03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Störf nefnda Alþingis hefur borið á góma á yfirstandandi þingi eins og stundum áður. Þar sem kveðið er á um það í nýjum þingsköpum að forsetar hafi sameiginlega umsjón með störfum þingnefnda þykir mér rétt að vekja athygli hér á þeirri staðreynd að ein nefnd Sþ., sem kosin var í upphafi þings, allshn. þingsins, hefur ekki haldið fund svo mér sé kunnugt utan það að hún mun hafa kosið sér formann.

Formaður allshn. er skv. yfirliti um nefndaskipun hv. 5. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson og varaformaður hv. 6. þm. Suðurl. Eggert Haukdal. Þetta eru ábyrgðaraðilar fyrir þessari þingnefnd en til hennar var í októbermánuði vísað fimm málum. Skv. yfirliti, sem ég fékk frá skrifstofu Alþingis í morgun, var á tímabilinu 22. okt. til 31. okt. vísað fimm þáltill. til þessarar nefndar. Hins vegar kemur það fram í þessari skrá að nefndin hefur ekki tekið till. þessar fyrir. Síðan eru liðnar nær sex vikur frá því málum var fyrst vísað til nefndarinnar. Á einni viku bárust nefndinni samtals fimm till. til þál.

Mér þykir þetta ekki í samræmi við þær umræður, sem hér hafa farið fram, um endurbætur á störfum þingsins. Það liggur fyrir að þingfundir eru styttri á þessu þingi en oft áður að ég hygg og ætti því að gefast meiri tími en áður til nefndarstarfa. Ef þetta á að vera uppskeran úr þeirri breytingu finnst mér ekki horfa til réttrar áttar. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann kanni hvað veldur því að þessi þingnefnd hefur ekki séð ástæðu til að taka þau mál fyrir sem til hennar hefur verið vísað og leitist við að hafa áhrif á að úr verði bætt.