26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

60. mál, alþjóðasamningur um afnám mismununar gagnvart konum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli hæstv. ráðherra á að mér finnst að þeir hafi sýnt vilja sinn í verki til þess að framkvæma það mál sem hér er á ferðinni, þ.e. afnám mismununar karla og kvenna. Ef við flettum upp í frv. til fjárlaga stendur hér á bls. 254, með leyfi forseta:

„Jafnréttisráð. Fjárveiting til Jafnréttisráðs hækkar úr 1573 þús. kr. í fjárlögum 1985 í 2251 þús. kr., eða um 43,1%.“ Síðar segir neðst í sömu grein, með leyfi forseta: „Veittar eru 95 þús. kr. til kaupa á smátölvu.“

Mér þykir þetta segja allt um vilja ríkisstj. til þess að Jafnréttisráð geti gert nokkurn skapaðan hrærandi hlut í að afnema mismunun karla og kvenna. Það segir sig auðvitað sjálft að þessir peningar eru ekki neitt. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og leyfa mér í leiðinni að spyrja hæstv. forsrh.: Hvað annað er í fjárlögum að finna sem mætti verða til þess að minnka þann hróplega mismun sem er á kjörum karla og kvenna í þessu þjóðfélagi? Ég hef farið nokkuð vel yfir frv. til fjárlaga og hef ekkert fundið.

En svo, herra forseti, vil ég nota tækifærið til þess að árna stærsta stjórnmálaflokki landsins til hamingju með niðurstöðu prófkjörs í Reykjavík þar sem af átta fulltrúum í öruggu sæti er ein kona. Ég held að það segi líka nokkuð um viðhorf þess góða stjórnmálaflokks til íslenskra kvenna.