25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þykist skilja það af máli hv. þm. sem hér hafa tekið til máls að þeir séu sammála því að rétt sé að haga framkvæmdum í vegamálum eins og ráð er fyrir gert og draga ekki úr þeim í sama mæli og öðrum framkvæmdum. Auðvitað er það rétt að þessar framkvæmdir eru áætlaðar minni en ráð var fyrir gert í vegáætlun, en eigi að síður verður um aukningu að ræða frá því sem er á þessu ári og fjármagn til þessara framkvæmda hefur nýst betur en áður vegna stóraukinna útboða við þessar framkvæmdir.

Komið hefur fram hjá bæði hv. þm. Karli Steinari og hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur að þessir hv. þm. eru andvígir skattheimtunni til þessara framkvæmda og telja að skera eigi niður á öðrum sviðum til að mæta þessum kostnaði. Og ég geri ráð fyrir að í meðferð frv. í hv. fjh.- og viðskn. komi fram tillögur af hálfu þeirra flokka um þetta atriði sem þá verða metnar.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir spurði hvaða áhrif þessi skattheimta hefði á vöruverð í landinu. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. hefur þessi aðgerð í heild sinni ekki teljandi áhrif á framfærsluvísitölu, en auðvitað er mjög erfitt að segja nákvæmlega til um það hvaða kostnaðaráhrif þessi bensínhækkun og þungaskattshækkun hefur í einstökum atriðum.

Þm. spurði einnig hvað þetta gjald mundi skila miklu til áramóta. Eins og fram kom í framsöguræðu skila þessar tekjur sér á næsta ári í ríkissjóð, og þær renna allar í vegasjóð til þeirra framkvæmda sem áætlaðar eru í þeim efnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera fleiri athugasemdir vegna þeirra ummæla sem fram hafa komið í þessari umræðu, herra forseti.