03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

140. mál, kostnaður vegna dvalar hollenskrar hersveitar á Íslandi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Á þskj. 154 ber hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fram fyrirspurn í sex liðum. Ég kýs að svara 1. og 2. lið fsp. sameiginlega. Svar mitt er að Hollendingar greiða sjálfir allan kostnað af veru sinni hér á landi og greiða hann varnarliðinu með þeirri undantekningu að þeir greiða flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli lendingargjöld. Það er samkomulagsatriði milli Hollendinga og Bandaríkjamanna hve þessi kostnaður nemur hárri upphæð og hvernig hann er áætlaður, en við höfum hins vegar gert Hollendingum að greiða lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli.

3. lið fsp. svara ég játandi.

4. lið fsp. er svarað með þeim hætti að samkomulag er um að sams konar reglur gildi að þessu leyti varðandi hollensku sveitina og lið Bandaríkjamanna. Styðjast ber við nánari skilgreiningar í viðbæti við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, 12. gr. 1. tölul. a og b. Kröfur af því tagi sem um ræðir í 2. tölul. 12. gr. vegna verknaðar manna í liði Hollendinga skulu afgreiddar annaðhvort fyrir viðkomandi íslenskum dómstólum, og er það raunar aukinn réttur miðað við Bandaríkjamenn, eða samkvæmt sambærilegri málsmeðferð og um getur í viðbæti varnarsamningsins frá 1951, 12. gr. 2. tölul. a - c. Ríkisstjórn Hollands mun endurgreiða þann kostnað sem ríkisstjórn Íslands verður fyrir samkvæmt málsmeðferð þessari.

5. lið fsp. er svarað á þennan veg: Hollenska flugsveitin mun lúta stjórn yfirmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og fylgja þeim reglum sem gilda um bandaríska varnarliðsmenn. Í formlegri beiðni Hollendinga, dags. 10. júní 1985, er svo að orði komist, með leyfi forseta flyt ég það á ensku eins og það er skráð í bréfinu, að hollenska liðið „will form an integral part of the US Forces at Keflavík“.

Almennt skal tekið fram að samskipti Bandaríkjanna og Hollands í varnarsamstarfi eru víðtæk og fara fram á ýmsum vettvangi. Þess vegna er ekki ástæða til að gera því skóna að til árekstra komi hvað varðar beitingu bandarískra eða hollenskra herlaga í sambandi við starfsemi hollensku flugsveitarinnar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt heimild í 11. gr. viðbætis við varnarsamninginn eru hollensku flugsveitinni veitt þau réttindi sem liði Bandaríkjamanna eru m.a. veitt í 2. gr. viðbætisins, enda gangist Hollendingar undir þar til greindar skuldbindingar. Þar er kveðið á um þau sérstöku tilfelli þar sem hollensk herlög munu gilda gagnvart íslenskum lögum.

Í fyrsta lagi er um að ræða brot Hollendinga gegn öryggi Hollands en ekki öryggi Íslands og refsiverð brot Hollendinga á hollenskum lögum en ekki íslenskum. Þetta er nákvæmlega eins orðað og er í varnarsamningnum gagnvart Bandaríkjunum.

Í öðru lagi: Þegar bæði ríkin hafa lögsögu hafa Hollendingar forrétt vegna brota Hollendinga varðandi eignir Hollands eða gegn mönnum í liði Hollands svo og vegna brota í tengslum við framkvæmd starfsskyldu. Þetta er sömuleiðis eins orðað og í varnarsamningnum gagnvart Bandaríkjamönnum. Hollendingar ganga að þessu leyti inn í réttindi Bandaríkjamanna, en bera líka samsvarandi skyldur og þeir.

6. lið fsp. er svarað með þeim hætti að varnarsamningur Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins er að sjálfsögðu sá grundvöllur sem byggt er á, eins og fram hefur komið. Samkvæmt 3. gr. varnarsamningsins og 11. gr. viðbætis hans er gert ráð fyrir þeim möguleika að lið frá öðrum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins sé hér staðsett. Til þess að svo verði þarf ekki breytingar á samningnum né nýja samninga við einstök ríki bandalagsins, enda liggur fyrir yfirlýsing Hollendinga um að lið þeirra sé hluti bandaríska varnarliðsins.