27.11.1985
Efri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

65. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta mál sem varðar tekjustofna sveitarfélaga.

Þetta frv. er afskaplega einfalt í sniðum. Það fjallar um það að af vergum tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði greitt 1,16% til landshlutasamtaka sveitarfélaga í stað 1% eins og hingað til hefur verið. Meginástæðan fyrir því að þessi breyting hefur verið gerð er að sjálfsögðu sú að landshlutasamtökunum hefur fjölgað um eitt og því meiri fjárþörf en áður var, en gert ráð fyrir sömu fjárhæð til þeirra allra.

Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, kom á fund félmn. Hann gaf okkur ýmsar upplýsingar sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér. M.a. kom fram í hans máli að fjárhagsstaða sveitarfélaganna er mjög misjöfn, eins og hún hefur raunar verið oft áður, en þó taldi hann að á undanförnum allra síðustu árum hefði fremur verið dregin burst úr nefi dreifbýlissveitarfélaganna, þ.e. að þau ættu örðugra með en áður var að standa undir ýmsum lögboðnum kostnaðarþáttum, svo sem eins og skólahaldi. Fjárhagur dreifbýlissveitarfélaganna hefur sem sagt farið versnandi, því miður, samanborið við önnur sveitarfélög á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Félmn. varð sammála um að þoka þessu máli áfram og raunar samþykkja það óbreytt. Undir nál. rita allir nm. í félmn.