við aðalsamninginn er lokið þeim viðræðum sem ríkisstjórnin og Alusuisse urðu sammála um að taka upp um endurskoðun á gildandi ákvæðum aðalsamnings varðandi skattamál Íslenska álfélagsins hf. Hefur endurskoðun þessi haft þann megintilgang að gera reglur um framleiðslugjald ÍSALs skýrari og öruggari í framkvæmd, þannig að síður verði hætta á deilum í því efni, og tryggja eðlilegar skatttekjur af starfsemi félagsins.

Viðræðurnar hafa farið fram á grundvelli bráðabirgðasamnings frá 23. sept. 1983, sem kynntur var á Alþingi sama haust, og hafa verið leiddar til lykta í framhaldi af undirritun 3. viðauka við aðalsamninginn frá 5. nóv. 1984 sem staðfestur var af Alþingi með lögum nr. 104 frá 30. nóv. 1984.

Sameiginleg niðurstaða um meginatriði endurskoðunarinnar náðist milli aðila á liðnu sumri og var staðfest með skriflegu samkomulagi 18. júlí á þessu ári. Batt núverandi iðnrh. Albert Guðmundsson endahnútinn á það starf og er samningurinn nú lagður fyrir Alþingi til staðfestingar.

Efni 4. viðauka er í þremur meginþáttum.

Í fyrsta lagi er samið um nýja tilhögun á framkvæmd þeirra reglna er fjalla um mat á hráefniskostnaði álbræðslunnar og verðlagningu afurða hennar með tilliti til skatts. Reglan um viðskipti óháðra aðila verður áfram grundvallarregla, en verður hér eftir framkvæmd þannig að tekin er upp ákveðin viðmiðun sem ætlað er að gefa sem besta mynd af viðskiptum á hverjum tíma. Hvað álverið varðar er tekin upp ný formúla um skilgreiningu á heimsmarkaðsverði á áli hliðstæð þeirri formúlu sem byggt er á varðandi orkuverð samkvæmt hinum breytta rafmagnssamningi frá liðnu ári. Verður allt ál, sem ÍSAL selur til Alusuisse, verðlagt til skatts samkvæmt þessari formúlu sem styðst við markaðsverð bæði austan hafs og vestan og bæði í frjálsri sölu og við kaup frá framleiðendum.

Mati á verði súráls verður hagað þannig að kostnaðarverð ÍSALs á súráli til Alusuisse verður metið til skatts eftir ákveðnu vöruskiptahlutfalli milli súráls og áls. Er hlutfallið, sem ákveðið er með samningnum, þannig að verð hverrar einingar af súráli veður 12,50% af sömu einingu af áli á heimsmarkaðsverði.

Verð ÍSALs á rafskautum verður ákveðið til skatts samkvæmt samningsbundnu verði milli Alusuisse og ÍSALs á viðkomandi ári með þeim fyrirvara að það verð sé ekki hærra en meðalverð í sölum Alusuisse á rafskautum til þriðja aðila á sama ári. Reglurnar um hin sérstöku viðmiðunarverð verða háðar endurskoðun á fimm ára fresti.

Í öðru lagi er samið um nýjar reglur varðandi fyrningar á fastafjármunum ÍSALs, í tengslum við aukningu á eigin fé fyrirtækisins, og reglur um endurmat á bókfærðu verði eigna og skulda. Varðandi fyrningu hefur verið samið um tiltekið endurmatsverð á núverandi fastafjármunum ÍSALs, sem óafskrifaðir eru, með hliðsjón af raunvirði þeirra í ársbyrjun 1985. Verður það fyrningargrunnur í framtíðinni og fjármunirnir fyrndir á næstu tíu árum. Samkvæmt eldri reglum hefði fyrning þeirra átt að dreifast á næstu fjögur til sex ár að mestum hluta.

Við fyrninguna verður tekið tillit til endurmats sem miðast við erlenda mynt, en fyrning vegna gengistapa af lánum fellur hins vegar niður. Með nýju reglunum verða afskriftir hjá ÍSAL lægri en ella næstu árin, en hærri í staðinn þegar lengra líður og afskriftastofninn hækkar nokkuð.

Á móti þessu síðast nefnda kemur að samkvæmt samkomulagi aðila hefur Alusuisse lagt fram nýtt eigið fé til ÍSALs á yfirstandandi ári að upphæð 40 milljónir bandaríkjadollara. Hefur eiginfjáraukningin verið notuð til að lækka núverandi skuldir ÍSALs og þar með til beinnar lækkunar á vaxtagjöldum. Þessi ráðstöfun hefur í för með sér grundvallarbreytingu á efnahag og rekstrarafkomu fyrirtækisins og mun vaxtasparnaður nema mun hærri fjárhæð en hækkun fyrninga.

Í þriðja lagi er samið um að ákvæðin um lágmarksskatt ÍSALs verði óbreytt þannig að félagið greiði framleiðslugjald sem nemur 20 bandaríkjadollurum á hvert tonn af framleiddu áli án tillits til tekna. Á hinn bóginn verður gerð breyting á því framleiðslugjaldi sem er umfram lágmarksgjald þannig að árleg fjárhæð þess fari eftir nettóhagnaði á undanfarandi ári samkvæmt ákveðnum skattstiga á bilinu 35-55%. Þessi viðbótarskattur verður greiddur í dollurum eins og verið hefur og hagnaður umreiknaður í dollara með tilliti til skattstigans.

Áður en gerð er nánari grein fyrir samningnum og einstökum atriðum hans er rétt að rifja í stuttu máli upp aðdraganda samnings þessa.

Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð sumarið 1983 höfðu um nærri þriggja ára skeið staðið yfir alvarlegar deilur milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og Alusuisse hins vegar um skattamál Íslenska álfélagsins.

Fljótlega eftir að Sverrir Hermannsson tók við embætti iðnrh. skipaði hann sérstaka nefnd, samninganefnd um stóriðju, til þess að annast viðræður og samninga um orkufrekan iðnað. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að hefja viðræður við Alusuisse með það fyrir augum að komist yrði að samkomulagi um meðferð deilumála fyrirtækisins og íslenska ríkisins og að orkuverð yrði hækkað.

Haustið 1983 tókst bráðabirgðasamningur milli ríkisstjórnarinnar og Alusuisse og var hann undirritaður 23. sept. 1983. Með bráðabirgðasamningnum var lagður grundvöllur að heildarviðræðum um málefni álversins í Straumsvík. Í honum var, auk áfangahækkunar raforkuverðs, samið um að taka upp viðræður um eftirfarandi atriði: Lausn deilumála varðandi skattgreiðslur ÍSALs 1976 - 1980, endurskoðun orkuverðs, endurskoðun reglna um framleiðslugjald ÍSALs í þeim tilgangi að gera ákvæðin skýrari og tryggari og draga úr hættu á deilum um skattgreiðslur, og möguleika á stækkun álversins.

Með undirritun 3. viðauka við aðalsamninginn og fylgisamninga hans, sem staðfestir voru á Alþingi 30. nóv. 1984, voru fyrstgreindu atriðin tvö leidd til lykta. Í framhaldi af staðfestingu 3. viðaukans var hafist handa um þriðja meginatriðið, heildarendurskoðun á samningssambandi ríkisstj. og Alusuisse, þ.e. endurskoðun reglna um framleiðslugjald ÍSALs.

Í sumar tókst síðan samkomulag um meginatriði endurskoðunar á skattareglum ÍSALs sem áður er getið og undirritað var 18. júlí í sumar. Samkomulagið var kynnt á ríkisstjórnarfundi hinn 18. júlí og í samræmi við ákvæði þess var lögfræðingum aðila falið að vinna að gerð endanlegs texta að formlegum samningi þar sem efni samkomulagsins yrði fellt inn í gildandi aðalsamning, en sá breytingarsamningur yrði síðan lagður fyrir aðilana til samþykktar og jafnframt fyrir Alþingi til staðfestingar.

Samkomulag náðist um endanlegan texta hinn 11. nóv. 1985 og var viðaukinn undirritaður af Albert Guðmundssyni iðnrh. og dr. Dietrich Ernst, framkvæmdastjóra Alusuisse, í Reykjavík þann dag.

Í viðræðum aðilanna var í upphafi fjallað um helstu kosti, sem almennt kæmu til greina varðandi skipan skattlagningar á fyrirtæki eins og ÍSAL, og um bókhaldsaðferðir, markaðsaðstæður og annað sem líta þyrfti til. Voru m.a. athugaðir möguleikar á að breyta núverandi skattkerfi með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi með því að leggja aukna áherslu á skattgreiðslur án tillits til nettóhagnaðar, t.d. að taka upp hreinan veltuskatt.

Í öðru lagi með því að hverfa í auknum mæli að sköttum á nettóhagnaði, en með nýjum eða breyttum aðferðum, svo sem með því að taka upp svonefnda heildarsköttun þar sem skattskyldar tekjur einstakra starfsdeilda fjölþjóðafyrirtækis eru ákvarðaðar sem hlutfall af heildarhagnaði fyrirtækisins er svarar til hlutfallsins milli veltu þeirrar starfsdeildar af heildarveltu fyrirtækisins. Þessi aðferð hefur m.a. verið reynd í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, en er umdeild og óvíst um frekari útbreiðslu hennar. M.a. hefur þetta leitt til deilna milli bresku ríkisstjórnarinnar og Bandaríkjastjórnar um skattlagningu á breskum fyrirtækjum í Bandaríkjunum.

Í þriðja lagi með því að taka upp gildandi skattakerfi á Íslandi.

Í samningaviðræðunum kom fljótt í ljós að ekki voru tök á að fara fyrstnefndu leiðina og taka upp hreinan veltuskatt. Töldu forsvarsmenn Alusuisse útilokað að leggja aukna fastaskatta á ÍSAL í teljandi mæli, m.a. með tilliti til þess erfiða árferðis sem væri í áliðnaðinum. Yrði sjónarmiðið fremur að vera á þá leið að fyrirtækið greiddi skatta í hlutfalli við afkomu á hverjum tíma. Það ber að hafa í huga í þessu sambandi að veltuskattar í nágrannalöndunum eru yfirleitt lægri en það lágmarksgjald sem ÍSAL greiðir nú þegar.

Enn fremur kom í ljós að ekki yrðu tök á að fella ÍSAL undir íslensk skattalög eins og nú er ástatt og ýmsir erfiðleikar samfara þeirri ráðstöfun. Á hinn bóginn kæmi til greina að taka aukið tillit til reglna íslenskra skattalaga.

Að athuguðu máli varð niðurstaðan sú að rétt væri að beina endurskoðuninni í þá átt að endurbæta núverandi skattkerfi ÍSALs með áherslu á því að tryggja eðlilega skatta af hagnaði hjá fyrirtækinu á hverjum tíma eins og viðaukasamningurinn ber með sér.

Í samræmi við þetta meginmarkmið hefur í samningi þessum verið lögð áhersla á að treysta framkvæmd í skattamálum ÍSALs vegna núverandi álbræðslu. Teknar verða upp nýjar reglur í því skyni er verða munu til mikillar einföldunar og sparnaðar á fyrirhöfn og kostnaði við skattheimtu gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt munu þær draga stórlega úr líkum á deilum eins og þeim sem orðið hafa á liðnum árum.

Skal nú vikið að veigamestu breytingunum á einstökum greinum þessa 4. viðauka við aðalsamninginn. Í athugasemdum með frv. er gerð ítarleg grein fyrir samningsbreytingunum og vísast til grg. um skýringar á einstökum ákvæðum umfram það sem gert er í þessari framsögu.

Þær textabreytingar á aðalsamningi sem um er að ræða eru settar fram í 2. gr. 4. viðauka og er þeim ætlað að gilda frá og með 1. janúar 1985. Í 3. gr. viðaukans er síðan staðfest að Alusuisse hafi lagt fram jafnvirði 40 millj. bandaríkjadala til fjármögnunar ÍSALs, eins og um var samið í viðræðunum, og er það meðal forsendna þess að nýjar fyrningarreglur voru samþykktar. Um þau ákvæði aðalsamningsins sem breytt er með 2. gr. 4. viðauka er rétt að taka fram eftirfarandi:

Í málsgr. 25.03 er kveðið á um fjárhæð framleiðslugjaldsins miðað við magn frá og með þessum tíma og er grunntaxti gjaldsins 20 bandaríkjadollarar á tonn eins og verið hefur. Jafnframt er því slegið föstu að framleiðslugjald skv. grunntaxta af útskipuðu áli á tilteknu almanaksári skuli vera lágmarksframleiðslugjald vegna þess almanaksárs.

Í málsgr. 25.04 er síðan mælt fyrir um framleiðslugjald af nettóhagnaði ÍSALs fyrir hvert almanaksár. Er gjaldið reiknað sem hundraðshluti af nettóhagnaði umreiknuðum í bandaríkjadollara eftir meðalgengi ársins skv. skattstiga sem lýst er í greininni. Framleiðslugjaldið af hagnaði er til viðbótar grunngjaldinu þannig að það greiðist að því marki sem það er umfram lágmarksframleiðslugjald fyrir viðkomandi almanaksár.

Í 26. gr. verða ákvæðin um það heimsmarkaðsverð á áli sem við á að styðjast í sambandi við framleiðslugjaldið. Koma þau í stað fyrri ákvæða um heimsmarkaðsverð. Á það ber að minna að upphafleg ákvæði um heimsmarkaðsverð í 26. gr. urðu óvirk í nóvember 1984 þegar kanadíska álfyrirtækið ALCAN hætti að birta listaverð sitt fyrir Evrópumarkað er áður var haft til viðmiðunar. Hefðu aðilar því þurft að taka upp viðræður um nýtt heimsmarkaðsverð jafnvel þótt engin önnur endurskoðun hefði komið til.

Hið nýja heimsmarkaðsverð er sett fram í bandaríkjacentum á pund af áli, eins og áður var, og styðst við ferna viðmiðun, þ.e. skráð verð í viðskiptum á álmarkaði í London; skráð viðskipti um ál í Bandaríkjunum, samkvæmt birtingu í tímaritinu Metals Week; verð samkvæmt alþjóðlegri verðvísitölu franska álfyrirtækisins Pechiney; og söluverð í viðskiptum Alusuisse við óháða aðila. Eru hin tvö fyrrnefndu leiðbeinandi um verð á opnum markaði austan hafs og vestan en hin síðarnefndu eru framleiðendaverð.

Ljóst er að með notkun ofangreindra verðtilgreininga fæst traust og hagkvæm viðmiðun við mat á verði áls frá Straumsvík með tilliti til framleiðslugjalds miðað við þær aðstæður sem ríkt hafa í áliðnaði um nokkurt skeið. Hitt er og ljóst að breyting getur orðið á aðstæðum og með tilliti til þess er svo um samið að heimsmarkaðsverðið geti sætt endurskoðun á 5 ára fresti.

Í 27. gr. er ákvæði um nettóhagnað ÍSALs og útreikning á honum með tilliti til framleiðslugjalds og er greinin umskrifuð í heild. Inngangskafli málsgreinar 27.01 er óbreyttur frá því sem verið hefur frá upphafi. Þar er sett fram hin almenna regla um að útreikning á nettóhagnaði ÍSALs beri að grundvalla á viðurkenndum bókhaldsreglum sem eiga við um iðnaðarfyrirtæki á borð við ÍSAL og samkvæmt hlutlægum mælikvarða á viðskiptaháttum milli óskyldra aðila, svokölluð armslengdarverð. Hinar nýju reglur um ákvörðun á álverði og hráefniskostnaði með tilliti til framleiðslugjalds eru ekki ætlaðar til að breyta þessari grundvallarreglu heldur eru til að ná þeim markmiðum sem í henni felast.

Í málsgr. 27.02 eru settar fram nýjar reglur um fyrningu hjá ÍSAL er taka til fastafjármuna fyrirtækisins. Í a-lið er mælt fyrir um fyrningu allra núverandi fastafjármuna, þ.e. venjulegs verksmiðjubúnaðar, sem fyrna átti á 15 árum frá gangsetningartíma hinna ýmsu áfanga bræðslunnar, og mengunarvarnabúnaðar, sem fyrna skyldi á 8 árum frá uppsetningartíma. Í stað þeirrar fyrningar sem eftir var samkvæmt þessum reglum og tilheyrandi reglum um fyrningu á eignfærðum gengistöpum hjá félaginu skal nú fyrna afgangsverðmæti fjármunanna á næstu 10 árum út frá núverandi raunvirði þeirra.

Fyrningarstofninn er og hærri en áður var, aðallega vegna þess að endurmat eigna hjá ÍSAL vegna verðlagsbreytinga var áður einskorðað við afleiðingar gengistaps á skuldum og tók ekki tillit til hækkunar á verðmæti þeirra eigna sem fjármagnaðar voru með hlutafé. Þessi eldri tilhögun er gagnstæð því sem nú gildir almennt hér á landi, einkum eftir tilkomu nýrra tekjuskattslaga árið 1978. Þessu verður nú breytt og tekin upp almenn regla um endurmat allra fastafjármuna eins og um getur hér síðar. Þeirri ráðstöfun fylgir sú mikilvæga breyting að gengistap á skuldum hefur ekki lengur áhrif á fyrningu hjá ÍSAL heldur fer hún eingöngu eftir endurmati fastafjármunanna sjálfra. Hækkun fyrningarstofnsins með tilliti til þessa nemur 25 millj. bandaríkjadollara og er gerð með hliðsjón af sérstöðumati þannig að afskrifa megi. Fastafjármunir ÍSALs eru nú taldir vera 89 millj. bandaríkjadollara í stað andvirðis 64 millj. bandaríkjadollara áður. Bókfært verðmæti fastafjármuna ÍSALs í reikningum fyrirtækisins er hins vegar hærra en þetta eða 105 millj. bandaríkjadollara. Gengistöp af lánum, sem áður komu til hækkunar fastafjármuna, verða nú ekki færð til frádráttar á rekstrarreikningi heldur koma beint inn á gengismunarreikning sem færður verður með eigin fé á efnahagsreikningi. Frádráttur sem fyrirtækið gat nýtt sér með gengistöpum af háum erlendum lánum án tillits til afskriftartíma fastafjármuna mun þannig hverfa af rekstrarreikningi.

Erfitt er að meta áhrif breyttra fyrningarreglna og hækkunar á mati fastafjármuna á arðsemi og skattgreiðslu fyrirtækisins vegna þess að þróun ytri skilyrða, árferði og afkomusveiflur í áliðnaði munu þar hafa úrslitaáhrif. Fullyrða má þó að mæling á arðsemi og skattgreiðslu félagsins muni í framtíðinni verða meira í samræmi við það sem gerist um íslensk fyrirtæki.

Í b-lið málsgr. 27.02 eru settar reglur um fyrningu á nýjum fastafjármunum en um hana voru ekki bein ákvæði í fyrri samningi. Er þar settur mismunandi fyrningartími eftir tegundum eigna, hinn sami og nú gildir skv. íslenskum skattalögum.

Í c-lið er síðan gengisákvæði um fyrningar þar sem mælt er um að þær skuli fara eftir meðalgengi hinnar erlendu myntar, sem fyrning er miðuð við, eins og fyrning væri færð til gjalda mánaðarlega.

Í stafliðum d, e og f eru settar nýjar reglur um endurmat á eignum ÍSALs með tilliti til verðlagsbreytinga. Um þetta voru ekki bein ákvæði í fyrri samningum önnur en hin almenna regla um viðurkenndar bókhaldsreglur. Kom það ekki að sök í sambandi við veltufjármuni en hins vegar var eignfærsla fastafjármuna í öðru fari en almennt er orðið hér á landi, eins og fyrr var á minnst. Var talið rétt að taka upp ákvæði er heimila ÍSAL að endurmeta alla fastafjármuni eins og um ræðir í d-lið og farið í því efni eftir viðmiðun við erlenda mynt í stað innlendrar vísitölu.

Í f-lið kemur fram að endurmetnar fjárhæðir færast í endurmatsreikning, er sé hluti af eigin fé ÍSALs, og hefur endurmat ekki áhrif á færslur í rekstrarreikningi nema að því leyti sem fyrning samkvæmt a- og b-lið er undir því komin. Gengistöp vegna skulda færast þannig ekki í rekstrarreikning heldur í endurmatsreikning eingöngu, svo sem fyrr var getið.

Í málsgr. 27.03 er sett fram hin nýja regla um kostnað af súrálskaupum með tilliti til framleiðslugjalds sem verið hefur eitt vandasamasta viðfangsefnið við mat á tekjum ÍSALs undanfarin ár. Er nú fengin föst viðmiðun um þetta til næstu 5 ára þannig að súrál við hafnarbakka í Straumsvík kosti 12,50% af verði sömu þyngdar í álhleifum komnum á land í Rotterdam. Þetta svarar til þess að fyrir 1 tonn af áli fást 8 tonn af súráli.

Vegna samninga um viðmiðunarverð á súráli til skatts var aflað upplýsinga um verð í viðskiptum óháðra aðila, auk þess sem viðamiklar upplýsingar um súrálsviðskipti lágu fyrir vegna endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs fyrir árin 1980-1984 og vegna lausnar á deilu um skattgreiðslur ÍSALs árin 1976-1980.

Algeng.verðlagning á súráli að undanförnu í sölusamningum milli óskyldra aðila til lengri tíma var á bilinu 1 á móti 7,5 til 1 á móti 8,5. Samningar tókust um að miða verð á súráli til ÍSALs vegna skatts við verðhluttallið 1 á móti 8. Tekinn var sá kostur að miða við cif-verð á súráli til að komast hjá deilum um flutningskostnað og aðra kostnaðarþætti á verði súráls til ÍSALs.

Í málsgr. 27.04 er ný regla um mat á kostnaði af rafskautum til ÍSALs. Ekki voru tök á að semja þar um jafnákveðna viðmiðun og varðandi súrálið, m.a. af því að rafskaut eru ekki markaðsvara í sama mæli og súrál. Er því eðlilegt að líta til kostnaðarverðs ekki síður en markaðsverðs þegar meta skal gildi rafskauta í viðskiptum milli óháðra aðila. Hins vegar er ljóst að sala á rafskautum til þriðja aðila frá rafskautaverksmiðjum Alusuisse er orðin mikilvægur þáttur í starfsemi þessara verksmiðja, þannig að marktækt er og hagfellt að styðjast við verð til þessara aðila sem hámark þess verðs er setja megi upp gagnvart ÍSAL.

Í málsgr. 27.05 er mælt svo um að nota skuli hið umsamda heimsmarkaðsverð skv. 26. gr. til að ákvarða söluverð á því áli sem Alusuisse kaupir af ÍSAL með tilliti til framleiðslugjalds. Er þannig leyst úr vandasömu viðfangsefni sem jafnframt skiptir mestu máli um afkomu ÍSALs þar sem söluverð áls er stærsti einstaki liðurinn í rekstrarreikningi fyrirtækisins.

Í sjálfu sér ættu hin nýju ákvæði varðandi útreikning á söluverði á áli og verðlagningu á rafskautum og súráli ekki að hafa áhrif á arðsemi fyrirtækisins því hér er um það að ræða að aðilar hafa komið sér saman um þrengri skilgreiningu á verðlagningu í viðskiptum á milli óháðra aðila. Þó er ekki óeðlilegt að álykta að með ákvæðunum um endurskoðun á viðmiðunarstærðum á fimm ára fresti og því að samið hefur verið um þessar viðmiðanir við íslensk stjórnvöld þá sé líklegt að í heild muni hin nýju ákvæði hafa áhrif til aukinnar arðsemi. Um einstök tilvik má benda á eftirfarandi:

Að því er varðar tekjur af sölu á áli til Alusuisse og dótturfyrirtækja þess verður nú tekjufært á verði sem er samsett bæði af frjálsum og opinberum markaðsverðum í Bandaríkjunum og annars staðar, auk verða sem gefin eru upp og skráð af framleiðendum. Þessi breyting mun hafa í för með sér að reiknaðar sölutekjur verða óháðar innanfélagsverði hjá Alusuisse, en ein afleiðingin verður væntanlega að fram kemur mismunur miðað við fyrri tíð, þannig að þegar verð á álmörkuðum fer hækkandi verða reiknaðar sölutekjur skv. samningnum hærri en ella hefði orðið, en dæmið snýst við þegar verðlag fer lækkandi á mörkuðum. Þetta byggist á því að slík reikniverð frameiðenda breytast yfirleitt síðar en verðin á hinum frjálsa markaði.

Gerður hefur verið samanburður á sölutekjum samkvæmt hinni nýju formúlu og raunverulegum sölutekjum fyrir árin 1983 og 1984. Þar sýnir sig að fyrir árið 1983 hefðu komið út hærri tekjur en árið 1984 lægri og er það í samræmi við markaðsþróunina því álverð var á uppleið á árinu 1983 en fór lækkandi allt árið 1984. Nettóhækkun samkvæmt hinni nýju formúlu fyrir þessi tvö ár hefði orðið um 130 millj. kr.

Varðandi verð á rafskautum verður ekki fullyrt að reglurnar hafi í för með sér breytingu á arðsemi þar sem þær leiða til svipaðrar niðurstöðu og verið hefur í rekstri ÍSALs undanfarin þrjú ár. Verðið frá Alusuisse til ÍSALs hefur staðist samanburð við rafskautaverð til þriðja aðila og endurskoðendur ríkisstj. hafa í auknum mæli tekið tillit til þeirra við mat á seilingarverði. Er það ein af ástæðunum til þess að unnt þykir að hafa þau til viðmiðunar á næstunni. Um súrál má hins vegar ætla að reglurnar auki arðsemi hjá ÍSAL. Með þeim er gerður beinn samningur um hagstætt vöruskiptahlutfall miðað við súrálsviðskipti milli óháðra aðila.

Benda má á að nýgerður samningur hafði þau áhrif að súrálsverðið til ÍSALs lækkaði allverulega á þessu ári. Ekki er fært að tilgreina verðið nánar hér þar eð verðlagning afurða ÍSALs og verð á hráefnum til félagsins er viðskiptaleyndarmál.

Í málsgr. 27.07 eru ákvæði um reglubundna endurskoðun á ákvæðum málsgreina 26.01 um heimsmarkaðsverð á áli, um verð á súráli, um verð á rafskautum, svo og fyrningar. Verður endurskoðun á 5 ára fresti frá 31. des. 1984 að telja. Er hvorum aðila um sig heimilt að krefjast þessarar endurskoðunar ef breyting verður á aðstæðum er hafi teljandi áhrif á hinar efnahagslegu forsendur er liggja til grundvallar þessum ákvæðum.

Í 29. gr. aðalsamningsins verða ákvæði um greiðslu og uppgjör framleiðslugjaldsins, eins og verið hefur. Er hún hins vegar umskrifuð í heild vegna þeirra formbreytinga um álagningu skattsins sem fylgja hinum nýju ákvæðum.

Í málsgr. 29.01 og 29.02 er þannig aðeins um að ræða minni háttar orðalagsbreytingar. Á mgr. 29.03 eru breytingarnar víðtækari en eru þó fyrst og fremst til komnar fyrir þá sök að ekki er lengur nauðsynlegt að láta ÍSAL skila sérstöku yfirliti um framleiðslugjald af útskipuðu áli annars vegar og síðan tekjuframtali skv. endurreikningsskýrslu hins vegar. Nú verður unnt að sameina þessi gögn í einni framleiðsluskýrslu. Jafnframt verður óþarft að senda ríkisstj. ársreikninga ÍSALs sérstaklega á undan framleiðslugjaldsskýrslunni eins og áður var.

Samkvæmt nýrri málsgr., 29.03, á ÍSAL að leggja fram eina tæmandi framleiðslugjaldsskýrslu með upplýsingum um framleiðslu og hagnað ekki síðar en 1. júní næsta árs á eftir árinu sem skattur er goldinn fyrir. Er 1. júní jafnframt gjalddagi framleiðslugjalds af nettóhagnaði ársins.

Í málsgr. 29.04 koma síðan óbreytt ákvæði um að Alusuisse hafi byrðina af að sanna nettóhagnað ÍSALs fyrir viðkomandi ár og í málsgr. 29.05 eru óbreytt ákvæði um endurskoðun af hálfu ríkisstj.

Í mgr. 29.06 koma svo ákvæðin um hvenær endurskoðun skuli lokið og verður nú miðað við 1. október sama árs. Ákvæðin um skattinneign ÍSALs eru óbreytt að öðru en því að bætt er inn nýjum málslið þess efnis að eftir 1. janúar 1985 skuli ekki nota nema helming af framleiðslugjaldi umfram lágmarksgjald til skuldajafnaðar við skattinneignina eins og nú hefur verið um samið.

Í 4. viðauka eru loks ákvæði um nokkrar orðalagsbreytingar í 30. og 33. gr., þar sem tilvísanir í greinunum og orðalag í málsgr. 30.11 eru færð til samræmis við hina nýju skipan á framleiðslugjaldinu. Efnislega eru ákvæði 30. gr. hins vegar óbreytt.

Vandasamt er að meta töluleg áhrif endurskoðunar aðalsamningsins á arðsemi, hagnað eða skattagreiðslur ÍSALs. Eigi að síður er ljóst að ýmis ákvæði hins nýgerða samnings munu hafa áhrif á arðsemi og hagnað fyrirtækisins og þar með skattgreiðslur þess, þó svo að önnur atriði, svo sem rekstrarumhverfi fyrirtækisins, markaðsástand, þróun helstu kostnaðarliða og því um líkt, ráði þar úrslitum.

Þegar tillit er tekið til allra atriða hins nýgerða samnings er óhætt að fullyrða að áhrif samningsins á rekstur fyrirtækisins verði þau að arðsemi fyrirtækisins muni aukast og þar með líkindin á hagnaði af rekstri. Um skattgreiðslur má fullyrða að þær verða aldrei minni en verið hefur, en líkindi eru til þess að þær muni aukast í framtíðinni umfram það sem verið hefði, þegar jafnvægi kemst á álmarkaði í heiminum.

Fyrirtækið hefur fram til þessa dags ekki notfært sér þau ákvæði sem í samningum aðila hafa verið um varasjóðstillag. Verði þau notuð í framtíðinni þá mun það óskattlagða eigið fé fyrirtækisins sem þannig myndast verða með viðauka þessum verðtryggt með gengisviðmiðun, þannig að hinn óskattlagði hluti eigin fjárins mun ekki minnka með verðbólgu heldur haldast og þar af leiðir að hærri skatttekjur munu fást ef þessi varasjóður verður leystur upp einhvern tímann í framtíðinni.

Svo sem áður er vikið að náðist ekki samkomulag um hækkun lágmarksskatts. Aftur á móti er gerð veigamikil breyting á skattstiganum þar sem horfið er frá breytilegum tonnataxta miðað við álverð, þó með ákvæði um 35% lágmark og 55% hámark af hagnaði, en í staðinn tekin upp hrein hagnaðarviðmiðun um viðbótarframleiðslugjald umfram 20 bandaríkjadollara lágmarksgjald.

Athugun sem gerð var á líklegum framleiðslugjaldstekjum miðað við hinn breytilega tonnataxta skv. fyrri samningi sýndi að yfirleitt myndi viðbótargjaldið ákvarðast af ákvæðinu um lágmark 35% af hagnaði. Þessi niðurstaða byggðist í meginatriðum á tvennu: Annars vegar verðbólguþróun og breytingum á markaðsverði á áli og aðföngum áliðnaðar; hins vegar að tonnataxtinn sem um var samið hækkaði ekki í beinu hlutfalli af hækkun álverðs.

Með hinum nýju ákvæðum breytist lágmarksgjaldið ekki og skattstiginn byrjar í 35% af hagnaði en getur farið allt upp í 55% af hagnaði ef afkoma fyrirtækisins verður mjög góð á einhverju tilteknu ári. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að fyrirtækið hefur ekki heimild til þess að færa tap á milli ára eins og önnur fyrirtæki hér á landi.

Niðurstaðan af þessari breytingu á skattstiga er því sú að tekjur af framleiðslugjaldi geta ekki lækkað, en ef afkoma fyrirtækisins batnar þá verða tekjur af framleiðslugjaldinu hærri en verið hefði með hinu gamla tonnagjaldi. Þessa niðurstöðu má lesa af samanburði sem fram kemur síðast í grg. með frv.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir helstu atriðin í frv. því sem hér er mælt fyrir. Ég vil leggja áherslu á að með samningagerð þessari er lokið alllöngu tímabili deilna milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse. Tekist hefur að semja um óháða utanaðkomandi mælikvarða um innanfélagsviðskipti Alusuisse við ÍSAL þannig að komast má hjá kostnaðarsömum deilum um það mál.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á áhrif þeirrar aukningar á eigin fé sem fram fer í tengslum við hina nýju samninga. Langtímaskuldir ÍSALs 31. des. 1984 námu um 100 millj. bandaríkjadollara. Breyting skulda í eigið fé að jafngildi 40 millj. bandaríkjadollara bætir því verulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins og hefur í för með sér mikinn vaxtasparnað í rekstri. Miðað við núverandi markaðsvexti í Bandaríkjunum er varlega áætlað að hinn beini sparnaður í vaxtagjöldum nemi um 4 millj. bandaríkjadollara á ári sem afkoma fyrirtækisins batnar og það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á skattgreiðslu í meðalárferði.

Ég legg til, herra forseti, að eftir að þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.

Hjörleifur Guttormsson: Herra forseti. Ég vil nota þennan skamma tíma sem eftir er af reglulegum fundartíma deildarinnar aðeins til þess að koma á framfæri ábendingum varðandi framhald þessarar umræðu og einstaka málsþætti. Við erum hér í alleinkennilegri aðstöðu í þingdeildinni til að fjalla um þetta stóra mál, sem hér er lagt fyrir okkur, þar sem hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson er fjarstaddur og hér er mælt fyrir málinu af hæstv. samg.- og viðskrh., sem gegnir störfum fyrir iðnrh. þessa stundina.

Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við það að starfandi iðnrh. flytji mál sitt og standi hér fyrir máli, en hitt er jafnljóst að við verðum að ætlast til þess að við framhaldsumræðu um málið verði hæstv. iðnrh. hér viðstaddur umræður og geti svarað fyrir um þann gjörning sem hann ber pólitíska ábyrgð á með undirskrift sinni þann 11. nóvember s.l.

Mál þetta ber auðvitað einnig svip af þeim stóla skiptum sem urðu í ríkisstj. í byrjun þings. Sá aðili sem ber meginábyrgð á þessu máli skipar nú embætti menntmrh., hæstv. núv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, sem gekk frá samkomulagi um meginatriði þessa máls með undirritun á pappíra þar að lútandi þann 18. júlí s.l. Því má segja að það sé kannske ekki síst til hans sem við hljótum að beina máli okkar hér í umræðu um þessi efni, þó ég ætli ekki að vanþakka þau svör sem hæstv. starfandi iðnrh. væntanlega gefur við þeim fsp. sem ég mun bera fram hér við framhald umræðunnar.

Ég vek einnig athygli á því, og vil vekja athygli hæstv. forseta deildarinnar á því, að hæstv. fjmrh. hefur verulegan veg og vanda af því máli sem hér er um að ræða, þar sem er skattamál, og ég treysti því að hann verði viðstaddur hér framhaldsumræðu um málið. Og ekki hefði sakað, og getur reyndar talist mjög æskilegt að hæstv. forsrh. væri hér einnig viðstaddur á þingfundi eða a.m.k. að einhver af ráðherrum Framsfl. sé hér viðstaddur til þess að svara fyrir sinn flokk og fyrir ráðherralið Framsfl. í ríkisstj. í sambandi við þennan samning. Þessum ábendingum kem ég hér á framfæri vegna þess að fundi verður nú senn frestað.

Ég hef látið berast til fréttamanna nokkrar upplýsingar sem ég mun koma að síðar í máli mínu og gera aðgengilegar hv. þdm. hér á framhaldsfundi, upplýsingar sem snerta þetta mál. Það er annars vegar bréf sem ég hef fengið frá Ríkisendurskoðun til staðfestingar á útreikningum sem ég fékk unna á áhrifum þess samnings, sem hér er lagður fyrir, á skattgreiðslur ÍSALs miðað við annars vegar núgildandi kerfi og hins vegar nýjar reglur sem hér er ætlunin að lögfesta.

Ég vil vekja athygli á því og mun ræða það nánar á framhaldsfundi að sú staðhæfing, sem hér er borin fram af ríkisstj. og sem fram kom í máli hæstv. ráðh. hér áðan - og það má líka lesa í athugasemdum með þessu frv. - að tekjur samkvæmt þessu nýja kerfi sem hér er hugmyndin að lögleiða geti ekki orðið lægri en með hinu eldra kerfi. Þetta er alger fjarstæða. Þetta er úr lausu lofti gripið og alveg stórundarlegt að ríkisstj. skuli leggja hér fyrir Alþingi mál með þessum hætti í orðum og tölum þar sem misvísandi og ranglega er farið með áhrif þessara samninga. Ég hef hér töflur sem ég mun gera aðgengilegar þdm. á framhaldsfundi um þessi atriði; útreikninga sem staðfestir eru af Ríkisendurskoðun með bréfi til mín í gær.

Ég vek einnig athygli á því, þó að það snerti ekki þetta mál með jafnafdráttarlausum hætti og þessir útreikningar í sambandi við breytingu á skattkerfi og reglum þar að lútandi, að erlendis, nánar tiltekið í Ástralíu, eiga sér nú stað miklar umræður á þjóðþingi og í fjölmiðlum um skattadeilu, meint skattsvik dótturfyrirtækis Alusuisse í Ástralíu, sem er 70% eigandi að Gove-verksmiðjunni í Norður-Ástralíu, en sú verksmiðja sér álverksmiðjunni í Straumsvík fyrir súráli. Þar fer fram vinnsla á báxít og súráli og ég mun koma á framfæri við hv. þingdeild og hef afhent fréttamönnum nokkur ljósrit sem sýna umfang þeirra deilna sem þetta félag, Alusuisse, eða dótturfélag þess í Ástralíu sem heitir Ausfrasuisse, á nú í við áströlsk skattyfirvöld og má það vera til umhugsunar fyrir okkur þegar fjallað er um þennan samning, sem hér er um að ræða. - [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég hóf mál mitt áðan með örfáar mínútur til umráða ræddi ég sérstaklega um svip á þessari umræðu um stærsta mál sem lagt hefur verið fyrir þingið það sem af er, að mér sýnist, þar sem mælt er fyrir því af staðgengli núv. hæstv. iðnrh., hæstv. samgrh. og viðskrh., og hæstv. iðnrh. staddur erlendis. Ég vakti einnig athygli á því að hæstv. fráfarandi iðnrh., núv. menntmrh., bæri öðrum ráðherrum fremur ábyrgð á þeim málatilbúnaði sem hér liggur fyrir.

Ég gat þess og hafði raunar rætt það í gær við formann þingflokks Sjálfstfl., þegar mér var greint frá því að þessi umræða mundi fara fram hér í dag, að ég mundi ekki leggjast gegn því ef þeir ráðherrar sem málið snertir, þar á meðal hæstv. núv. menntmrh., gætu verið viðstaddir umræður til þess að ljá hæstv. starfandi iðnrh., Matthíasi Bjarnasyni, lið í sambandi við þetta mál og svör við fsp. sem kannske þarf fleiri en einn ráðherra til að greiða úr. Mér var tjáð að hæstv. menntmrh. mundi geta verið viðstaddur umræðuna.

Ég hafði talið það nokkuð sjálfgert að hæstv. fjmrh. mundi einnig vera viðstaddur þessa umræðu þar sem um stórfellt hagsmunaatriði fyrir íslenska ríkið og ríkissjóð sérstaklega er að ræða, skattamál, sem fellur stjórnarfarslega undir fjmrn., og því eðlilegt að hæstv. fjmrh. fylgist hér með og svari fyrir um það sem til hans er beint og varðar hans starfssvið.

Ég vil inna hæstv. forseta eftir því til viðbótar við það sem ég nefndi áðan hvort þessir hæstv. ráðherrar eru ekki væntanlegir í þingsal þannig að umræðan geti haldið áfram eins og um hafði verið talað.