03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

139. mál, ákvarðanir um hollenskt herlið á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er greinir stjórnkerfi okkar Íslendinga samkvæmt stjórnarskránni á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Löggjafarvaldið hefur með varnarsamningi sem hefur lagagildi veitt ríkisstjórninni heimild til að framkvæma þennan varnarsamning, og í 3. gr. þess varnarsamnings er tekið fram að það sé háð samþykki Íslands hverra þjóða menn eru í varnarliðinu. Samkvæmt 11. gr. viðbætis við varnarsamninginn er greint frá því að sé veitt leyfi til þess að aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafi hér varnarlið njóti það varnarlið sama réttar og undirgangist sömu skuldbindingar og lið Bandaríkjamanna. Það er háð samþykki ríkisstjórnar Íslands ef aðrir en Bandaríkjamenn eru hér að störfum samkvæmt varnarsamningnum og þess var gætt að þessu leyti f þessu tilviki.

Með þetta mál var ekki farið með neinni leynd. Það var gert opinbert í ársbyrjun 1985 og um það var rætt í skýrslu minni til Alþingis. Sömuleiðis var það gert að blaðamáli á þessu ári. Þó hefur það ekki vakið meiri athygli en svo að ákaflega litlum tíma var varið í að ræða þetta tiltekna atriði í löngum umræðum um skýrslu mína um utanríkismál í maí s.l. Það er fyrst núna, þegar meira en misseri er liði frá þeim umræðum, raunar næstum því hálft ár frá því að frá þessum samningi var gengið, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson telur ástæðu til að taka þetta mál upp á Alþingi. Þetta sýnir látalæti hv. þm.

Ég vil svo taka það fram að þegar ég greindi frá þessu máli í ríkisstjórn og á ríkisstjórnarfundi voru flest þau efni málsins ljós sem skiptu máli og mun það koma fram í svörum mínum við seinni fyrirspurnum.