03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

Umferðamál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir að hefja umræðu um þetta alvarlega mál og ég vil beina þeirri beiðni til hæstv. heilbr.og trmrh. að frekar verði kannað á hvaða tíma dags þessi slys eiga sér stað. Mér finnst það ekki vera verkefni lögreglunnar að passa íslensk börn. Það er verkefni foreldranna sem ekki geta það vegna allt of mikillar vinnuþrælkunar. Það er verkefni starfsfólks dagvistarstofnana sem ekki eru til. Og það er verkefni skóladagheimila og starfsfólks þeirra og þau eru heldur ekki til. Það liggur satt að segja opið fyrir hverri venjulegri hugsandi manneskju af hverju íslenskum börnum er hættara við slysum en öðrum börnum. Sá aðbúnaður sem þeim er búinn í okkar landi er satt að segja fyrir neðan allar hellur, en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að svo væri komið að það kostaði tugi barna lífið.