26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. heilbrrh. segir, að það ríkir um þetta mál sæmilegur friður, enda þótt hv. fyrirspyrjandi kjósi að það sé á annan veg og tali um tvo húsbændur á svæðinu. Ég tók það fram í svari mínu að þeir hefðu náð höndum saman um samvinnu sem allar líkur benda til og engin ástæða er til að óttast um annað en að verði góð og skili nægjanlegum árangri.

Hv. fyrirspyrjandi Guðmundur Einarsson varpar því fram að það séu tvær leiðir til, að fá úrskurð dómstóla og hefja lagaþrætu um málið, sem ekki verður gert, ekki a.m.k. ef minn vilji fær að ráða, eða að gefið verði út nýtt námaleyfi þar sem farið verði að þeim vilja sem fram kom í áliti Náttúruverndarráðs frá því í desember trúi ég 1983. En hefði svo verið gert hefði það þýtt ákvörðun um að stöðva fljótlega starfsemi kísilgúrvinnslunnar við Mývatn. Það eru áreiðanlega ekki réttar aðfarir að byrja fyrst á því að stöðva fyrirtækið, án þess að menn hafi gengið úr skugga um hvort starfsemi verksmiðjunnar hefur skaðvænleg áhrif eða ekki.

Fimm ára starfstímabil frá því í ágúst 1986 hefði þýtt stöðvun á rekstrinum vegna þess að fljótlega hefði verksmiðjan misst markað sinn og eigendur hennar hefðu ekki lagt til hennar til viðhaldsframkvæmda, sem eru allfjárfrekar framkvæmdir frá ári til árs, ef leyfið hefði hljóðað upp á fimm ára starfrækslu.

Hitt kann að vera, og við það bind ég fullar vonir, að ef í ljós kemur að hér er um hættulega starfsemi að ræða kunni ekki að líða fimm ár þar til við stöðvum verksmiðjuna, heldur aðeins þrjú ár. Það vantar kannske einhverja fjármuni til að framkvæma á fullri ferð rannsóknirnar eins og þeir náttúruverndarráðsmenn hafa gert áætlun um. Það kann vel að vera. En eins og fjármunir eru taldir hrökkva til í dag gera menn sér samt fyllstu vonir um að úrskurður fáist um það vandamál sem þarf að fá lausn á nú, starfsemi Kísiliðjunnar, innan þriggja ára. Það er meginmál.